Sparað við hirð Bakkusar

Helgi Benediktsson
Meniga Iceland
Published in
3 min readMay 26, 2016
Heimabruggaður Saison

Bjór er góður.

Reyndar svo góður að allt frá því að mannskepnan fór að yrkja jörðina hefur það verið eitt af hennar aðal áhugamálum að brugga og auðvitað drekka bjór.

Reyndar halda margir því fram að akuryrkja hafi hafist eingöngu til að tryggja nægt aðgengi að korni. Við getum því þakkað þessum gyllta vökva að við eyðum ekki lunganum af deginum í veiðar og söfnun á mat, kunnum að lesa og skrifa og margt fleira…

En aftur til dagsins í dag.

Í dag er feikivinsælt að gera sinn eigin bjór enda keppist hver mannvitsbrekkan við að gerja og mæra sína göróttu drykki.

Ferlið er auk þess ekki flókið og einhvern veginn svona:

Hita vatn og korn — bíða í 1 klukkustund — sjóða í 1 klukkustund og bæta við humlum — kæla — bæta við geri — bíða í 2 vikur — tappa á — bíða í aðrar 2 vikur — drekka — húrra!

Verið að sjóða

Við erum samt að tala um heilar 4 vikur. Það að renna í vínbúðina tekur ekki meira en 20 mínútur.

En er þá ekki ódýrara að gera þetta heima?

Skv. verði uppskrifta á heimasíðu brew.is og áætluðu magni sem hver uppskrift gefur ætti ein 33cl. flaska af heimagerðu að kosta um 100 kr.

Almennilegur bjór er aldrei að fara kosta minna en 400 kr. í vínbúðinni og í mörgum tilfellum miklu meira.

En hvað segir heimilsbókhaldið?

Þar sem ég hef bruggað bjór síðan 2013 lagðist ég í vísindalega athugun á þessu með hjálp Meniga.

En það er hins vegar ekki auðvelt að meta meinta lífskjarabót. Það eru margir þættir sem spila inn í. Var sumarið gott eða slæmt? Var grillað eða grátið? Svo er auðvitað stofnkostnaður fólgin í þessari iðju.

Að þessu sögðu er eina rökrétta leiðin að treysta heimilisbókhaldinu og skoða hvort ég sé að eyða meiru í útgjaldaflokknum áfengi fyrir eða eftir að heimabruggun hefst.

Meniga flokkar sjálfkrafa allar færslur frá vínbúðum og heimabruggverslunum eins og brew.is, þar sem ég kaupi efni í bjórgerð, í flokkinn áfengi. Ég passa mig einnig á að skipta öllum færslum sem ég hef deilt með bruggbróður mínum Hannesi til að hans kostnaður telji ekki inn í minn.

Síðan ber ég saman tvö jafnlöng 3 ára tímabil.

Tímabilið júní 2010 — maí 2013 er tímabilið þar sem ég var ekki byrjaður að brugga og tímabilið júní 2013 — maí 2016 er tímabil þar sem bjórgerð er hafin.

Niðurstaðan er ótvíræð. Ég er búinn að eyða 55% meira í flokknum áfengi síðan að bjórgerð hófst!

Ég hef eytt 55% meira í áfengi eftir að heimabruggun hófst. Tímabilið sem ekki var bruggað er blátt og en tímabilið þar sem var bruggað er appelsínugult.

En hversu mikið hef ég eytt í heimabrugg hlutfallslega miðað við annað áfengi frá vínbúðinni?

Jú, vínbúðin er ennþá 71% af heildarútgjöldum í áfengi. Hvers vegna er hins vegar enn á huldu.

Útgjöld hjá vínbúðinni eru enn 71% af heildarútgjöldum í áfengi þrátt fyrir að heimabruggun sé hafin.

Líklega er ég farinn að kaupa og drekka dýrari bjór síðan að heimabruggið hófst. Alla vega er ég ekki að drekka meira — held ég. Áfengi hefur líka hækkað í verði á hverju ári.

Jæja, þetta er að minnsta kosti gaman. Skál!

Skálað að loknum vel heppnuðum bruggdegi.

--

--