Við erum hluti af samfélaginu.

Eggert Benedikt Guðmundsson forstjóri N1 segir samfélagsábyrgð vera eitt af mikilvægustu verkefnum fyrirtækisins um þessar mundir. „Þetta er augljóst. Hagur samfélagsins er hagur okkar.“

Þetta viðtal er hluti af Sögum af samfélagsábyrgð, verkefnis á vegum Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Það er birt í tengslum við ráðstefnu Festu og Samtaka atvinnulífsins, Árangur og ábyrg fyrirtæki sem verður haldin í Hörpu 29. janúar.


Eggert Benedikt Guðmundsson forstjóri N1 segir fyrirtækið hafa marga snertifleti við allt samfélagið. „Þjónusta okkar er um allt land, hér starfa um 600 starfsmenn, og hluthafar okkar eru að langstærstum hluta lífeyrissjóðirnir, sem þýðir að við erum að ávaxta sparifé landsmanna. Það er ótrúlega mikilvægt að við hugum að þeirra ábyrgð sem við höfum gagnvart öllum þessum aðilum og tökum hana alvarlega.“

Eggert Benedikt Guðmundsson er fæddur árið 1963 og er Dipl.-Ing. í rafmagnsverkfræði frá háskólanum í Karlsruhe og MBA frá IESE í Barcelona. Hann hefur starfað hjá Íslenska járnblendifélaginu, raftækjaframleiðandanum Philips í Belgíu og Kaliforníu. Áður en hann kom til starfa hjá N1 var hann forstjóri HB Granda. Eggert er varaformaður Leikfélags Reykjavíkur.

N1 gekk til liðs við Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð árið 2013, að sögn Eggerts til þess að auka færni sína og þekkingu á sviði samfélagsábyrgðar. „N1 hefur lengi unnið að verkefnum sem tengjast samfélagslegri ábyrgð á einhvern hátt en okkur langaði að taka á málefninu kerfisbundið til að ná betur utan um hlutina. Við vildum móta okkur heildstæða stefnu í staðinn fyrir að horfa til ákveðinna verkefna hér og þar.“ Eggert segir að einnig sé mikilvægt að vera í félagsskap með öðrum fyrirtækjum sem hugsa á svipuðum nótum. „Það er gott og gagnlegt að kynnast því hvernig aðrir nálgast hlutina.“

Hver er ávinningurinn fyrir N1? „Þar sem við erum hluti af samfélaginu er augljóst að jákvæð áhrif á samfélagið skila sér til okkar.“ Eggert segir þátttöku starfsmanna líka mikilvæga og að þeir finni fyrir því að störf þeirra geri gagn. Starfsánægja smitist út í alla anga fyrirtækisins og skili sér ekki síður í góðum viðskiptum. „Í þriðja lagi finnum við fyrir því að viðskiptavinir okkar gera ríkari kröfu um ábyrga starfshætti, og þær kröfur verðum við að uppfylla.“

„Þetta snýst ekki um að haka í einhver box heldur þurfum við að tileinka okkur þessa hugsun í einu og öllu.“

Eggert segist finna fyrir aukinni umræðu um samfélagsábyrgð. „Tökum lítið dæmi: Fólk er farið að flokka sorp í auknum mæli heima hjá sér. Það hlýtur að vera krafa fólks, sem búið er að leggja mikla vinnu í að flokka sorp, að fyrirtæki sem það á í viðskiptum við geri slíkt hið sama.“ Flokkun sorps er eitt dæmi af mörgum um verkefni sem N1 hefur verið að vinna að, og hefur félagið fengið ISO 14001 umhverfisvottun á starfsstöðvar sínar. N1 hefur einnig verið að vinna að jafnréttismálum, samgöngumálum og öryggismálum. „Við ákváðum til að mynda að sækja um jafnlaunavottun VR í fyrra og höfum verið að vinna í því af fullum krafti síðan þá.“

N1 býður einnig upp á umhverfisvænni orkugjafa. Félagið var frumkvöðull í því að bjóða upp á metan á ökutæki og hefur tekið þátt í að þróa íslenska lífdísel olíu, þar sem sláturúrgangi er breytt í dísel olíu. „Þarna erum við að tala um úrgang sem verið er að breyta í verðmæti.“ Loks hefur félagið sett upp rafhleðslustaur fyrir rafbíla. „Við viljum taka þátt í þeirri breytingu sem er að eiga sér stað og allt er þetta hluti af samfélagsábyrgð okkar.“

„Fólk sér strax í gegnum það ef fyrirtæki eru ekki að sinna þessu af heilum hug.“

Helstu áskoranirnar „Sumum þykir þetta vera óþarft og truflandi. Helsta áskorunin er að upplýsa starfsfólk og umhverfið allt um málefnið.“

N1 vinnur nú að því að virkja umræðuna hjá starfsfólki og fá fólk til að hugsa heildstætt. „Þetta snýst ekki um að haka í einhver box heldur þurfum við að tileinka okkur þessa hugsun í einu og öllu.“

Fyrir tveimur árum lagðist fyrirtækið í allsherjar stefnumótun og ákvað í kjölfarið að samfélagsábyrgð yrði eitt af forgangsmálum félagsins. Skipaður var vinnuhópur sem fékk það hlutverk að draga saman þau verkefni sem fyrirtækið stæði frammi fyrir. „Þetta var mjög krefjandi verkefni þar sem hópurinn vann að því að kortleggja alla starfsemina — hvar við getum bætt okkur, en einnig að skrá það sem við vorum að gera vel nú þegar.“ Hópurinn listaði upp um 70 verkefni sem komu til greina og eru mörg þeirra nú þegar komin í farveg hjá fyrirtækinu. „Þetta er vissulega áskorun en þú sérð ávinninginn alls staðar. Þetta skilar sér í góðum áhrifum á samfélagið, viðskiptin, starfsfólkið og umhverfið í heild.“

Margir hafa þá skoðun að mörg fyrirtæki líti fyrst og fremst á samfélagsábyrgð sem gluggaskreytingu. Hvað gerir N1 til að skapa trúverðugleika? Eggert segir mjög mikilvægt að fyrirtæki séu meðvituð um hvað það þýðir að sýna samfélagsábyrgð í verki. „Mér hefur fundist gagnrýnin helst beinast að einstökum aðgerðum, þar sem því haldið fram að tilgangurinn sé að kaupa sér frið. Samfélagsábyrgð snýst þó fyrst og fremst um það hvernig fyrirtæki hegða sér í hinu daglega lífi. Fólk er orðið það upplýst að það sér strax í gegnum það ef fyrirtæki eru ekki að sinna þessu af heilum hug.“

Eggert Benedikt Guðmundsson forstjóri N1 talaði við Lovísu Eiríksdóttur á skrifstofum N1 í Kópavogi föstudaginn 23. janúar 2015. Hrefna Björg Gylfadóttir tók myndirnar.

Til þess að fyrirtæki geti sinnt samfélagsábyrgð vel segir Eggert það lykilatriði að vinna kerfisbundið og nýta þau tæki og tól sem bjóðast. „Hugtakið samfélagsábyrgð getur kannski hljómað dálítið framandi en þegar maður kynnir sér málin betur og vinnur í þessu kerfisbundið verður þetta svo áþreifanlegt — bara eins og hvert annað verkefni.“


Eggert Benedikt Guðmundsson forstjóri N1 er meðal frummælenda á ráðstefnu Festu og Samtaka atvinnulífsins um samfélagsábyrgð hjá íslenskum fyrirtækjum fimmtudaginn 29. janúar 2015.

Viltu vita meira um samfélagsábyrgð fyrirtækja? Smelltu hér til að skrá þig á ráðstefnuna.


Sögur af samfélagsábyrgð eru á vegum Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Festa er líka á Facebook og Twitter.

Sögur af samfélagsábyrgð

Geta fyrirtæki haft jákvæð áhrif á samfélagið og umhverfið? Viðtöl við frumkvöðla í samfélagsábyrgð á Íslandi, á vegum Festu, samtaka um samfélagsábyrgð fyrirtækja.

  Festa samfélagsábyrgð

  Written by

  Miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja á Íslandi.

  Sögur af samfélagsábyrgð

  Geta fyrirtæki haft jákvæð áhrif á samfélagið og umhverfið? Viðtöl við frumkvöðla í samfélagsábyrgð á Íslandi, á vegum Festu, samtaka um samfélagsábyrgð fyrirtækja.

  Welcome to a place where words matter. On Medium, smart voices and original ideas take center stage - with no ads in sight. Watch
  Follow all the topics you care about, and we’ll deliver the best stories for you to your homepage and inbox. Explore
  Get unlimited access to the best stories on Medium — and support writers while you’re at it. Just $5/month. Upgrade