Hugsaðu stafrænt

Guðmundur Tómas Axelsson
WebMo Design
Published in
3 min readOct 29, 2018

Á undanförnum árum hefur markaðssetning þróast gífurlega mikið og þá sérstaklega á stafrænum miðlum. Tilkoma samfélagsmiðla og Google netsins (e. Google Search- & Display Network) hefur til dæmis valdið straumhvörfum í markaðssetningu, hvort sem horft er til markhópagreininga, hugmyndavinnu, framleiðslu efnis eða birtinga.

Algengt er að markaðsstjórar vinni markaðsstarf og markaðsherferðir út frá hefðbundnum miðlum svo sem sjónvarpi, útvarpi, blöðum og hefðbundnum vefmiðlum. Aðrir stafrænir miðlar virðast oft á tíðum lenda í öðru sæti og jafnvel vera einskonar afgangs stærð.

Það er eins og öllum líði vel þegar búið er að haka í tékkboxið að hugsað hafi verið fyrir stafrænum miðlum. Með þessu er engan veginn verið að hugsa fyrir þeim raunverulegu möguleikum og tækifærum sem stafrænir miðlar eins og samfélagsmiðlar og Google netið bjóða upp á.

Að sjálfsögðu eru hefðbundnir miðlar sem og stafrænir miðlar hluti af markaðsmixi fyrirtækja og í raun ekki rétt að stilla þeim á móti hvorum öðrum. Fer það eftir markmiðum fyrirtækis, stærð og fleiru hvernig þessir miðlar eru notaðir saman.

Hins vegar er klárt mál að þróunin er örari á stafrænu hliðinni auk þess sem það fjármagn sem fyrirtæki eru að setja í hana eykst jafnt og þétt. Á sama tíma hefur dregið úr ýmsum hefðbundnum miðlum svo sem dagblöðum, sjónvarpi og tímaritum. Útvarp og útiskilti virðast hins vegar halda velli.

Þetta krefst nýrrar hugsunar í markaðsstarfinu þar sem áherslan ætti fyrst að vera á stafræna miðla, svo hina. Ástæður þess eru meðal annars eftirfarandi:

Þarna eru allir

Nánast öll íslenska þjóðin er nettengd sem eru gamlar fréttir en ekki nýjar. Nær öll þjóðin er hins vegar á Facebook eða 93%. Aðrir samfélagsmiðlar eru einnig gífurlega mikið notaðir: 67% nota Snapchat reglulega, 66% YouTube, 51% Spotify og 45% Instagram. Þetta kemur fram í skoðanakönnun á vegum MMR á samfélagsmiðlanotkun Íslendinga frá því í maí 2018. Um 86% neytenda nota netið til að leita eftir vörum og þjónustu og er Google með 90% markaðshlutdeild í leitavélum og ná auglýsingar á Google netinu til um 80% neytenda.

Auðvelt að vinna með markmiðin og mæla þau

Tólin á bak við samfélagsmiðla og Google netið gera þér kleift á einfaldan hátt að vinna með skýr markmið og mæla þau. Hvort sem markmiðin eru að fá notendur til að bregðast við efninu á einn eða annan hátt (e. Engagement) eða ná til sem flestra (e. Reach).

Betri markhópagreiningar

Á samfélagsmiðlum og Google netinu getur þú nálgast nákvæmlega þann markhóp sem þú vilt ná til en þar er boðið upp á mjög öflugar markhópagreiningar. Þú veist nákvæmlega hvað þú greiðir fyrir og kemur þannig í veg fyrir að eyða peningum í markhópa sem þú vilt ekki ná til. Þetta getur hjálpað fyrirtækjum að sérsníða sínar vörur og þjónustu betur.

Betri gögn

Á samfélagsmiðlum og Google netinu færðu góðar tölfræðiupplýsingar um árangurinn. Gögnin eru í rauntíma og auðvelt að bregðast við ef eitthvað er til dæmis ekki að virka eða öfugt.

Hægt að prófað efnið og gera tilraunir

Áður en ráðist er í framleiðslu á dýru auglýsingaefni er hægt að kanna viðbrögð neytenda við bæði efninu og skilaboðunum. Hægt er að A/B prófa (e. A/B testing) efnið og skilaboðin á markhópnum og finna út hvað virkar best. Nýta síðan þær upplýsingar í að þróa efnið og skilaboðin áfram. Þá er hægt að framleiða efni byggt á því hvað höfðar best til markhópsins.

Minni kostnaður

Það kostar almennt minna bæði að framleiða efni og birta það á samfélagsmiðlum og Google netinu. Þú setur þér markmið, velur markhópa og greiðir einungis miðað við þær forsendur sem þú stillir upp. Með þessu hámarkar þú nýtingu á þínu markaðsfjármagni og færð greinargóðar tölfræðiupplýsingar um árangurinn. Í hefðbundnum miðlum s.s. sjónvarpi, útvarpi og blöðum veistu ekki nákvæmlega til hverra þú nærð til þó svo að þú hafir jú einhverja hugmynd um það út frá rannsóknum en hætta er á að fjármagn fari til spillis. Hefðbundnir miðlar eru auk þess almennt mun dýrari.

Ný tækifæri

Samfélagsmiðlar og Google netið gefa fyrirtækjum möguleika á að sækja á erlenda markaði með tiltölulega lítilli fyrirhöfn.

Innan skamms munum við hætta að tala sérstaklega um stafræna markaðssetningu og tala bara um markaðssetningu þar sem stafrænir miðlar og hefðbundnir eru nefndir í sömu andrá. Við ættum í raun að vera löngu farin að tala þannig.

--

--