„Samfélagsábyrgð snýst um að hugsa hlutina alla leið og til langs tíma.“

Hrönn Margrét Magnúsdóttir framkvæmdastjóri og Kristín Ýr Pétursdóttir yfirhönnuður Ankra sitja fyrir svörum um samfélagsábyrgð í verki.

Þetta viðtal er hluti af Sögum af samfélagsábyrgð, verkefnis á vegum Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Það er birt í tengslum við ráðstefnu Festu og Samtaka atvinnulífsins, Árangur og ábyrg fyrirtæki sem verður haldin í Hörpu 29. janúar.

Ankra er sprotafyrirtæki í sjávarútvegi, stofnað 2013, sem notar virk efni í hafinu, meðal annars efni úr fiskroði, til þess að skapa hágæðasnyrtivörur- og fæðubótaefni sem byggir á margra ára þróunar- og rannsóknarvinnu. Fyrirtækið hefur frá upphafi lagt ríka áherslu að tileinka sér ábyrga starfshætti, meðal annars með því að móta og innleiða stefnu um samfélagsábyrgð inn í alla starfsemi fyrirtækisins.

Kristín Ýr Pétursdóttir er yfirhönnuður Ankra.

Kristín Ýr Pétursdóttir er yfirhönnuður hjá Ankra: „Stefna um samfélagsábyrgð hjá fyrirtækjum á ekki lengur að vera spurning. Þessi hugsun er að verða allsráðandi hjá neytendum og almenningi í heild sinni. Ný kynslóð er orðin svo meðvituð og upplýst um umhverfi sitt og samfélag að það er engin önnur leið en að fyrirtæki græði á þessu.“

Hrönn Margrét Magnúsdóttir er framkvæmdastjóri Ankra. Hún tekur undir orð Kristínar. „Það er að verða svo mikil vitundarvakning meðal fólks og fólk er farið að pæla sífellt meira í umhverfi sínu. Þannig að þegar öllu er á botninn hvolft þá er þetta á endandum eitthvað sem öll fyrirtæki eiga eftir að þurfa að fylgja í sinni starfsemi, hvort sem þeim líkar betur eða verr, og afhverju ekki að byrja núna og þannig auka forskot sitt,“ segir Hrönn og útskýrir að stefna um samfélagsábyrgð auki bæði forskot á samkeppnismarkaði og geri fyrirtækið og starfsmenn meðvitaðari.

Hrönn Margrét Magnúsdóttir er framkvæmdastjóri Ankra.

„Hugsunin var að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða og reyna að fullvinna fiskinn í sjónum. Með því að nýta þessi áður ónýttu efni í fiskinum erum við bæði að lágmarka sóun og líka að skapa margfalt meiri verðmæti.“ Þegar kom að stefnumótun fyrirtækisins segir hún það hafa legið beinast við að tileinka sér stefnu í samfélagsábyrgð og bendir á að starfsemin sjálf sé nátengd málefninu. Það sem kom henni mest á óvart var hvað stefna í samfélagsábyrgð er ekki einungis til þess fallin að bæta samviskuna heldur gefur hún stjórnendunum skýrari sýn á alla áhrifaþætti sem koma að starfseminni.

„Það sem stóð upp úr við vinnuna er þegar við áttuðum okkur á því að flestar ákvarðanir sem eru teknar í fyrirtækinu hafa bein eða óbein áhrif á samfélagið og umhverfið. Stefna í samfélagsábyrð opnar augu manns fyrir því og öllum þessum leyndu neikvæðu áhrifaþáttum sem vel er hægt að koma í veg fyrir.“ Helsti ávinningurinn af stefnunni hingað til er kortlagning þessara áhrifaþátta og ekki síður sú hugarfarsbreyting sem á sér stað í ferlinu. „Það er einmitt svo hollt að átta sig á þessum áhrifum. Stefna um samfélagsábyrgð ýtir manni út í það að hugsa hlutina alla leið og til langs tíma, sem ég trúi að muni alltaf koma sér vel fyrir fyrirtækið að lokum.“

Meginstólparnir í stefnu Ankra eru gæði, umhverfi og samfélag. „Um leið og maður er búin að tileinka sér þessa heildarhugsun rekur maður sig miklu sjaldnar á,“ bætir Kristín við. „Þetta snýst í raun og veru bara um að gildi fyrirtækisins endurspegli okkar eigin gildi sem manneskjur og breytni fyrirtækisins sé í samræmi við það.“

Hrönn Margrét Magnúsdóttir framkvæmdastjóri og Kristín Ýr Pétursdóttir yfirhönnuður Ankra áttu samtal um samfélagsábyrgð við Lovísu Eiríksdóttur á kaffistofu Íslenska Sjávarklasans að Grandagarði 16, þann 20. janúar 2015; Hrefna Björg Gylfadóttir tók myndirnar.

„Já, við erum ekki bara stjórnendur fyrirtækis heldur foreldrar og manneskjur og við viljum ekki að börnin okkar taki við ónýtri jörð“ segir Hrönn. Kristín bætir við að hvert fyrirtæki skipti máli. „Þó við hjá Ankra séum enn lítil í samanburði við stórfyrirtækin og áhrifin í samræmi við það, er það nú dropinn sem holar steininn og með okkar stefnu viljum við setja pressu á aðra og um leið vera fyrirmynd.“

Þær Hrönn og Kristín benda á að samfélagsábyrgðin snúist ekki bara um framleiðsluferlið og hvort umbúðirnar séu endurvinnanlegar eða ekki. „Í okkar tilfelli leggjum við til dæmis mikla áherslu á að auka jafnrétti kynjanna í iðnaðinum. Sífellt fleiri konur sækja í sjávarútveginn sem sýnir að iðnaðurinn er orðinn meira spennandi en áður. Fjölbreytileikinn getur ekki annað en skapað meiri ávinning fyrir sjávarútveginn og samfélagið í heild sinni.“


Hrönn Margrét Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Ankra er ein af frummælendum á ráðstefnu Festu og Samtaka atvinnulífsins um samfélagsábyrgð hjá íslenskum fyrirtækjum fimmtudaginn 29. janúar 2015. Þar fjallar hún um hvernig Ankra mótar og innleiðir stefnu um samfélagsábyrgð, hvað felst í stefnunni, áskoranir, ávinning og hvata.

Viltu vita meira um samfélagsábyrgð fyrirtækja? Smelltu hér til að skrá þig á ráðstefnuna.


Sögur af samfélagsábyrgð eru á vegum Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Festa er líka á Facebook og Twitter.

Sögur af samfélagsábyrgð

Geta fyrirtæki haft jákvæð áhrif á samfélagið og umhverfið? Viðtöl við frumkvöðla í samfélagsábyrgð á Íslandi, á vegum Festu, samtaka um samfélagsábyrgð fyrirtækja.

  Festa samfélagsábyrgð

  Written by

  Miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja á Íslandi.

  Sögur af samfélagsábyrgð

  Geta fyrirtæki haft jákvæð áhrif á samfélagið og umhverfið? Viðtöl við frumkvöðla í samfélagsábyrgð á Íslandi, á vegum Festu, samtaka um samfélagsábyrgð fyrirtækja.

  Welcome to a place where words matter. On Medium, smart voices and original ideas take center stage - with no ads in sight. Watch
  Follow all the topics you care about, and we’ll deliver the best stories for you to your homepage and inbox. Explore
  Get unlimited access to the best stories on Medium — and support writers while you’re at it. Just $5/month. Upgrade