„Maður lærir mest á því að stökkva beint út í djúpu laugina.“

Finnur Sveinsson yfirmaður samfélagsábyrgðar hjá Landsbankanum segir fyrirtæki ekki þurfa að vera með öll smáatriði á hreinu áður en samfélagsskýrslur eru skrifaðar.

Sögur af samfélagsábyrgð er verkefni á vegum Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja.

Mælingar og skráningar eru lykilatriði til að ná árangri og öðlast trúverðugleika, að mati Finns Sveinssonar, yfirmanns samfélagsábyrgðar hjá Landsbankanum, en bankinn hefur gefið út samfélagsskýrslu árlega frá árinu 2012.

„Þegar maður byrjar að styðjast við alþjóðlega mælikvarða skilur maður mun betur hvernig er hægt að vinna og innleiða stefnu um samfélagsábyrgð“ segir Finnur, en hann hefur sterka trú á að til að ná árangri í samfélagsábyrgð þurfi fyrirtæki að mæla og skrásetja.

„Við þurfum að hafa tölulegar upplýsingar á bak við okkur til að sjá svart á hvítu hver við erum og hvaða áhrif við höfum — hvað við erum að gera vel og hvað við getum gert betur.“

Bankinn byrjaði á því að kortleggja starfsemi fyrirtækisins með því að styðjast við alþjóðleg viðmið eins og Global Reporting Initiative (GRI) og Global Compact. Finnur segir mikilvægt að nota alþjóðlega mælikvarða til þess að fá betri yfirsýn yfir áhrif og ábyrgð bankans. „Sumir þessir mælikvarðar eiga ekki við um okkur en aðrir mjög viðeigandi, eins og til dæmis það sem snýr að starfsmannamálum, jafnréttismálum, fjármálalæsi og ábyrgum fjárfestingum. Samfélagsskýrslan okkar er vegferð sem lýsir því hvernig við höfum farið að því að innleiða samfélagsábyrgð okkar.“

„Við þurfum tölulegar upplýsingar til að sjá svart á hvítu hver við erum og hvaða áhrif við höfum — hvað við erum að gera vel og hvað við getum gert betur.“

Finnur viðurkennir að það sé erfitt að byrja og að mesta áskorunin sé í raun að horfast í augu við sjálfan sig. „Þegar þú þorir að gera grein fyrir fleiru en bara því sem er jákvætt, þá fyrst ertu komin með góð verkfæri til þess að bæta þig,“ segir Finnur og útskýrir að mikilvægasti ávinningurinn sé að skapa trúverðugleika. „Samfélagsábyrgð er til einskis ef hún er ekki trúverðug.“

Landsbankinn er þessa dagana að gefa út fjórðu samfélagsskýrslu sína síðan árið 2012. „Það er töluverður munur á fyrstu skýrslunni sem við gerðum og þeirri sem er að koma út núna. Fyrirtæki eiga ekki að þurfa að vera með einstök smáatriði á hreinu áður en samfélagsskýrslur eru skrifaðar. Mesti lærdómurinn er að gera hlutina. Þá fyrst geta fyrirtæki farið að bæta sig og þróast.“

Finnur hvetur fyrirtæki sem eru að vinna að samfélagsábyrgð að hoppa beint ofan í djúpu laugina. „Fyrirtæki mega ekki vera feimin að gera samfélagsábyrgð sína sýnilega. Í fyrsta lagi þá eiga fyrirtæki skilið að fá kredit fyrir það sem þau eru að gera vel og í öðru lagi þá er svo mikilvægt að vera fyrirmynd fyrir aðra því þú vilt geta haft góð áhrif í kringum þig.“

Landsbankanum var ráðlagt að byrja á umhverfis- og starfsmannamálum. „Það reyndist okkur vel því það er auðveldast að tækla slíkt.“ Sem dæmi hefur bankinn unnið markvisst að því að jafna kynjahlutföll, og hefur fengið umhverfisvottun fyrir mötuneyti sín. Vottunin felst meðal annars í því að ákveðið hlutfall matvæla sé lífrænt ræktað, að einnota ílát og hnífapör séu ekki notuð, að minna sé notað af umbúðum, dregið sé úr notkun rafmagns, vatns, og ræstiefna, úrgangur flokkaður og sóun minnkuð. Loks gerir bankinn samgöngusamninga við starfsmenn til að stuðla að vistvænum ferðamáta.

„Þegar þú þorir að gera grein fyrir fleiru en bara því sem er jákvætt, þá fyrst ertu komin með góð verkfæri til þess að bæta þig.“

Finnur segir að bankinn sé nú byrjaður að skoða og velta fyrir sér flóknari málum í starfseminni eins og ábyrgum fjárfestingum og lánveitingum. „Við rekum okkur stundum á og getum hreinilega ekki staðist sumar kröfur, en það er líka allt í lagi því þá vitum við líka úr hverju við þurfum að bæta.“ Finnur segir að mestu skipti að viðurkenna og vera meðvitaður um hlutina eins og þeir eru. Það geti verið ansi dýrt og áhættusamt að koma ekki til dyranna eins og maður er klæddur.

Að sögn Finns er þessi vinna auðvitað partur af því að efla traust á bankanum og vinna upp það sem glataðist í hruninu, og hann skynjar að almenningur er enn skeptískur. „Það tekur langan tíma að vinna upp traustið aftur en það gerum við meðal annars með því að útlista verkefnin formlega og sýna hvaða rök og greiningar liggja að baki. Þá sér fólk ekki bara orð heldur hver við erum í raun.“

Finnur segir að bankinn sé enn að betrumbæta mælingar og ferla, og að vinnan verði í raun aldrei búin „Það þarf ávallt að vera að yfirfara ferlana. Það tekur tíma, en það góða er að við skiljum miklu betur hvaða áhrif bankinn hefur á samfélagið og umhverfið í dag en við gerðum fyrir 10 árum.“


Sögur af samfélagsábyrgð eru á vegum Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Festa er líka á Facebook og Twitter.


Fyrri viðtöl:

Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1: Við erum hluti af samfélaginu.“

Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka:Við viljum vera hreyfiafl góðra verka.“

Sögur af samfélagsábyrgð

Geta fyrirtæki haft jákvæð áhrif á samfélagið og umhverfið? Viðtöl við frumkvöðla í samfélagsábyrgð á Íslandi, á vegum Festu, samtaka um samfélagsábyrgð fyrirtækja.

  Festa samfélagsábyrgð

  Written by

  Miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja á Íslandi.

  Sögur af samfélagsábyrgð

  Geta fyrirtæki haft jákvæð áhrif á samfélagið og umhverfið? Viðtöl við frumkvöðla í samfélagsábyrgð á Íslandi, á vegum Festu, samtaka um samfélagsábyrgð fyrirtækja.

  Welcome to a place where words matter. On Medium, smart voices and original ideas take center stage - with no ads in sight. Watch
  Follow all the topics you care about, and we’ll deliver the best stories for you to your homepage and inbox. Explore
  Get unlimited access to the best stories on Medium — and support writers while you’re at it. Just $5/month. Upgrade