Nýr vefur fyrir Birtu lífeyrissjóð
Í lok síðasta árs fengum við það skemmtilega verkefni að setja upp nýjan vef fyrir Birtu, nýjan lífeyrissjóð sem varð til við sameiningu Stafa og Sameinaða lífeyrissjóðsins.
Markmið þessa nýja vefs var að sameina upplýsingar sjóðanna tveggja, en á sama tíma bæta allt aðgengi að upplýsingunum, styðja við WCAC-AA aðgengisstaðalinn og gera vefinn bæði hraðvirkann og aðgengilegan á öllum tækjum.
Í þessari grein ætla ég að stikla á stóru varðandi ferilinn við að búa til vef sem þennan.
Undirbúningur
Þegar verkefni koma inn á borð til okkar byrjum við á að greina þarfirnar í samvinnu við viðskiptavininn og hönnuði. Í þessu tilfelli unnum við vefinn í frábæru samstarfi við ENNEMM auglýsingastofu og Hafdísi Önnu Bragadóttur, verkefnastjóra hjá Birtu.
Við viljum helst vinna í eins nánum samskiptum og við getum, bæði við hönnuði og verkefnastjóra viðskiptavinar, því okkar reynsla hefur verið sú að því meiri samskipti sem eiga sér stað á verkefnatímanum, þeim mun fljótlegra er að leysa þau vandamál sem upp koma. Ef hönnun á einhverju gengur ekki upp forritunarlega er hægt að endurhanna strax og ef efni er sett inn jafn óðum og síður eru tilbúnar þá koma oft upp atriði í forrituninni sem hægt er að bregðast við o.s.frv.
Nýr vefur Birtu Lífeyrissjóðs er dæmi um verkefni þar sem allt gekk eins glansandi og hægt var, allur vefurinn ásamt öllu efni var tilbúin á einum og hálfum mánuði.
Val á vefumsjónarkerfi
Áður en forritun hófst þurfti að taka ákvörðun um hvaða CMS bakenda (content management system) ætti að nota. Flest okkar verkefni vinnum við í Wagtail CMS og fyrir því liggja nokkrar góðar ástæður:
- Wagtail er open source. Það þýðir að viðskiptavinurinn er ekki læstur inni í kerfi sem við höfum smíðað, heldur getur hann tekið vefinn í heilu lagi annað ef samstarfið gengur ekki til lengri tíma. Það veitir okkur líka ákveðið aðhald í að veita bestu þjónustu sem völ er á.
- Wagtail er einfalt í notkun. Notendur þurfa ekki mikla tölvuþekkingu til að nota Wagtail. Myndir eru settar inn í fullri upplausn og kerfið sér sjálfkrafa um að skera þær til og minnka niður í þá stærð sem nota á hverju sinni. Síðutegundir eru sérhannaðar fyrir mismunandi efni, og hægt er að raða saman efni á vefinn á sama hátt og legokubbum, hvort sem um er að ræða texta, myndir, video eða annað efni.
- Wagtail er hraðvirkt. Hvort sem vefurinn inniheldur 10 síður eða 100.000, þá einfaldlega virkar kerfið. Það inniheldur fulla leit, í öllum texta, myndum og skjölum.
- Auðvelt að tengja hluti við Wagtail. Mörg önnur CMS virka ágætlega á meðan verið er að setja upp grunnvefi sem innihalda einfaldar síður. Hinsvegar þegar þarf að fara að tengjast annað til að sækja gögn, senda gögn í gegnum vefsíðuna í gagnagrunna í öðrum kerfum hjá fyrirtæki viðskiptavinarins osfrv. þá vandast oft málið. Allt slíkt er hinsvegar mjög auðvelt að framkvæma í Wagtail.
Við höfum nú þegar unnið fjöldan allan af vefjum í þessu CMS kerfi og það hefur verið einróma álit notenda að þetta sé með þægilegri CMS kerfum sem þeir hefur notað.
Forritun
Næstu skref eru að forrita vefinn sjálfan. Við byrjum yfirleitt á að stilla upp grind fyrir vefinn sem samanstendur af haus, fæti og plássi fyrir meginmálið, sem yfirleitt er það sem breytist mest á milli síðna. Samhliða þessu eru litir stilltir af, letur og leturstærðir og annað sem að á við um vefinn í heild sinni. Því næst er forsíðan sett upp og að lokum undirsíður.
Eins og ég sagði áðan, þá er frábært þegar hægt er að vinna verkefnin samhliða innsetningu á efni.
Í þessu tilfelli var mikið af efni tilbúið fyrirfram þannig að um leið og búið var að forrita ákveðna undirsíðutegund þá var hægt að byrja að stinga inn efninu.
Af því síður í Wagtail virka í raun eins og blokkir af legokubbum þá er mjög auðvelt að setja inn grunnefni á síðu og biðja svo um sérstakar blokkir til að stinga inn á milli.
Gott dæmi um slíka einingu er að þegar verið var að setja upp upplýsingasíðu um lánin sem sjóðurinn býður upp á, þá vantaði einingu til að birta línurit yfir vexti. Þá var bara textinn settur inn, og 2 tímum síðar var komin ný eining fyrir línurit.
Aðgengismál
Þegar allar síður voru tilbúnar, og búið að bæta við öllum þeim einingum sem þurfti að sérsmíða, þá var farið í aðgengismálin.
- Fyrst er farið yfir það hvernig vefurinn virkar á spjaldtölvum og símum. Við notumst mikið við Bootstrap þegar kemur að uppsetningu á vefjum sem einfaldar mikið vinnu við skalanlega vefi, en alltaf þarf að laga til ýmsa smáhluti.
- Næst er það hvernig vefurinn virkar fyrir blinda og sjónskerta. Mikið af einingum í Wagtail styðja við WCAC aðgengisstaðalinn nú þegar og því þurfti bara að fara yfir síðurnar og bæta við réttum skilgreiningum þar sem upp á vantaði.
- Að síðustu var svo hraðinn skoðaður. Vefurinn var settur á bak við dulkóðun (https), auk þess sem kveikt var á HTTP/2 staðlinum á vefþjóninum til að leyfa samhliða niðurhal á fleiri skrám til endanotanda. Allar myndir í wagtail eru þjappaða sjálfkrafa eins og hægt er, svo ekki þarf að skoða það sérstaklega. Síðan eru öðrum skjám þjappað eins og hægt er til að stytta þann tíma sem þarf til að hlaða þeim niður. Allar myndir og önnur statísk skjöl eru síðan geymd í vafra þess sem skoðar síðuna sem styttir tímann við að endurhlaða síðunni. Fyrir vikið er vefurinn afskaplega hraður.
Niðurstaða
Við erum afskaplega stoltir af þessum vef og þakklátir að hafa verið treyst fyrir þessu verkefni, sem hefði ekki getað gengið betur. Ef þú, lesandi góður ert að íhuga nýjan vef eða endurgerð á eldri vef, endilega hafðu samband við okkur og sjáum hvort við getum unnið jafn vel saman.