Samkeppni sænsku undranna á íslenskum fatamarkaði

Lindex hefur sótt á síðustu mánuði og er nú með stærsta viðskiptavinahópinn á íslenskum fatamarkaði samkvæmt tölum úr Meniga hagkerfinu.

Tveir sænskir risar hafa keppst um að klæða íslendinga síðustu ár og hvorugur þeirra selur kjötbollur. Þeir selja ekki einu sinni Billy hillur.

Síðustu ár hefur sænska undrið, H&M, verið stærsti aðilinn á íslenskum fatamarkaði án þess að greiða krónu í fastan kostnað eða skatta og gjöld hér á landi.

Undanfarna mánuði hefur hins vegar orðið ákveðin viðsnúningur og annað sænskt undur skotist upp á íslenska stjörnuhimininn. Frá því að Lindex opnaði sína fyrstu verslun hér árið 2011 hefur salan þar aukist jafnt og þétt. Núna eru fimm Lindex verslanir opnar hér á landi og viðskiptavinahópurinn orðinn sá stærsti á íslenskum fatamarkaði.

Þegar Lindex opnaði í Smáralind í nóvember 2011 var sett einhverskonar heimsmet í langri röð.

Þegar stærð og gengi fyrirtækja er metin er ekki einungis gagnlegt að skoða sölutölur, meðalsölu og markaðshlutdeild, heldur líka stærð viðskiptavinahópsins. Í Meniga hagkerfinu teljum við hversu margir versla einu sinni eða oftar hjá verslununum á mánuði. Þessi mæling gefur góða mynd af því hversu stór viðskiptavinahópurinn er hjá þeim verslunum sem Meninganotendur versla við.

Mikilvægt er að hafa í huga að við erum ekki að vinna með persónugreinanleg gögn í þessum greiningum. Allt eru þetta dulkóðuð stök í úrtaki sem við greinum og reynum að draga upp sem raunsannasta mynd af íslensku samfélagi.