Kapítalismi

Ishmael
13 min readApr 30, 2024

--

If historical experience could teach us anything, it would be that private property is inextricably linked with civilization.

Ludwig von Mises

Í þessum kafla mun ég halda áfram að fjalla um hvernig við hagræðum með tilliti til annarra einstaklinga innan samfélagsins. Á markaðnum stundum viðskipti við hvort annað með því að nota pening sem skiptimiðil, en á markaðnum kaupum við og seljum vörur og þjónustur af ókunnugu fólki sem við þekkjum oftast lítið sem ekkert.

Líkt og ég fór yfir í kafla mínum um virði og viðskipti að þá er allt virðistmat huglægt og stundar fólk því aðeins viðskipti ef báðir aðilar telja að þeir hagnist á þeim. Með hjálp peninga verður okkar markaðsskipan til, þar sem fólk getur sérhæft sig og selt sínar vörur og þjónustur á þann hátt að allir hagnist á því. Þessi markaðsskipan er efnahagsskipan sem við köllum kapítalisma: frjáls markaður á kapítalískum vörum.

Skilgreining kapítalisma er eftirfarandi:
Kerfi þar sem eignarréttur einkaaðila er virtur, þar sem þeir geta keypt og selt þeirra kapítal á frjálsan máta ásamt því að hafa frelsi til þess að ráðstafa því. Þá uppskera þeir sem ráðstafa sínu kapítali á skilvirkan máta og þeir sem ráðstafa því á óskilvirkan máta bera skaða af.

Í dag sjáum við fjölmörg dæmi um það í okkar vestræna heimi hvernig fyrirtæki beita sínu kapítali á skilvirkan máta og hagnast á sínum rekstri, en við sjáum sömuleiðis fjölmörg dæmi um það að fyrirtæki eru einfaldlega of stór til þess að geta borið skaða af (e. too big to fail), þá er tap þeirra kostað af ríkinu og þar af leiðandi borgurum þess, líkt og við sáum mikið af í fjármálahruninu 2008.

Hlutabréfamarkaður sem lakmuspróf

Ef eigendur kapítalsins eru aðeins þeir sem geta og hafa frelsi til þess að ráðstafa því, að þá höfum við kapítalisma. Ef úthlutun kapítals er ákvörðuð af embættismönnum ríkisins sem eiga ekki tiltekið kapítal, að þá höfum við sósíalisma. Mises skilgreindi ákveðið lakmusprófi til að skilgreina hvort tiltekið ríki sé kapítalískt eða sósíalískt; ef fólk hefur frelsi til að fjárfesta sínu eigiðfé í hlutabréfamarkaði landsins, að þá er það ríki kapítalískt, ef ekki, að þá er það sósíalískt.

En hvernig getur slíkt lakmuspróf skilgreint efnahagsstefnu ríkis á svo einfaldan máta? Einfaldlega vegna þess að þá hefur fólk tök á því að stunda viðskipti með kapítal og nýta það sem fjárhagslegar eignir, án þess að þurfa að eiga og viðhalda því beint. Þannig geta allir orðið kapítalistar, með því að nýta sitt eigiðfé og fjárfesta því í fyrirtækjum án þess að þurfa sinna rekstri þeirra að nokkru leiti.

Slíkt gerir okkur kleift úthluta kapítali til þeirra sem nýta það á sem skilvirkastan máta á markaðnum, því líkt og ég fór yfir í kaflanum um kapítal að þá er eina leiðin til þess að eiga og viðhalda því að nýta það á skilvirkan hátt.

Þessar fullyrðingar eiga jafn mikið við þegar við búum við harðan pening, og eru e.t.v. mun sannari en við sjáum í dag þar sem fjármagn er búið til úr engu, því þegar slíkt er gert að þá flýtur það fjármagn inn í þessar kapítalísku fjárfestingar á mjög óáreiðanlegan hátt, þar sem þeir sem hafa aðgang að fjármagninu fyrst, og eru oft bundnir pólitískum upplýsingum, geta þannig stóraukið sín auðæfi með fjárfestingum í fyrirtækjum.

Mikilvægi eignarrétts

Eignarréttur er forsenda þess að við getum átt frjálsan markað á kapítalískum vörum, því eina leiðin fyrir nokkurn aðila til að áætla að hann sé að verja sínu kapítali á réttan eða rangan hátt er að bera fórnarkostnað af ákvörðunum sínum. Ef viðkomandi ber ekki skaða af röngum ákvörðunum, getur sami aðili ekki borið hagnað af réttum ákvörðunum.

Mikilvægt atriði sem ég vil endurtaka úr skrifum mínum um kapítal, er að sama vara getur verið neysluvara og kapítalísk vara; tölva sem þú nýtir til þess að spila tölvuleiki eða vafra um internetið er neysluvara, en sama tölva sem nýtt er til þess að skrifa bækur sem síðar eru seldar, er kapítalísk vara. Það er enginn hvati fyrir eigendur kapítalískra vara að sinna þeim og viðhalda ef engin von er fyrir þá að selja afurð þeirra með hagnaði.

Án möguleikans að beita kapítali í hagnaðarskyni, hverfur sömuleiðis hvatinn fyrir því að safna að sér kapítali og viðhalda því, því ef ekki er hægt að stunda viðskipti með það og afurðum þess í þeirri von um að hagnast, er enginn hvati sem getur tryggt að kapítal sé nýtt á skilvirkan hátt í stað þess að vera einokað af þeim sem misnota það og eyðileggja.

Kapítal er þá ekki bara einhverjar vélar sem rúlla í verksmiðjum sem búa til hluti, það er nær að líkja því við lifandi fyrirbæri, líkt og lífverur í vistkerfinu. Kapítalisma er þannig hægt að skilgreina sem kerfi sem gengur út á stanslausa frumkvöðlastarfsemi, þar sem aðilar kerfisins eru stanslaust að leitast eftir að beita því á sem skilvirkastan máta og hagnast þannig á því. Kapítal utan markaðshagkerfisins er því eins og lífvera í lofttæmi; afturverkunin sem afurð kapítalsins fær þegar neytendur verðmeta það og versla er hægt að líkja við að lífveru sem fær súrefni. Fólk tjáir sitt huglæga virðistmat með sínum fjármunum og veitir þannig kapítalinu líf.

Við getum þá skilgreint hagkerfi heimsins á einfaldan máta:

  • Ef hagkerfi hefur aldrei verið með hlutabréfamarkað → Er hagkerfið forkapítalískt.
  • Ef hagkerfið er með hlutabréfamarkað → Er hagkerfið kapítalísk.
  • Ef hlutabréfamarkaðnum er lokað → Er hagkerfið sósíalískt.

Þegar hlutabréfamarkaði er lokað í tilteknu landi verður það ríki sjálfkrafa sósíalískt, ástæðan er sú að þá er það ekki lengur undir frjálsu fólki á markaðnum komið að ráðstafa eigum sínum heldur bjúrókrötum. Saga flestra ríkja heimsins í dag hefur verið þróun úr forkapítalísku hagkerfi yfir í kapítalískt, en þónokkur ríki hafa þó afnumið hlutabréfamarkaði sína og orðið fyrir vikið sósíalísk.

Rússland opnaði til að mynda hlutabréfamarkað sinn snemma á 18. öld, og starfaði hann þar til hann var afnuminn þegar Bólsévikarnir komust til valda 1917, og var síðar endurvakinn aftur þegar valdatíð þeirra lauk 1991. Sömu sögu má segja af Þjóðverjum, sem hafa átt starfandi hlutabréfamarkaði allt frá 16. öld í Hamburg, Frankfurt og fleiri þýskum borgum. Árið 1815 hóf kauphöllin í Hamburg að kaupa og selja hlutabréf í fyrirtækjum sem gerði ríkið að kapítalísku hagkerfi allt þar til nasistaflokkur Hitlers komst til valda 1933, en þá voru öll fyrirtæki þvinguð til þess að sameinast einokuðu valdi nasista, og var allur ágóði framleiðslunnar ætlaður til að styrkja frekari stríðsrekstur, þar sem fjárfestingar í skuldabréfum og öðrum hlutabréfum voru bannaðar [1]. Svipaða sögu er hægt að segja af Póllandi og fleiri ríkjum.

Frá þessu sjáum við að framgangur siðmenningar er ekkert annað en þegar fólk sparar, lækkar tímaval sitt, safnar að sér kapítali og tekur þátt í verkaskiptingu, því þannig bætir það núverandi lífsgæði sín dag frá degi. Þannig fæðast markaðir, og þar með hlutabréfamarkaðir, sem er gríðarlega háþróað fyrirbæri. Þar gefur fólk öðrum aðilum aðgang að sínu eigiðfé sem eru betri í að verja því í framleiðslu en það sjálft er.

Það sem við sjáum hinsvegar ítrekað gerast er að geðsýrðir fjöldamorðingjar komast til valda, sem banna fólki að eiga og verja sínu kapítali á sem skilvirkastan hátt að þeirra huglæga mati. Þannig brjóta slíkir einstaklingar niður frelsi einstaklinga, og síðar alla siðmenningu samfélagsins.

Margir vilja skilgreina skandinavíulöndin sem sósíalísk ríki, en það er ekki rétt skilgreinining í einföldum skilningi, því ef við skoðum hvernig hlutabréfamarkaðir hafa starfað í þessum löndum að þá eru ríkin mun nær því að vera kapítalísk heldur en sósíalísk: Danmörk hefur haft starfandi hlutabréfamarkað síðan 1808, Svíþjóð síðan 1863, Noregur síðan 1881 og Finland síðan 1912. Það eru vissulega margar aðrar leiðir fyrir ríkið að beita inngripum sínum á markaðnum, og eru öll ríkisinngrip í eðli sínu sósíalísk, þó svo hagkerfið sé áfram kapítalískt.

Kapítalismi er frumkvöðlakerfi, ekki stjórnunarkerfi

Það er mikilvægt að gera grein fyrir þeirri verkaskiptingu sem skapar kapítalískt hagkerfi, sem fyrir vikið lengir ferli fjárfestinga. Það að beita fjárfestingum í framleiðslu er sinnt af þremur ólíkum hlutverkum: það er af kapítalistanum, frumkvöðlinum og framkvæmdastjóranum.

  • Kapítalistinn er sá sem frestar sinni nútíma neyslu á sínu eigiðfé, safnar því upp, og gefur svo til frumkvöðulsins. Allir þeir sem lifa í kapítalísku hagkerfi geta verið kapítalistar, svo lengi sem þeir fresta neyslu síns eigiðfjárs og fjárfesta því.
  • Frumkvöðullinn sér um að taka við eigiðféi kapítalista, og úthlutar því í þau framleiðsluferli sem hann áætlar að sé arðbærust hverju sinni. Þannig tekur hann ákvörðun um hverju þarf að breyta og hverju ekki, hvaða starfsemi lifir og hvaða starfsemi deyr, allt út frá því hvernig hann áætlar ávöxtunarmöguleika hennar.
  • Framkvæmdastjórinn sér um að beyta því eigiðfé sem hann hefur við hendina hverju sinni á sem skilvirkastann hátt í þá framleiðslu sem hann yfirsér.

Þó svo þessi þrjú hlutverki sinni öll mikilvægu hlutverki, og gætu ekki þrifist án hvors annars, að þá spilar frumkvöðullinn án nokkurs vafa mikilvægasta hlutverkið, því hann tekur ákvarðanir um hvaða vörur skal framleiða sem og að ákvarða hvaða framleiðsluferli skulu stækka, minnka, fæðast eða deyja út. Á meðan framkvæmdastjórinn ákvarðar hvernig hann getur best ráðstafað þeim vélum og því vinnuafli sem hann hefur við hendina hverju sinni til að hámarka afköst síns reksturs.

Það er mikill munur á milli hlutverks frumkvöðulsins og stjórnandans, og í ljósi þess að flestir fræðimenn og margir ríkishagfræðingar sem eru lærðir af ríkisfjármögnuðum háskólum, eru engir frumkvöðlar og hafa aldrei stundað neina frumkvöðlastarfsemi, að þá gera þeir sér ekki fulla grein fyrir þessari verkaskiptan. Þeir sjá aðeins ytri birtingarmynd framleiðslunnar, sem er að allri framleiðslu er stjórnað af framkvæmdastjórum og svo unnin af vinnandi fólki, og því er í þeirra augum ekkert því til fyrirstöðu að afnema eignarrétt, fjarlægja frumkvöðulinn og miðstýra allri framleiðslu af ríkisvaldinu.

Án þess að gera þér fulla grein fyrir hlutverki frumkvöðulsins, og hversu háð og órjúfanleg sú starfsemi er frá eignarrétti fólks, að þá sjá þeir ekkert því til fyrirstöðu að skipta kapítalisma út fyrir miðstýrða ríkisstjórnun, m.ö.o. sósíalisma. Fyrsta skrefið í að átta sig á kapítalisma, er að átta sig á hlutverki furmkvöðulsins og hvernig hann ráðstafar eigum annarra í ólík framleiðsluferli, í þeirri von um að auka afköst og arðsemi hennar.

Hagnaður og tap

Það er ógerlegt að framkvæma efnahagslega útreikninga, og að meta kosti og galla fjárfestinga, án þess að eigiðféð sem notað er í þær fjárfestingar sé í eigu fólks sem getur notað það á þá vegu sem því lystir. Þannig er eigiðfénu stýrt í þau framleiðsluferli sem frumkvöðullinn telur þjóna samfélgina hvað best, og er hagnaður eða tap afturverkunin sem segir honum til um hvort honum hafi tekist ætlunarverki sitt eða ekki.

  • Ef framleiðslan skilar af sér meiri tekjum en fer inn í hana, að þá er frumkvöðullinn að færa samfélaginu eitthvað virðisvert.
  • Ef framleiðslan silar af sér minni tekjum en fer inn í hana, að þá er frumkvöðullinn að sóa eigiðfé.

Þegar tekjur framleiðslunnar eru frumkvöðlinum ljósar, metur hann hverju hann þarf að breyta, á þennan hátt verðlaunar kapítalisminn þá sem eru afkastamiklir en refsar þeim sem eru afkastarýrir, og ef það er einhvernvegin temprað við þetta ferli að þá afturverkunarferli kapítalismans eyðilaggt. Öll temprun við þetta ferli skapar fyrir vikið misheppnaða efnahagsskipan sem eyðileggur eigiðfé, frekar enn að búa til meira af því, og skapar fátækt og eymd í stað auðs og velsældar.

Það er ekki hægt að undirstrika það nógu mikið hversu mikilvægur þátt eignarréttur spilar, þar sem velsæld og auður frumkvöðulsins er í húfi ásamt eigiðfé kapítalistanna sem treysta honum fyrir því. Þegar einhver talar fyrir sósíalísma, og afnámun eignarrétts, er sá hin sami aðeins að horfa á ytri verkun hagkerfisins, þ.e. að framkvæmdastjórinn stýrir framleiðslunni og vinnandi fólk sjái um vinnuna, og að hagkerfið blómstri sjálfkrafa upp frá því. Slíku er hægt að líkja við frumbyggja á eyðieyju sem sjá flugvél fljúga yfir sig, þeir síðar telja sér trú um að þeir geti endurbyggt flugvélina með því að binda saman spítur sem lítur út í laginu eins og flugvél.

Vandamál efnahagslegra útreikninga

Margir halda því fram að vandamál miðstýrðs hagkerfis felist í skorti á hvötum, þ.e. að engin muni vilja vinna erfiðisvinnuna, engin mun vilja taka ruslið eða hreinsa skólpið, eða að engin mun vilja ganga í gegnum erfiðisnám til að verða heilaskurðlæknir ef lífskjör allra eru jöfn. Þó svo það séu góð og gild rök að þá er það ekki þátturinn sem fellir sósíalismann, heldur eru það efnahagslegir útreikningar.

Eitt helsta framlag Mises til hagfræðinnar var að gera grein fyrir þessu vandamáli, og sagði hann að þó svo stjórnendum sósíalískra ríkja tækist að halda fullkomnum hvata hjá þeirra þegnum, þar sem allir myndu vilja það besta fyrir hvorn annan og allir voru sáttir með það eitt að hafa þak yfir höfði sér og fá að borða, að þá væri vandamálið samt það hvernig þeir sem stjórnuðu ættu að stýra framleiðslunni.

Hvernig myndu sósíalískir stjórnendur vita hvað ætti að framleiða á öllum stigum framleiðslunnar, hversu mikið ætti að framleiða, hvaða tækniframfarir ætti að vinna að og hverju ætti að breyta, hvaða hrávörur ætti að nota, hvernig ættu þeir að meta kostnaðinn og hvaða hlutir framleiðslunnar væru skilvirkir og hverjir ekki?

Það er við hæfi að vitna hér í Rothbard:

Mises demonstrated that, in any economy more complex than the Crusoe or primitive family level, the socialist planning board would simply not know what to do, or how to answer any of these vital questions. Developing the momentous concept of calculation, Mises pointed out that the planning board could not answer these questions because socialism would lack the indispensable tool that private entrepreneurs use to appraise and calculate: the existence of a market in the means of production, a market that brings about money prices based on genuine profit-seeking exchanges by private owners of these means of production. Since the very essence of socialism is collective ownership of the means of production, the planning board would not be able to plan, or to make any sort of rational economic decisions. Its decisions would necessarily be completely arbitrary and chaotic, and therefore the existence of a socialist planned economy is literally “impossible.”

Mises concludes that, in the socialist economy “in place of the economy of the ‘anarchic’ method of production, recourse will be had to the senseless output of an absurd apparatus. The wheels will turn, but will run to no effect. [2]

Sósíalistar endurmótuðu sína aðferðarfræði eftir gagnrýni Mises, þar sem þeir réðu framkvæmdarstjóra til að ákvarða vöruverð, með því að taka mið af viðbrögðum kaupenda og læra þannig af mistökum sínum til að finna viðeigandi verð á sama hátt og kapítalistar gera. Þar sem þeir lækkuðu verð þegar offramboð myndaðist og hækkuðu verð við vöruskort. Það auðvitað virkaði ekki því þessir framkvæmdarstjórar voru ekki frumkvöðlar, sökum skorts á eignarrétti gátu þeir ekki reiknað út hagnað eða tap ólíkra framleiðsluferla.

Það skiptir í raun ekki máli á hversu stórum skala miðstýring á sér stað, hún mun alltaf vera síðri og verr til gerð heldur en sú sem er í einkaeigu. Við getum tekið sem dæmi orkuframleiðslu okkar Íslendinga, en fyrir stuttu síðan koma þáverandi forsætisráðherra, og núverandi forsetaframbjóðandi, Katrín Jakobsdóttir fram með þá fullyrðingu að rafmyntagröftur samrýmdist ekki umhverfisstefnu landsins. Þar hafði hún orð á því að raforka landsins væri verðmæt og ætti að vera notuð í uppbyggilegri verkefni en rafmyntagröft, og nefndi hún þá kornrækt sem dæmi um gott og uppbyggilegt verkefni. [3]

Þessi nálgun Katrínar er í eðli sínu mjög sósíalísk og skortir hagfræðilegan skilning, því hámörkuð arðsemi orkufyrirtækja er hagur þjóðarinnar, og getur hvert fyrirtæki aðeins borið ábyrgð á sinni arðsemi með því að beita sínu kapítali í að hámarka hana. Orkuframleiðendur bera þannig enga hagsmuni til tómataframleiðanda eða álvera, þeirra hagur er að tryggja áreiðanlega sölu á raforku sem rafmyntagröftur hjálpar til að mynda við.

Án eignarrétts, fórnarkostnaðar, og raunverulegra afleiðinga, geta sósíalískir þykjustumarkaðir aldrei endurspeglað það sem gerist í raunheimi. Eins og Mises orðaði það:

What these neosocialists suggest is really paradoxical. They want to abolish private control of the means of production, market exchange, market prices, and competition. But at the same time they want to organize the socialist utopia in such a way that people could act as if these things were still present. They want people to play market as children play war, railroad, or school. They do not comprehend how such childish play differs from the real thing it tries to imitate. [4]

Sama gamla tugga austurríska skólans

Það er nokkuð ljóst í dag að sósíalismi virkaði ekki eins og hann átti að gera, þar sem ríkið átti alla framleiðslu og afurðir hennar, sem það úthlutaði svo til fólks, en allir eru búnir að ná því og afhverju hætta austurrísku hagfræðingarnir ekki að tala um þetta?

Ástæðan er sú að ríkið stendur ennþá í mikilli miðstýringu á okkar hagkerfum, þessvegna hætta austurrísku hagfræðingarnir ekki að tala um þetta. Þetta snýst ekki lengur um Karl Marx eða Oscar Lang, og þótt við gerum grín af þeirra skoðunum, þó svo afleiðingar þeirra hugmyndafræði hafi verið mikið blóðbað, að þá er staðreyndin því miður sú að hugmyndafræði margra ríkishagfræðinga er mótuð af svipuðum skoðunum, að miðstýrt ríkisvald geti framkvæmt áreiðanlega efnahagsútreikninga. Slíkt er innihald flestra hagfræðibóka sem kenndar eru við okkar háskóla í dag.

Dæmi um slíkar bækur eru Economics eftir Paul A. Samuelson, og Economics eftir McConnel, Brue og Flynn, en þær hafa verið kenndar milljónum manna og kennir þeirra efni að miðstýrt ríkisvald geti bætt hagkerfið í heild sinni. Samuelson hélt því meðal annars ítrekað framm að sovíeska hagkerfið væri betra en það bandaríska og að ekki liði að löngu þar til það yrði farsælla [5]. Það er auðvelt að hlægja af þessum fullyrðingum Samuelson og að kalla hann hálfvita, en það eitt að vera hálfviti er augljóslega engin forvörn fyrir því að geta valdið stórum samfélagslegum skaða.

Mikið af fólki, og þá sérstaklega háskólamentuðu fólki, telur í alvörunni að ástæða þess að við miðstýrum ekki okkar hagkerfi meira er einfaldlega vegna þess að það fer gegn frelsi okkar, og telja margir að það sé í lagi að skerða einstaklingsfrelsi til þess að ná betra og heilsteyptara samfélagi, og það að berjast fyrir og virða eignarrétt sé aðeins heftandi hraðahindrun í leið að bættu lífi.

En það er mikilvægt að við áttum okkur á því og gerum skýra grein fyrir því hvernig fólk almennt kemst að þessari niðurstöðu. Í einföldum skilningi að þá gera öll efnahagslíkön ráð fyrir því að hagkerfi okkar séu í jafnvægi, þ.e. að allt sé stöðugt og allar gjörðir okkar séu gerðar í þeim tilgangi að finna jafnvægi á markaðnum. En vandamálið er að þessi líkön geta ekki endurspeglað raunheim, hagkerfið hegðar sér ekki eftir því sem prófessorar eða hagfræðingar skilgreina og vilja, frekar en að fótboltaleikir þróast ekki og spilast eftir fyrirfram skilgreindum formúlum. Þessi líkön geta ekki spáð fyrir og gómað líf og hegðunarmynstur fólks, markaðurinn er síbreytilegur og fylgir aldrei neinu fyrifram skilgreindu formi.

Ef frumkvöðull ákvarðar að beita eigiðfé í þá framleiðslu að skapa flugvél að þá allt í einu eru flugvélar orðnar að skilvirkum flutningsleiðum, eða þegar internetið er fundið upp og fólk getur unnið heiman að frá sér. Slíkum þáttum er ekki hægt að spá fyrir um, þeir munu halda áfram að gerast og þeir munu alltaf koma ójafnvægi á hagkerfi okkar. Þetta markaðsjafnvægi, sem sósíalistar trúa svona sterkt á, hundsar algjörlega hlutverk frumkvöðulsins, sem sósíalistar telja sér trú um að miðstýrðir framkvæmdarstjórar geti leyst.

Frumkvöðlastarfsemi hagkerfisins eykur afköst okkar með því að beita eigiðfé á sem skilvirkastan hátt, það hvetur fólk til frekari sparnaðar og að lækka okkar tímaval, slíkt eykur laun okkar og ávöxtunarmöguleika. Kapítalistar bera með sér fórnarkostnað, því þeir geta aukið við sitt eigiðfé en þeir geta líka tapað því. Kapítalismi hjálpar vinnandi fólki að auka afköst sín, hann hjálpaði okkur úr fátækt og bætti lífsgæði okkar allra, hann hvetur okkur til friðsælla viðskipta og friðsællar samvinnu innan samfélagsins.

--

--