Straumar og stefnur í stafrænni markaðssetningu 2019

Guðmundur Tómas Axelsson
WebMo Design
Published in
4 min readDec 27, 2018

Nú er árið senn á enda og helstu sérfræðingar heims keppast við að spá fyrir um helstu strauma og stefnur (e. Trends) fyrir árið 2019 í stafrænni markaðssetningu. Hér er það sem okkur í WebMo Design þykir áhugaverðast. Taka skal fram að þetta er aðeins brot af þeim straumum sem eru í gangi.

Instagram stækkar

Samkvæmt rannsókn SocialMedaToday þá ætla markaðsstjórar að auka markaðssetningu á Instagram 2019. Áherslan verður í auknum mæli á Instagram Stories. Eins mun IGTV eflast á nýju ári en IGTV fór í loftið í júní 2018 og er myndbandsveita (e. Video Platform) sem einblínir eingöngu á snjallsímanotendur og er myndformið lóðrétt (e. Vertical).

Spjallbottar (e. Chatbots)

Gartner spáir því að 85% af samskiptum fyrirtækja við viðskiptavini sína fari fram í gegnum Spjallbotta árið 2020. Það sem af er ári 2018 hafa Spjallbottar þróast gífurlega mikið og mun sú þróun halda áfram 2019. Spjallbottar eru sífellt að verða greindari og í auknum mæli raddstýrðir (e. Voice-based Programs).

Aukin áhersla á gögn

Nauðsynlegt er að markaðsstarf sé mælanlegt. Stafrænir miðlar gera okkur enn auðveldara en áður að mæla árangur. Þú fylgist með þróun í rauntíma og getur brugðist hratt við ef þarf að breyta. Nauðsynlegt er að setja sér mælanleg markmið og fylgjast með árangrinum. Nota gögnin til að læra af þeim t.d. til að búa til betri markhópa, bæta skilaboð og efni, velja réttu miðlana o.s.frv.

Fókus á ROI

Fyrirtæki munu í auknum mæli vilja sjá hvaða árangri stafrænir miðlar eru í raun og veru að skila þeim. Ef fyrirtæki ná að mæla þetta þá geta þau einbeitt sér að því að gera rétta hluti og nýtt auðlindir sýnar og fjármagn mun betur.

Gott efni (e. Content)

Að segja góðar sögur á samfélagsmiðlum verður sífellt verðmætara og skiptir þá hugmyndaauðgi í efnissköpun miklu máli. Góðar sögur geta verið sagðar á ýmsan hátt og eru myndbönd (e. Video Content) góð leið til þess. Myndbandsefni vex ár frá ári og mun sú þróun halda áfram 2019 og er talið að bráðlega muni 80% af því efni sem við neytum á samfélagsmiðlum vera myndbandsefni. Youtube, beinar útsendingar, IGTV og fleira mun halda áfram að aukast á nýju ári.

Lóðrétt myndbönd (e. Vertical Video)
Það er líklegra að þú horfir meira á myndbandsefni ef þú þarft ekki að snúa símanum þínum. Árið 2019 er líklegt að notendur muni horfa meira á myndbandsefni í snjalltækjum en í sjónvörpum. Nú þegar horfa 60% á myndbandsefni í snjalltækjum. Notendur snúa símanum sínum lóðrétt í 94% tilfella og þess vegna liggur beint við að búa til efni sem er aðlagað að því. Samfélagsmiðlasjónvarp (e. Social TV) eins og IGTV er auk þess lóðrétt.

PR er í auknum mæli að færast á samfélagsmiðla

Línan á milli PR og markaðsmála er sífellt að verða óskýrari. PR fer í auknum mæli fram á samfélagsmiðlum og umræðan á sér stað þar. Þess vegna er mikilvægt fyrir PR fólk að vera vel að sér þegar kemur að samfélagsmiðlum og því sem er að gerast þar. Áhrifavaldar hafa enn frekar gert línuna á milli markaðsmála og PR óskýrari.

Gen Z

Undanfarið hefur aðal áherslan í markaðssetningu beinst að aldamótakynslóðinni (e. Millennials) en nú munu fyrirtæki í auknu mæli snúa sér að Z kynslóðinni. Sú kynslóð hefur alist upp við internetið og notkun samfélagsmiðla. Árið 2019 verða elstu einstaklingarnir úr Z kynslóðinni orðnir 23 ára. Þarna er um framtíðar viðskiptavini að ræða og verða fyrirtæki að vera á tánum í að fylgja þeim eftir.

Netverslun færist í auknum mæli yfir á samfélagsmiðla

Um 80% allra virkra netnotenda í heiminum nota samfélagsmiðla og eykst notkun þeirra ár frá ári. Netverslun hefur líka verið að aukast mikið á heimsvísu og munu neytendur versla oftar beint af samfélagsmiðlum. Í stað þess að neytendur flakki á milli vefverslana þá munu vörur og þjónusta sem henta viðkomandi birtast í þeirra veitu (e. Feed) þökk sé vel útfærðri markaðssetningu netverslana.

Leitarorð og SEO

Meira en 90% af allri leit á netinu á sér stað á Google auk þess sem rannsóknir sýna að um 86% neytenda nota netið til að leita eftir vörum og þjónustu. Þess vegna er mikilvægt að fyrirtæki kaupi leitarorð á Google netinu og sjái til þess að vefsíður þeirra komi ofarlega í leitarvélum.

Hlaðvarp (e. Podcasts)
Hlaðvarp hefur færst í aukana síðustu ár og sýna rannsóknir að 44% Bandaríkjamanna hafa hlustað allavega einu sinni á hlaðvarp. Þeir sem hlusta mikið eyða yfir 6,5 klukkustundum á viku að hlusta á það. Ljóst er að hlaðvarp mun færasta í aukana á næstu árum og munu fyrirtæki í auknum mæli nýta sér það, hvort sem það er sem kostun eða að halda úti sínu eigin hlaðvarpi.

--

--