„Samfélagsábyrgðin er til hagsbóta fyrir alla.“

Festa samfélagsábyrgð
Sögur af samfélagsábyrgð
5 min readApr 30, 2015

--

Sigurborg Arnarsdóttir sérfræðingur í samfélagsábyrgð hjá Össuri segir að samfélagsábyrgð snúist ekki um að vera ,næs’ — hún skipti raunverulega máli fyrir reksturinn.

Sögur af samfélagsábyrgð er rafrænt tímarit, gefið út af Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja á Íslandi.

Sigurborg Arnarsdóttir forsvarsmaður samfélagsábyrgðar stoðtækjafyrirtækisins Össurar segir starfsemi fyrirtækisins byggjast á að hjálpa fólki sem er með skerta hreyfigetu að njóta lífsins til fulls, en fyrirtækið selur stoðtæki, spelkur og stuðningsvörur til þess að auka hreyfigetu. „Við erum svo heppin að starfsfólk okkar er margt nú þegar með þennan samfélagslega hugsunarhátt og viðhorf og brennur fyrir það að geta haft jákvæð áhrif á lífsgæði þeirra sem notast við vörur okkar. Stefna okkar á einmitt að ýta undir þetta jákvæða samfélagslega viðhorf og endurspegla hvernig við viljum að fyrirtækið okkar sé rekið.“

Össur hf. gerðist aðili að Global Compact sáttmála Sameinuðu þjóðanna í lok árs 2011 og hefur síðan þá gefið út samfélagsskýrslur árlega. Fyrirtækið gaf út sína þriðju samfélagsskýrslu nú á dögunum.

„Fyrst gáfum við okkur góðan tíma í þarfagreiningu og kortlagningu á starfseminni áður en við fórum að vinna verkefnið fyrir alvöru,“ segir Sigurborg. Fyrirtækið byrjaði á því að styðjast við ISO staðal um samfélagsábyrgð sem tekur til sjö málaflokka sem koma að samfélagsábyrgð. Hún segir mikilvægt að forgangsraða verkefnum. „Þetta er náttúrurlega dálítið yfirþyrmandi fyrst. Samfélagsábyrgð snertir alla fleti starfseminnar og því er erfitt að fanga þetta málefni svona allt í einum bita.“

Össur kaus að leggja áherslu tvö verkefni, sem annars vegar snúa að umhverfismálum og hins vegar að birgjum í Asíu. „Við höfum alla tíð átt í góðum samskiptum við okkar birgja en framleiðsluferlið í Asíu er eðlilega öðruvísi. Þetta var því þáttur sem við vildum kanna frekar og með formlegri hætti, sérstaklega hvað varðar mannréttindi, barnaþrælkun, aðbúnað, spillingu og fleira.“ Slíkar úttektir séu ekki einungis mikilvægar út frá sjónarmiðum tengdum samfélagsábyrgð heldur séu þær ekki síður mikilvægar út frá hreinum rekstrarforsendum. „Það er lykilatriði fyrir okkur að birgjarnir sem við eigum í viðskiptum við séu í góðum og ábyrgum rekstri.“

„Með því að mæla og miðla nærðu að sannfæra fólkið þitt að þetta sé ekki einungis til þess að reyna að vera ,næs’ heldur að þetta skipti raunverulega máli fyrir reksturinn.“

Sigurborg segir þessar úttektir hafi meðal annars leitt í ljós að ýmsir þættir í ferlinu hjá fyrirtækinu, tengt upplýsingagjöf og samskiptum, hafi verið ábótavant. „Við sáum að birgjana skorti vissa þekkingu á sviði gæðaeftirlitis og öðru sem var tiltölulega auðvelt fyrir okkur að hjálpa þeim við.“

Í framhaldinu ákvað Össur að auka áherslu á gæðaeftirlit í Kína með því að láta starfsfólk sitt vinna með birgjunum þar og auka þannig þekkingu og getu starfsmanna í verksmiðjunum á sama tíma og þeir sinna gæðaeftirliti. „Með þessu erum við að hjálpa þeim að bæta sinn rekstur og að gefa sínu starfsfólki tækifæri á að þróast í starfi. Svona verkefni eru til hagsbóta fyrir alla sem að þeim koma og þannig á það líka að vera.“

Sigurborg segir jafnvel enn mikilvægara að eiga góð og opin samskipti við birgja í Asíu en annars staðar þar sem menningarheimar séu svo ólíkir. „Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að birgjar sem fullvinna vörur fyrir okkur séu í öruggum og ábyrgum rekstri. Með því að leggja okkur fram við að vera í góðum samskiptum við þá skiljum við betur þeirra starfsumhverfi og erum betur í stakk búin til þess að takast á við vandamál sem kunna að koma upp.“

Össur er með umhverfisvottanir á öllum sínum framleiðslueiningum og hluta af vöruhúsum sínum. „Með því erum við smá saman að auka vitund okkar í umhverfismálum.“

„Stefna í samfélagsábyrgð gerir þær kröfur til okkar að við spyrjum okkur spurninga sem við hefðum kannski annars ekki gert.“

Sigurborg segir mjög mikilvægt að skrá og mæla verkefni og markmið sem tengjast samfélagsábyrgð. „Skýrslugerðin setur samfélagsábyrgðina í allt annað samhengi. Þá verður verkefnið svo miklu árangursmiðaðara sem gerir starfsfólkinu auðveldara fyrir að tileinka sér þetta viðhorf og þessi vinnubrögð í starfi sínu.“

Hún segir að það skipti öllu máli að starfsfólkið sjái árangur og finni að samfélagsábyrgðin hafi einhvern tilgang. „Mesta áskorunin er að fá fólkið til liðs við sig. Það er fólkið í fyrirtækinu sem þarf að vinna vinnuna og þú þarft að hjálpa því að skilja hvers vegna þetta skiptir máli og að þetta sé til hagsbóta fyrir alla.“

Ólíkt Landsvirkjun setur Össur sér allt að fimm ára markmið. Sigurborg leggur mikla áherslu á að markmiðin séu raunhæf. „Við erum enn að móta samfélagsábyrgð okkar og finna taktinn, en auðvitað tökum við stöðuna alltaf árlega þegar við vinnum skýrsluna okkar og sú vinna veitir okkur mikið aðhald.“

Að sögn Sigurborgar hefur Össur valið sér mælikvarða sem eru viðeigandi fyrir þeirra rekstur. „Með því að mæla og miðla nærðu að sannfæra fólkið þitt að þetta sé ekki einungis til þess að reyna að vera ,næs’ heldur að þetta skipti raunverulega máli fyrir reksturinn.“

Össur er með starfsstöðvar út um allan heim og segir Sigurborg að með alþjóðavæðingu fylgi alltaf aukin áhætta. „Stefna í samfélagsábyrgð gerir þær kröfur til okkar að við spyrjum okkur spurninga sem við hefðum kannski annars ekki gert.“ Hún segir slíkt hjálpa fyrirtækinu við áhættustýringu og geri því kleift að komast að veikum blettum í starfseminni fyrr en ella.

Sigurborg Arnarsdóttir hjá Össuri talaði við Lovísu Eiríksdóttur í höfuðstöðvum fyrirtækisins á Grjóthálsi þriðjudaginn 24. mars 2015. Hrefna Björg Gylfadóttir tók myndirnar.

Stefna um mælingar og miðlun á samfélagsábyrgð sé einnig til þess fallin að auka gagnsæi. „Við viljum vera opin og sýna að við séum tilbúin að tala um það sem við erum að gera. Sem er ákveðin viðurkenning á því að okkar rekstur kemur öllu samfélaginu við.“

Sögur af samfélagsábyrgð eru á vegum Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Festa er líka á Facebook og Twitter.

Fyrri viðtöl:

Ragna Sara Jónsdóttir, forstöðumaður samfélagsábyrgðar hjá Landsvirkjun:Sýnileg markmið gera samfélagsábyrgðina svo miklu áþreifanlegri.“

Finnur Sveinsson, yfirmaður samfélagsábyrgðar hjá Landsbankanum:Maður lærir mest á því að stökkva beint út í djúpu laugina.“

--

--