Sprotaárið 2017 gert upp

Salóme Guðmundsd
IcelandicStartups
Published in
3 min readJan 2, 2018

Sprotaumhverfið á Íslandi hefur vaxið og þroskast mikið á undanförnum árum. Tækifæri sprota til fjármögnunar breyttust stórkostlega árið 2015 þegar þrír nýjir framtakssjóðir voru kynntir til sögunnar með um 11,5 milljarða króna fjárfestingargetu. Nýsköpunarlögin sem samþykkt voru á alþingi árið 2016 voru einnig mikið framfaraskref.

Með tilkomu viðskiptahraðla, frumkvöðlasetra og alþjóðlegra samstarfsverkefna á síðast liðnum árum hefur stuðningur við frumkvöðla og sprotafyrirtæki jafnframt tekið stökkbreytingum til hins betra.

Árið 2017 var afar viðburðaríkt. Vel yfir 500 viðskiptahugmyndir rötuðu inn á borð hjá Icelandic Startups, af þeim voru um 40 fyrirtæki tekin í fóstur og nutu leiðsagnar starfsmanna í allt að þrjá mánuði. Samtals um 3.000 gestir lögðu leið sína á þá hátt í 50 viðburði sem félagið stóð fyrir á árinu.

Fjármögnunarumhverfið

Fjárfestingar í sprotafyrirtækjum hafa vaxið töluvert frá árinu 2015 í takt við aukið fjármagn. Árið 2016 var metár hvað bæði varðar fjölda fjárfestinga og heildarupphæð þeirra, en skv. samantekt Northstack voru um 19 fjárfestingar skráðar það ár fyrir um 5,4 milljarða króna. Fjöldi skráðra fjárfestinga í íslenskum sprotafyrirtækjum árið 2017 virðist vera nokkuð svipaður og árið á undan en heildarupphæð hins vegar töluvert lægri eða rétt um 3 milljarðar króna samkvæmt skráðum upplýsingum Icelandic Startups.

Aftur á móti er það afar jákvæð þróun að sjá að stór hluti þessa fjármagns kemur erlendis frá og þannig sterk vísbending um að sífellt fleiri erlendir framtakssjóðir beini sjónum sínum að fjárfestingatækifærum í íslensku hugviti. Í því felst mikilvægt sóknarfæri fyrir nýsköpun og sprotastarfsemi á Íslandi.

Þess má geta að einn stærsti sjóður Evrópu, Index Ventures, fjárfesti í fyrsta sinn í íslensku fyrirtæki á árinu. Index Ventures hefur áður m.a. fjárfest í alþjóðlegum tæknifyrirtækjum á borð við Facebook, Skype, Supercell og Dropbox.

Fyrirtækið GreenQloud var jafnframt selt til fyrirtæksins NetApp í Bandaríkjunum fyrir um $50m dollara og kemur til með að þjóna mikilvægu hlutverki í viðskiptaþróun þess á komandi árum. Þetta eru fyrstu kaup Fortune 500 fyrirtækis á íslensku hugbúnaðarfyrirtæki svo vitað sé um.

Nánar um helstu fjárfestingar ársins má finna í samantekt Northstack.

Nýr framtakssjóður, Crowberry Capital, var stofnaður á árinu með um 4 milljarða króna fjárfestingagetu. Honum er ætlað að fjárfesta í ungum tæknifyrirtækjum sem stefna á alþjóðamarkaði. Fyrsta fjárfesting sjóðsins var tilkynnt nú rétt fyrir áramót og tel ég öruggt að fleiri muni fylgja í kjölfarið á nýju ári.

Þar sem jafnrétti kynjanna er okkur afar hugleikið má til gamans geta að með tilkomu Crowberry sem leiddur er eingöngu af konum eru ákvarðanir um innlendar framtaksfjárfestingar í sprotafyrirtækjum nú teknar svo til jafns af konum og körlum.

Stefna stjórnvalda

Það er afar gleðilegt að sjá hversu rækilega stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar leggur áherslu á aukinn stuðning við nýsköpun og frumkvöðlastarf sem endurspeglaðist í áramótaávarpi forsætisráðherra. Utanríkisráðuneytið gaf jafnframt út stefnuskýrslu s.l. haust sem vert að nefna í þessu samhengi þar sem stuðningur við nýsköpun og alþjóðlega sókn sprotafyrirtækja fær aukinn sess. Lykilatriði að mínu mati.

Þrátt fyrir að stórt skref hafi verið tekið með nýsköpunarlögunum 2016 stöndum við frammi fyrir brýnum áskorunum í umhverfi sprotafyrirtækja sem þarf að finna lausnir við og í senn sóknarfærum sem verður að nýta. Dýrmætt tækifæri til að skapa okkur sérstöðu á sviði þróunar sýndarveruleika rann okkur úr greipum með breytingum á rekstri CCP á síðasta ári. Ísland hefur alla burði til að skipa sér fremstu röð og verða alþjóðlega samkeppnishæft til framtíðar en við þurfum að taka stórar stefnumótandi ákvarðanir í þessum málum, bretta upp ermar og láta verkin tala.

Þessi mál verða í brennidepli á Viðskiptaþingi í febrúar n.k. en þar mun einn eftirsóttasti ráðgjafi heims á sviði stafrænna tæknibreytinga, Andrew McAfee, flytja lykilerindi.

Allar leiðir liggja til Rómar. Ég er full tilhlökkunar og bjartsýni gagnvart árinu 2018 og er sannfærð um að okkur í stuðningsumhverfinu takist á árinu að nýta þann mikla meðbyr sem nýsköpunarumhverfið á Íslandi hefur til góðra verka.

Höfundur er framkvæmdastjóri Icelandic Startups og tekur þátt í vinnu Atvinnuvegaráðuneytisins og Háskólans í Reykjavík um eflingu nýsköpunar í atvinnulífinu með þátttöku í alþjóðlegu samstarfsverkefni á vegum MIT háskóla í Bandaríkjunum.

--

--

Salóme Guðmundsd
IcelandicStartups

CEO @IcelandStartups // Community Building // Accelerating new businesses for high growth // #NordicMade