Frá 88 þúsundum niður í 33 þúsund - reynslusaga

Renata Blöndal
Meniga Iceland
Published in
3 min readJun 24, 2015

Ég lenti í frekar pínlegu ferli í liðinni viku þegar pústið fór á bílnum (Rauðu Þrumunni) með tilheyrandi látum. Slátturinn í bílnum var ekki aðeins óþæginlegur á meðan akstrinum stóð. Á leið minni úr Vesturbænum og í Kópavoginn náði hann að hafa slík sálaráhrif að ég mætti upptjúnuð en á sama tíma uppgefin í vinnu. Þetta yrði að laga með hraði, ekki síður vinnufélaganna vegna.

Rauða Þruman

Það fyrsta sem ég gerði var að sjálfsögðu að googla, „pústþjónusta“. Gamlar samræður á bland bentu á hin og þessi pústverkstæði sem ýmist voru frábær eða okurbúllur, til skiptis. Ákaflega erfitt reyndist að fá verðhugmynd á viðgerðina og til að gera langa sögu stutta tók ég mér viku í að fara í nokkra rúnta á milli verkstæða og fá tilboð, með pústið í botni.

Munur á tilboðum í viðgerðina var sláandi, og er ástæða þess að ég setti þessa lífsreynslu í blogg. Hæsta tilboðið var að skipta út 3 íhlutum fyrir alls 88 þúsund krónur. Lægsta tilboðið var að skipta út þessum sömu hlutum fyrir 48 þúsund krónur. Og ekki nóg með það, því þetta ágæta verkstæði taldi að nóg væri að skipta út aðeins 2 íhlutum fyrir 33 þúsund krónur.

Frá 88 þúsundum niður í 33 þúsund. GODDEM!

Meðalmanneskja í Menigahagkerfinu eyðir um 190 þúsund krónum á ári í flokkinn Viðhald og rekstur bifreiða. Það er ekki alltaf skemmtilegt að vera meðvitaður neytandi en þegar allt kemur til alls hefur smá rannsóknarvinna aldrei skaðað neinn, hversu pínleg sem hún stundum er.

Það skal tekið fram að þetta er aðeins saga af því þegar leitað var að tilboðum fyrir þessa einu bifreið, en er ekki vísindalegur verðsamanburður. Hringt var í nokkur verkstæði og formleg tilboð fengin frá þremur. Pústþjónustan Betra Púst í Skógarhlíð var með besta tilboðið í þetta sinn, en það er ekki gefið að það sama eigi við um þína bifreið.

Þau í Drekasvæðinu kannast við það að erfitt getur verið að semja um sanngjarnt verð

Að lokum verð ég að segja frá afar skemmtilegri uppgötvun við gerð þessa bloggs. Rauða þruman er Mitchubitchi Lancer fengin að láni frá föður mínum í apríl á þessu ári og er frábær viðbót við bifreiðaflota fjölskyldunnar sem áður stóð af einni Toyota Avensis. Eftir að bifreiðarnar urðu tvær í apríl hefur bensínkostnaður fjölskyldunnar lækkað! Því til sönnunar, mynd úr mínu persónulega meniga sem sýnir bensínútgjöld síðustu 12 mánuði:

Eftir að bifreiðarnar urðu tvær í apríl lækkaði bensínkostnaður fjölskyldunnar

Hér eru einfaldar leiðbeiningar um hvernig þú getur skoðað þína neyslu eftir verslunum.

Vert er að taka fram að aðeins er unnið með ópersónugreinanleg gögn frá Hagkerfi Meniga. Aldrei er hægt að tengja færslur við einstaklinga heldur aðeins er um að ræða tölfræðilegar samantektir.

--

--