Greinarhöfundur er Snjólaug [hér vantar upplýsingar um eftirnafn og starf]. Ljósmynd af endurheimt votlendis: Jóhann Óli Hilmarsson. Aðrar ljósmyndir: Ketill Berg Magnússon

Að losa minna og binda loft

Ketill B. Magnússon
Sögur af samfélagsábyrgð
Sent as a

Newsletter

4 min readMar 12, 2016

--

Festa og Reykjavíkurborg stóðu fyrir málstofu þann 18. febrúar í Norræna húsinu undir yfirskriftinni „Að binda loft og losa minna“. Málstofan var hluti af hagnýtri fræðsludagskrá til handa fyrirtækjum um loftslagsmál.

Sögur af samfélagsábyrgð er rafrænt tímarit, gefið út af Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja á Íslandi.

Til máls tóku fjórir sérfræðingar. Hlynur Óskarsson frá Landbúnaðarháskóla Íslands ræddi framræsingu lands og endurheimt votlendis. Þórunn Pétursdóttir hjá Landgræðslu Ríkisins talaði um að auka náttúruauð með því að bæta röskuð vistkerfi. Bjarni Diðrik Sigurðsson frá Landbúnaðarháskóla Íslands ræddi kolefnisjöfnun með skógrækt og gróðursetningu og þá talaði Reynir Kristinsson frá Kolviði um kolefnisjöfnun. Fundarstjóri var Þórhildur Ósk Halldórsdóttir frá Reykjavíkurborg.

á Íslandi var land framræst mun meira en þurfti til landnýtingar og að enn er árleg framræsting meiri en endurheimt votlendis

Hlynur Óskarsson er deildarstjóri umhverfisdeildar Landbúnaðarháskóla Íslands.

Fram kom að á Íslandi var land framræst mun meira en þurfti til landnýtingar og að enn er árleg framræsting meiri en endurheimt votlendis. Ávinningur af endurheimt votlendis er um 24,5 tonn af CO2 ígildi/ha/ári.

Þórunn Pétursdóttir er sérfræðingur á þróunarsviði Landgræðslu Ríkisins.

Jarðvegur bindur einnig koltvíoxíð en við jarðrask losnar koltvíoxíð út í andrúmsloftið og því er landgræðsla mjög mikilvæg. Uppgræðsla lands bindur um 2,1 tonn CO2/ha/ári. Með uppgræðslu lands fæst ekki bara kolefnisbinding. Endurheimting vistkerfa, líffræðilegur fjölbreytileiki eykst og vatnsmiðlun verður betri. Í dag er gróðurþekja aðeins á um 40% landsins og því af nægu landi að taka til uppgræðslu. Landgræðsla Ríkisins hefur undirbúið svo kallaðar Héraðsáætlanir með kortum yfir þau svæði á landinu sem þarfnast landgræðslu.

Bjarni Diðrik Sigurðsson er prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Skógrækt er einnig mjög góður kostur til að binda koltvíoxíð og er meðalbinding í viði og grófrótum trjáa í skógi sem stendur í um 50 ár 4,4 tonn CO2/ha/ári eða sem nemur útblæstri tveggja Toyota Yaris bifreiða á ári (keyrðir 20þ km). Kolviður býður nú þegar uppá þá þjónustu að binda koltvíoxíð í skógi gegn greiðslu.

meðalbinding í viði og grófrótum trjáa í skógi sem stendur í um 50 ár 4,4 tonn CO2/ha/ári eða sem nemur útblæstri tveggja Toyota Yaris bifreiða á ári

Í pallborðsumræðum kom fram að þekkingin er til staðar til að binda koltvísýring og sporna þannig við gróðurhúsaáhrifum en stefnumótun skortir. Nýta má endurheimt votlendis, uppgræðslu lands og skógrækt samhliða því aðferðirnar eru ólíkar og virka vel saman. Einnig þarf að hvetja fyrirtæki til að taka þátt í slíkum verkefnum.

Að lokum voru fyrirlesarar inntir eftir hagnýtum ráðum fyrir fyrirtækin sem munu setja sér mælanleg markmið fyrir 30. júní 2016 til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Reynir Kristinsson er formaður stjórnar Kolviðar. Kolviður auðveldar aðilum að binda kolefni með gróðursetningu í skógarvistkerfum til mótvægis við magn koldíoxíðs (CO2) sem aðilar losa með starfsemi sinni.

Reynir Kristinsson formaður stjórnar Kolviðar bendir fyrirtækjum á að skilgreina þá losun sem rekstur fyrirtækisins skapar vegna flutninga, framleiðslu/þjónustu, flugferða og annarra samgangna. Fyrirtæki ættu að setja sér markmið um kolefnisjöfnun og tímamörk á þau. Þá þurfi að passa að öll markmið séu raunhæf. Einnig er mikilvægt að skoða aðföng með tilliti til kolefnisjöfnunar og beina helst viðskiptum sínum til þeirra aðila sem hafa umhverfismál að leiðarljósi. Þá nefndi Reynir að Kolviður gæti aðstoðað fyrirtæki með sína kolefnisjöfnun.

Bjarni Diðrik Sigurðsson prófessor við Landbúnaðarháskólann mælti með að fyrirtæki byrji á að koma sér upp umhverfisbókhaldi. Að áætla kolefnisspor fyrirtækis er ekki einfalt svo gott væri að byrja á afmörkuðum þáttum t.d. eigin framleiðslustarfsemi og ferðum starfsmanna. Tvær leiðir mætti svo nota:
1) Að draga úr losun með því að minnka jarðefnaeldsneytisnotkun eða skipta um eldsneytisgjafa í rafmagn eða metan. Einnig mætti minnka losun með því að nota meira af hráefni úr lífrænum efnum sem eru í hringrás í náttúrunni (t.d. timbur í byggingar í stað sements eða stáls, plastefni unnið úr sterkju frekar en olíu, o.s.frv.). Að draga úr losun eins og kostur er er mikilvægasta aðgerð hvers fyrirtækis og stundum má jafnvel ná fram hagrænum ávinningi í leiðinni vegna ódýrari lausna og/eða minni orkuþarfar.
2) Að auka kolefnisbindingu með skógrækt, landgræðslu og/eða endurheimt votlendis. Fyrirtækið þarf þá að hafa aðgang að landi sem hentar og tryggt sé að gróðurlendið fái að standa til framtíðar . Hægt er að semja við bændur, sveitarfélög, frjáls félagasamtök eða opinberra aðila sem fara með umsýslu lands. Mikilvægt er að slíkum mótvægisaðgerðum sé fylgt eftir með staðfestingu/úttekt á því að kolefnisbindingin hafi raunverulega átt sér stað.

Þórunn Pétursdóttir, sérfræðingur hjá Landgræðslu Ríkisins sagði fyrirtæki geta haft veruleg samfélags- og hagræn áhrif, ef þau taka þátt í endurheimt raskaðra vistkerfa sem hluta af loftslagsmarkmiðum sínum. Auk kolefnisbindingar felst ábatinn af landgræðslu í bættri vatnsmiðlun, auknum lífmassa, skjóli og vörnum gegn náttúruhamförum. Hún hvetur fyrirtækin til að setja sér 50 ára markmið um að endurheimta hluta af röskuðum vistkerfum á Íslandi og styrkja þannig náttúrugæði landsins um leið og þau ná sínum markmiðum um kolefnishlutleysi. Þórunn hvetur fyrirtæki til að auka vistlæsi starfsmanna sinna gegnum fræðslunámskeið og jafnvel með beinni þátttöku í endurheimtarstarfinu.

Ef starfsmenn ná að tileinka sér sjálfbærnihugsun til framtíðar, þá muni kolefnisspor fyrirtækja sjálfkrafa koma til með að marka grynnra en það gerir í dag.

Sögur af samfélagsábyrgð eru á vegum Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Festa er líka á Facebook og Twitter.

--

--

Ketill B. Magnússon
Sögur af samfélagsábyrgð

Samfélagsábyrgð, skólamál, stjórnun og rekstur ǀ Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð, HR, Heimili og skóli.