„Við viljum vera hreyfiafl góðra verka.“

Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka leggur ríka áherslu á samfélagsábyrgð. Hún finnur fyrir miklum áhuga á málefninu innanhúss og telur samfélagsábyrgð vera ómissandi í stefnumótun fyrirtækja.

Þetta viðtal er hluti af Sögum af samfélagsábyrgð, verkefnis á vegum Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Það er birt í tengslum við ráðstefnu Festu og Samtaka atvinnulífsins, Árangur og ábyrg fyrirtæki sem verður haldin í Hörpu 29. janúar.


Íslandsbanki leggur ríka áherslu á samfélagsábyrgð og segir Birna að málefnið hafi verið tekið inn í reglulega endurskoðun á stefnu bankans. „Mér finnst það liggja alveg ljóst fyrir að samfélagsábyrgð á að vera einn af forgangsþáttum í stefnumótun fyrirtækja. Við höfum í raun lengi lagt ríka áherslu á málefnið en núna erum við í raun farin að setja þetta allt undir einn hatt, sem hluta af heildarstefnu bankans.“

Hver er ávinningurinn? „Í fyrsta lagi er ávinningurinn sá að starfsmennirnir séu meðvitaðir um það hvað við erum að gera og hvernig við viljum vinna. Það finnst mér hafa tekist mjög vel.“

Birna segir að hún finni fyrir miklum áhuga innanhúss á samfélagsábyrgð. „Sem dæmi héldum við okkar árlega stefnumótunarfund nýlega þar sem starfsmenn máttu ráða hvaða málefni þeir vildu taka fyrir. Það var áhugavert að sjá að flestir vildu fara í hópa um það sem snéru að samfélagsábyrgð og ég finn að við höfum ofsalega góðan jarðveg fyrir þau verkefni sem við erum að vinna að.“

Birna segir ávinninginn einnig skila sér sér til viðskiptavina. „Þegar starfsfólk er orðið meðvitað um hvernig bankinn vill vinna þá verða færri mistök. Jákvæðara viðhorf gagnvart bankanum skilar sér svo í betri viðskiptum, svo dæmi sé tekið.“

Í dag er Íslandsbanki með samtals níu verkefni í gangi núna sem tengjast stefnu þeirra í samfélagsábyrgð. „Við erum til dæmis að fara af stað með verkefni núna þar sem við erum að skoða ábyrgar lánveitingar, við erum að vinna að samgöngumálum, með fjárfestingahlið bankans og margt fleira. Banki getur verið svo mikilvægt hreyfiafl ef það er rétt staðið að þessu.“

Birna segir að það bíði þeirra langur listi af verkefnum þessu tengdu sem bankinn hlakkar til að takast á við. „Við eigum öll að leggja okkur af mörkum til að reyna að bæta samfélagið. Og þú getur spurt þig, er þetta litla sem þú gerir að skipta einhverju máli? Og við eigum öll að hugsa: Já það skiptir máli. Þó að það sé bara eitthvað lítið þá samtals bætum við samfélagið sem við búum og störfum í.“

Hverjar eru helstu áskoranirnar? „Það er náttúrurlega hvernig þú finnur þetta jafnvægi á milli viðskipta og samfélags. Ef þú ert búin að ákveða að þú viljir gera hlutina á ákveðin hátt, þá getur þú þrengt markaðinn töluvert. Til skamms tíma minnka kannski tekjurnar þínar, en þú verður alltaf að horfa á hlutina til lengri tíma.“ Birna nefnir að fyrirtæki verði alltaf að skila arðsemi til að geta orðið þetta hreyfiafl. „Það er okkar helsta áskorun að finna þetta jafnvægi í viðskiptunum.“

„Banki getur verið svo mikilvægt hreyfiafl ef það er rétt staðið að þessu.“

Nú töpuðu bankarnir töluvert af trúverðugleika sínum eftir hrun og oftar en ekki skapar hugtakið samfélagsábyrgð fyrirtækja tortryggni, hvernig vinnið þið í því að skapa trúverðugleika?

„Þú vinnur í trúverðugleikanum innan frá og með því að upplýsa fólk.“ Birna segir að mikilvægast sé að skilaboðin komi frá æðstu stjórnendum og að þeir sjái um að leggja línurnar. „Þessi verkefni og stefna sem við erum að vinna að eru mjög mikilvæg og starfsfólk þarf að sjá og finna fyrir því að þetta sé forgangsatriði hjá okkur.“

„Í sjálfu sér er allt sem kemur að þessari stefnumótun frekar sjálfsagt og mannlegt. Í grunninn er fólk alltaf gott og vill gera vel og ég held að við séum bara svolítið að rækta það með þessari vinnu.“

Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka talaði við Lovísu Eiríksdóttur í höfuðstöðvum Íslandsbanka við Kirkjusand fimmtudaginn 22. janúar 2015 . Hrefna Björg Gylfadóttir tók myndirnar.

Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka er einn af frummælendum á ráðstefnu Festu og Samtaka atvinnulífsins um samfélagsábyrgð hjá íslenskum fyrirtækjum fimmtudaginn 29. janúar 2015.

Viltu vita meira um samfélagsábyrgð fyrirtækja? Smelltu hér til að skrá þig á ráðstefnuna.


Sögur af samfélagsábyrgð eru á vegum Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Festa er líka á Facebook og Twitter.

Sögur af samfélagsábyrgð

Geta fyrirtæki haft jákvæð áhrif á samfélagið og umhverfið? Viðtöl við frumkvöðla í samfélagsábyrgð á Íslandi, á vegum Festu, samtaka um samfélagsábyrgð fyrirtækja.

  Festa samfélagsábyrgð

  Written by

  Miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja á Íslandi.

  Sögur af samfélagsábyrgð

  Geta fyrirtæki haft jákvæð áhrif á samfélagið og umhverfið? Viðtöl við frumkvöðla í samfélagsábyrgð á Íslandi, á vegum Festu, samtaka um samfélagsábyrgð fyrirtækja.

  Welcome to a place where words matter. On Medium, smart voices and original ideas take center stage - with no ads in sight. Watch
  Follow all the topics you care about, and we’ll deliver the best stories for you to your homepage and inbox. Explore
  Get unlimited access to the best stories on Medium — and support writers while you’re at it. Just $5/month. Upgrade