Þér er boðið tækifæri

Baldur F. Óðinsson
4 min readMar 24, 2014

Ég hef opnað á möguleika fyrir Íslendinga á að sækja 31,8 AUR (Auroracoin). Ef þú vilt sækja þinn skammt, smelltu þá hér og fylgdu leiðbeiningunum.

Auroracoin hefur nú þegar hlotið nokkuð verðmæti í erlendum kauphöllum og hefur þessi nýja íslenska mynt vakið heimsathygli. Nú er fylgst með Íslandi. Margir telja að mikil framtíð sé í dulmálsgjaldmiðlum og telja að útbreiðsla Auroracoin á Íslandi muni verða til þess að hraða upptöku þeirra víðar með fordæmi sínu. Reyndar hafa nú þegar verið stofnaðir nokkrir þjóðargjaldmiðlar að fordæmi Auroracoin.

En þótt gjöfin sé verðmæt er það ekki stærsta tækifærið. Gjöfin felur í sér tækifæri til að nota gjaldmiðil sem er frjáls frá gjaldeyrishöftum og stöðugri misnotkun og útþynningu stjórnmálamanna. Hann er einnig þægilegur í notkun og er utan hins hefðbundna og valdamikla fjármálakerfis. Sjá upplýsingar um notkun hér.

Þessi gjöf er gefin í von um að þú munir nota Auroracoin í viðskiptum eða spara. Ég hvet þig til að reyna að nota Auroracoin alls staðar þar sem því verður við komið, hvort sem þú greiðir eða þiggur greiðslur. Möguleikarnir eru margir.

Selurðu eða kaupir þjónustu? Áttu viðskipti með notaðar vörur á netinu? Geturðu jafnvel beðið um að launin þín séu greidd í Auroracoin? Rekur þú fyrirtæki sem getur tekið á móti AUR sem greiðslu? Rekurðu fyrirtæki sem getur keypt vörur og þjónustu með AUR? Tækifærin eru mörg. Byltingin kemur frá þjóðinni, með því að hún byrji að nota þennan greiðslumiðil.

Með því að stuðla að almennri upptöku Auroracoin stuðlar þú að áframhaldandi verðmæti myntarinnar. Því meiri árangur sem næst innanlands, þeim mun meiri árangri ná þá Íslendingar erlendis, því þetta er nú þegar alþjóðlega viðurkenndur gjaldmiðill og verðmæti hans í höndum Íslendinga styrkir stöðu þeirra. Auroracoin hefur vakið þannig athygli að það er ekki útilokað að myntin verði notuð annars staðar líka. Það gæti styrkt hana frekar. Fylgjast má með verðmæti Auroracoin í erlendum kauphöllum á mörgum vefsíðum, t.d. hér.

Ákveðnir stjórnmálamenn hafa mótmælt Auroracoin og hafa verið haldnir fundir, bæði í þingnefnd og í Seðlabankanum, um gjaldmiðilinn. Stjórnmálamenn gætu reynt að bregða fæti fyrir notkun myntarinnar, enda ógnar hún valdi þeirra. Sú huggun verður gegn því að það er ekki svo auðvelt. Fólk getur notað hana áfram svo lengi sem Internetið er opið. En stjórnmálamenn sem hafa náð kjöri með því að lofa öllu fögru um að bæta stöðu heimilanna munu lenda í vandræðum með að réttlæta að reyna að hindra heimilin í að nota það sem þeim áskotnast í þessari mynt.

Auroracoin er ekki hægt að prenta eins og það sem kalla má nauðungargjaldmiðla (fiat money). Aðeins er hægt að stunda svokallaða námavinnslu (mining) og þannig veita kerfinu þjónustu í leiðinni. Heildarpeningamagn sem hægt er að vinna er takmarkað og þekkt.

Aðeins íbúar með heimili á Íslandi eiga að geta sótt gjöfina upp á 31,8 AUR. Rökin fyrir því eru þau að málefnalegast sé að þeir sem búa á Íslandi fái þessa gjöf, þar sem markmiðið er að byggja upp notkun hennar á Íslandi. Þannig er ekki gert upp á milli Íslendinga og útlendinga, svo lengi sem þeir búa á Íslandi samkvæmt þjóðskrá.

Ekki er gert ráð fyrir því að fjöldagjöfin nái fullkomlega til allra, af tæknilegum ástæðum, þótt það sé reynt með öllum ráðum. Útdeiling byggist á því að móttakendur séu áskrifendur að tiltekinni þjónustu (Facebook og farsímaþjónusta). Mikill meirihluti Íslendinga notar þessa þjónustu. Ef til vill verður reynt að bæta við öðrum aðferðum (eins og Íslykli, ef heimild fæst fyrir notkun hans) þegar fram í sækir, svo fleiri eigi kost á að hlotnast gjöfin. Ekki er hægt að útiloka að óprúttnir aðilar reyni auðkennisþjófnað, sem getur valdið því að sumir missi af tækifærinu. Besta vörnin gegn þannig auðkennisþjófnaði er að sækja þessa 31,8 AUR sem fyrst ef hægt er. Ekki er heldur hægt að útiloka aðra tæknilega galla. Ég get ekki ábyrgst að allir hljóti sína gjöf. Þess vegna telst hver skammtur upp á 31,8 AUR ekki gefinn fyrr en hann er kominn til skila. Enginn á kröfu á gjöfina þótt allt sé gert til að reyna að koma henni til skila.

Eftir að gjöfin er komin til skila er hún að fullu eign móttakandans. Hann hefur fullt frelsi til að nota þá eign sína að vild og ber fulla ábyrgð á þeirri notkun. Þó er gjöfin gefin með hvatningu um notkun hennar í daglegu lífi og viðskiptum af öllu tagi.

Ef einhverjum hlotnast ekki gjöfin upp á 31,8 AUR af einhverjum ástæðum má benda á að verkefnið felur líka í sér tækifæri fyrir hann. Auroracoin gengur út á að losa Íslendinga undan höftum og mistnotkun stjórnmálamanna á gjaldmiðlinum. Það skiptir máli fyrir alla sem kjósa að nota gjaldmiðilinn, hvort sem þeir hljóta gjöfina í upphafi eða ekki.

Ég mun grípa til ráðstafana til þess að sem mest af þeim AUR sem til staðar er komist í umferð. Um er að ræða 10,5 milljónir AUR samtals. Hér má sjá útskýringar á ensku (Blueprint) á því hvernig það mun eiga sér stað, með fyrirvara um breytingar. Þar kemur meðal annars fram að afgangur að úthlutuartíma loknum verði eyðilagður þannig að vissa sé um endanlegt peningamagn. Sjá nánar Blueprint.

Breiðabliki, 24. mars 2014,
Baldur Friggjar Óðinsson

--

--