Er sparnaður í rafmagnsbíl?

Ingvar Hjalmarsson
Meniga Iceland
Published in
4 min readJul 17, 2017

Fyrir ári síðan gafst ég upp á því að taka strætó úr Hafnarfirði í vinnuna mína í miðbæ Reykjavíkur. Þrátt fyrir margar gæðastundir í “þeim gula” og lestur góðra bóka á leið í vinnu að þá var orðið ljóst að ég þurfti að losa tíma úr samgöngum mínum. Lausnin við því var að bæta við bíl númer tvö á heimilið.

Ég fell í þann fjölmenna hóp Íslendinga sem vill helst eyða peningum sínum í annað en bensín. Með rökhugsun tókst mér að komast að þeirri niðurstöðu að við það að bæta bíl númer tvö á heimilið, þá hlyti bensínreikningur fjölskyldunnar að hækka. Það þótti mér miður. Þar sem ég bý á Íslandi og nýt þeirra forréttinda að hafa aðgengi að nægu, ódýru, rafmagni þótti mér nærtækt að skoða þann kost að hafa aukabílinn rafmagnsbíl! Mér fannst tilhugsunin um að eyða engu í bensín og bara smá í rafmagn mjög heillandi. Þess vegna var ákveðið að skella sér á nýlegt eintak af slíkum farkosti. Um leið var ákveðið að þegar ár væri liðið myndi ég taka saman hvort einhver sparnaður hlytist af slíkri ákvörðun. Fyrir valinu varð forláta Nissan Leaf af árgerð 2013. Ég hafði heyrt góða hluti um þannig tegund og hafði séð þeim bregða oft fyrir á götum bæjarins. Vitandi af mörgum akandi um á slíkum bílum varð ég rórri yfir því að taka stökkið yfir í rafmagnsbíl.

Söguhetjan. Nissan Leaf 2013

Útreikningur

Sem betur fer hef ég verið notandi Meniga í langan tíma og var það því auðvelt að taka saman þær upplýsingar úr rekstrarreikningi heimilisins til að komast að niðurstöðu í þessu áhugaverða máli!

Til þess að byrja með er gott að skoða tvö samanburðarhæf tímabil bensínreiknings fjölskyldunnar.

Forsendurnar eru þessar:

  • Fjögurra manna fjölskylda
  • Einn nýlegur bensínknúinn station bíll (árg. 2013)
  • Einn nýlegur rafmagnsbíll — Nissan Leaf (árg. 2013)
  • Hefðbundin keyrsla fjölskyldunnar, þar með talið skutl og stúss með krakkana
  • Tvö tímabil: júlí 2015 — júlí 2016 (Tímabil A) og svo júlí 2016 — júlí 2017 (Tímabil B). Samanburðarhæf hvað varðar keyrslu, eini munurinn er að í tímabili tvö er rafmagnsbíllinn kominn til skjalanna.

Samanburður á bensínútgjöldum

Tímabil A — Eldsneytiskostnaður fyrir einn bíl (bensínbíll)
Tímabil B — Bensínkostnaður fyrir tvo bíla (bensínbíll og rafmagnsbíll)

Þarna sést strax mjög áhugaverð staðreynd. Á heilu ári minnkar bensínreikningur fjölskyldunnar um nær 240 þúsund! Það gera nær 20 þúsund á mánuði í sparnað!

En þó rafmagn sé ódýrt að þá er það ekki ókeypis. Sjáum hvernig hita- og rafmagnsreikningur fjölskyldunnar breyttist á sömu tímabilum.

Tímabil A — Rafmagn og hiti
Tímabil B — Rafmagn og hiti

Hér sést vel að heildarupphæð fjölskyldunnar hækkaði um ekki nema 15 þúsund á öllu tímabilinu. Það er óveruleg hækkun.

Hvers vegna skyldi bensínreikningurinn hafa fallið svona mikið, þrátt fyrir að tveir bílar voru komnir á heimilið?

Svarið við því er einfalt. Nissaninn var alltaf nýttur þegar hægt var. Bensínbíllinn var aðeins nýttur í neyð — eða lengri ferðir.

Skoðum líka hvernig kostnaður við viðhald og rekstur beggja bifreiða leit út á sömu tímabilum:

Tímabil A — Viðhald og rekstur
Tímabil B — Viðhald og rekstur

Hér sést að viðhald og rekstur breytist ekkert milli tímabila — þrátt fyrir að bæta heilum bíl við flota fjölskyldunnar. Ástæðan er einföld — viðhaldið og reksturinn einskorðast við bensínbílinn. Rafmagnsbíllinn hefur minni þörf fyrir smurningu og ýmiskonar viðhald sem bensínbílar þarfnast.

Of langt og flókið mál er að skoða afskriftir og fjármögnun beggja bifreiða í þessari grein. Enda tilgangurinn í upphafi að athuga hvort rekstrarkostnaður á bílaflota fjölskyldu breytist við tilkomu rafmagnsbíls.

Niðurstaðan er nokkuð ljós. Með góðum upplýsingum úr Meniga getum við séð að með því að bæta við öðrum bíl þá minnkaði rekstrarkostnaður á bílaflota fjölskyldunnar um 20 þúsund á mánuði. Ekki skemmdi fyrir að aksturseiginleikar Nissan Leaf eru óhemju skemmtilegir. Snarpur og skemmtilegur í akstri. Það kom mér skemmtilega á óvart. Að auki er það góð tilfinning að keyra um á orkugjafa sem varð til úr auðlindum Íslendinga — en látum það liggja milli hluta að sinni.

--

--