Nýsköpun og þróun eru lykilorðin

Salóme Guðmundsd
IcelandicStartups
Published in
5 min readFeb 5, 2017

Þetta sagði Bjarni Benediktsson, ný settur forsætisráðherra, í stefnuræðu sinni á Alþingi á dögunum:

“Við verðum að byggja á hugviti til að framleiða vörur og þjónustu í alþjóðlegri samkeppni. Þar liggja sóknarfæri okkar til aukins útflutnings til framtíðar. Nýsköpun og þróun eru lykilorðin.”

Alþjóðavæðing og tækniframfarir gera það að verkum að staðsetning og landamæri skipta sífellt minna máli. Við stöndum frammi fyrir því tímabili í sögunni sem gjarnan er kölluð fjórða iðnbyltingin og einkennist af tengslum stafrænna kerfa og líkamlegra og líffræðilegra þátta. Þessi tækni er talin koma til með að umturna því hvernig við högum lífi okkar og eigum í samskiptum við hvort annað á miklu stærri skala en nokkru sinni fyrr.

Hlutir sem áður voru aðeins færir mönnum munu fá aukið vægi meðal véla sem verður til þess fallið að auka framleiðni og afköst svo um munar. Störf eins og við þekkjum þau í dag breytast eða hverfa alveg og önnur taka við.

Farsímar hafa gjörbreytt lífi okkar á örfáum árum. Við getum kallað fram nánast hvaða upplýsingar sem okkur vantar og átt samskipti á ótal vegu með aðeins einu tæki sem kemst fyrir í rassvasanum hjá okkur! Þessi virkni mun síðan margfaldast með þeim tækifærum og tækniþróun sem við okkur blasir; gervigreind, róbotum, sjálfvirkni, líftækni, skýjalausnum, þrívíddarprentun o.fl. ofl.

Sé rýnt í markaðsvirði stærstu fyrirtækja heims má sjá að alþjóðleg tæknifyrirtæki, nánar tiltekið Apple, Google, Amazon, Microsoft og Facebook, sem byggja starfsemi sína á hugviti og þekkingu eru þar fremst í flokki og taka við af þeim sem áður prýddu efstu sætin, bönkum og öðrum fyrirtækjum sem hafa byggt starfsemi sína á takmörkuðum auðlindum.

Nútímasamfélag mun taka gríðarlegum breytingum á komandi árum. Þeir sem hafa notið þessarar þróunar hvað helst fram til dagsins í dag eru þeir sem hafa haft fjármuni og aðgang að hinum stafræna heimi. Líklegt er talið að til lengri tíma litið muni fjórðu iðnbyltingunni fylgja fleiri vel launuð störf og aukin lífsgæði fyrir alþjóðasamfélagið, en þó vissulega einnig krefjandi samfélagslegar áskoranir. Samkvæmt greiningum Alþjóðlegu hagfræðistofnunarinnar munu milljónir starfa eins og við þekkjum þau í dag hverfa og önnur taka við.

Það er áhugavert að skoða hvernig þessi þróun hreyfir við ólíkum atvinnugreinum. Viðskiptavinurinn, hvort sem um ræðir einstaklinga eða fyrirtæki, er settur í forgrunninn. Það mun allt snúast um að bæta þjónustuna, gera upplifun okkar sem neytenda sem besta, einfaldasta og þægilegasta.

Amazon Go er concept sem var hleypt af stokkunum á síðasta ári. Það má eiginlega segja að þeir séu að prófa að yfirfæra hið vinsæla viðskiptamódel deilihagkerfisins á smásölumarkaðinn. Hugmyndin er að þú getir gengið inn í búð, náð í það sem þig vantar og labbað út. Alveg eins og þú pantar Uber, færð far og stekkur út. Engar biðraðir. Straumlínulagað ferli sem sparar tíma og fyrirhöfn fyrir alla aðila. Þessi tækni byggir m.a. á skynjurum, gervigreind, blockchain o.fl.

Það sem er áhugavert að skoða er hvers vegna Amazon velur að setja upp physískar verslanir. Í ljósi markaðsráðandi stöðu fyrirtækisins ættu önnur fyrirtæki á þessum markaði hiklaust að rýna vel í fyrirætlanir Amazon. Þeir eru ekki bara að fara inn á smásölumarkaðinn heldur boða þeir byltingu á allri upplifun og nálgun við viðskiptavininn. Áður en langt um líður gæti þetta fyrirkomulag ekki bara verið “nice” heldur hreinlega orðið eðlileg krafa neytenda.

Source: VisualCapitalist.com

Búist er við því að við eigum eftir að sjá aukið samspil á milli hins áþreyfanlega og stafræna heims. Netfyrirtæki eins og Amazon koma til með að bjóða upp á physískar vörur (Dash button) og hefðbundnar verlsanir meiri tækni. Í raun og veru skiptir það ekki máli hvaða atvinnugrein um ræðir, tækninýjungar hafa sífellt meiri áhrif á það hvernig við eigum í samskiptum við viðskiptavini okkar. Hvernig föngum við athygli þeirra, tryggjum viðskipti þeirra og gerum upplifun þeirra síðan eins góða og kostur er þannig að þeir deili henni með tengslaneti sínu?

Það er nánast ógerlegt að spá fyrir um framtíð tækninnar því hún þróast og breytist á ógnarhraða, en það eru ákveðnir þættir sem flestir sérfræðingar eru sammála um að muni keyra áfram tækniþróun næstu ára og hafa djúpstæð áhrif á líf okkar og umhverfi til frambúðar. Einn af þeim er gervigreind (e.artificial intelligence). Til að gefa ykkur örlitla innsýn í hvað um ræðir þá er gervigreind skilgreind sem hæfni véla og hugbúnaðar til að líkja eftir mannsheilanum. Þessi tækni hefur lengi verið til, en með tilkomu öflugari búnaðar og útbreiðslu tölvu og símtækja, hefur verið hægt er að nýta hana í miklu meira mæli. Tæknirisar á borð við Google, Amazon, Apple og IBM keppast allir við að þróa þessa tækni og ná leiðandi stöðu á markaði. Á Íslandi er starfandi sérstakt gervigreindarsetur við Háskólann Í Reykjavík auk Vitvélastofnunar Íslands.

Flest höfum við nýtt okkur tækni gervigreindar með einhverjum hætti, t.d. flokkun á tölvupósti, andlitsgreinar í myndavélum og abs bremsubúnaður. En gervigreind er í dag til dæmis einnig notuð við læknisfræðilegar rannsóknir, m.a. til að finna lækningu við taugaskjúkdómum og krabbameini og til að hámarka virkni kælikerfa í gagnaverum sem eru gríðarlega orkufrek.

Photo by NASA

Gervigreind fer ört vaxandi og er talið að fjárfestingar í þessari tækni muni aukast úr $8 milljörðum frá árinu 2016, vaxa um 300% á árinu og fara vel yfir $47 milljarða árið 2020. Tækni gervigreindar býður upp á óþrjótanlega möguleika, ítarlegri greiningar, bætta sjálfvirkni og notendavænni virkni. Activity Stream er dæmi um íslenskt sprotafyrirtæki sem er á góðri siglingu og byggir á tækni gervigreindar.

Tækifærin eru sannarlega til staðar og þá ekki síst í tækni- og hugverkageiranum þar sem ég tel sóknarfæri íslensks atvinnulífs liggja hvað helst. Það skiptir gríðarlega miklu máli að við sem samfélag séum meðvituð um þessa þróun. Við þurfum að nýta tækifærin sem henni fylgja til fulls og leggjast á eitt við að skapa hér framúrskarandi nýsköpunarumhverfi þvert á atvinnugreinar og menntastefnu sem þjálfar yngri kynslóðir fyrir störf framtíðarinnar.

“Nýsköpun og þróun eru lykilorðin”.

--

--

Salóme Guðmundsd
IcelandicStartups

CEO @IcelandStartups // Community Building // Accelerating new businesses for high growth // #NordicMade