Peningur

Ishmael
18 min readFeb 14, 2024

--

The services money renders are conditioned by the height of its purchasing power. Nobody wants to have in his cash holding a definite number of pieces of money or a definite weight of money; he wants to keep a cash holding of a definite amount of purchasing power. As the operation of the market tends to determine the final state of money’s purchasing power at a height at which the supply of and the demand for money coincide, there can never be an excess or a deficiency of money.

- Ludwig von Mises

Áður en við skilgreinum nánar hvað peningur er og hvaða tilgangi hann þjónar er nauðsynlegt að skilja fyrst hversvegna tiltekin tækni verður til, og er þá mikilvægt að gera sér grein fyrir hvaða vandamál sú tækni leysir.

Ég vil því byrja þennan kafla á að útskýra hvaða vandamál peningur leysir og hvernig hann verður til í okkar samfélagi, en í síðasta kafla um viðskipti ræddum við hversu ábótasöm þau eru og hvernig þau stórauka afköst okkar með tilkomu verkaskiptingar og sérhæfingar, en hinsvegar vex tiltekið vandamál í veldisvexti meðfram aukinnar framleiðslu og sérhæfingar, og er það vandamál víxllangana (e. coincidence of wants).

En hvað er vandamál víxllangana? Þegar þú vilt stunda viðskipti við einhvern tiltekin aðila og hann á eitthvað sem þig langar í, en þú hefur ekkert fram að færa sem honum langar í að þá fæðist hið svokallaða vandamál víxllangana. Ef Crusoe á mikið af fisk og langar í kanínur hjá Friday, en Friday hefur engan áhuga á að fá fisk að þá er Crusoe kominn í vanda, Crusoe þarf þá að verða sér úti um eitthvað sem Friday langar í svo hann geti fengið af honum kanínur.

Í litlum og einangruðum samfélögum er aðeins takmarkað magn af vörum sem fólk þarf, notar og getur framleitt, því eru vöruskipti einu viðskiptin sem slík samfélög krefjast. Í nánum vina- og fjölskyldutengslum getur fólk stundað vöruskipti í formi skulda; ef Friday gefur Crusoe kanínu í dag getur hann treyst á að Crusoe muni gefa sér fisk á morgun.

En eftir því sem samfélag mannsins stækkar eykst verkaskipting til muna sem eykur fjölda vara og þjónusta sem eru í boði, þá verða vöruskipti og skuldir milli einstaklinga ósjálfbærara sökum vandamáls víxllangana og skorts á trausti milli einstaklinga.

Lausnin á þessum vanda eru óbein vöruskipti, þar sem fólk skiptir vörunni sem það vill selja fyrir aðra vöru sem þau gefa svo hinum aðilanum í skiptum fyrir vöruna sem þeim lengar í. Sú vara vara sem gegnir þessu hlutverki er þá ekki bein neysluvara og er hún aðeins notuð fyrir þetta eina hlutverk að vera skiptimiðill (e. medium of exchange), eða öllu heldur gjaldmiðill eða peningur.

Almenn skynsemi knýr okkur til þess að nota skiptimiðla, og gegna sumar vörur því hlutverki betur en aðrar. Sem dæmi ef Friday vill fá appelsínur í skiptum fyrir sínar kanínur en Crusoe á aðeins fisk, þarf hann að finna annan aðila sem á appelsínur og er tilbúinn að skipta á þeim fyrir fisk sinn svo hann geti fengið kanínurnar sem Friday á. Appelsínur gegna í því tilfelli hlutverki skiptimiðils, en það sem gerir vöru að góðum skiptimiðli er seljanleiki hennar, en seljanleiki er sá eiginleiki að auðvelt sé að skipta tiltekinni vöru (eða öllu heldur selja) fyrir aðrar vörur.

Seljanleiki og handbærni

Sem dæmi er dollarinn óumdeilanlega seljanlegasti gjaldmiðillinn í heiminum í dag, þú þarft sjaldan að skipta honum út fyrir annan skiptimiðil til þess að geta notað hann í viðskiptum. Annar stór skiptimiðill sem er notaður á stærri mælikvarða eru bandarísk ríkisskuldabréf, sem eru sömuleiðis mjög seljanleg. Ríkissjóðir, stórar stofnanir og stórfyrirtæki sem velta háum fjárhæðum eru flestar með einhvern skerð af bandarískum ríkisskuldabréfum sem hlut af sínu eignarsafni, sökum hás seljanleika þeirra halda þau verðmætum sínum nokkuð tryggt í samanburði við önnur skuldabréf og aðra gjaldmiðla. Dæmi um vöru sem hafa lágan seljanleika en halda verðmætum sínum vel eru fasteignir, á meðan vörur sem hafa lágan seljanleika en halda verðmætum sínum ekki eins vel eru neysluvörur á borði við bíla, þvottavélar og píanó.

Þegar við tölum um að vara hafi háan seljanleika, að þá er álag (e. bid-ask spread) vörunnar lágt. Sem dæmi eru fasteignir ekki mjög seljanlegar því erfitt er að finna réttan kaupanda sem tilbúinn er að kaupa þína eign á uppsettu verði og er því álag hennar hátt, á hinn boginn er gull mjög seljanlegt og er því álag þess lágt því markaðurinn fyrir gull er mjög handbær og selst gull þar með á fljótan og auðveldan máta og sjaldnast undir 10% af markaðsvirði.

En hvernig skiptir handbærni (e. liquidity) máli? Ef við tökum einfalt dæmi um bæjarfélag sem þú býrð í sem samanstendur af 1000 fasteignum, til einföldunar getum við gert ráð fyrir að öll húsin séu eins og jafn vel staðsett. Í þessum bæ eru aðeins 5 fasteignir á söluskrá og ef þú hyggst setja þína fasteign á markað að þá dregur það úr jaðarnýtni þeirra fasteigna sem fyrir eru á söluskrá, því það eykur við núverandi framboð fasteigna á sölu og dregur þar af leiðandi úr líkum þess að hinar fasteigninar séu seldar. Þannig eftir því sem fleiri fasteignir fara á sölu, því meira eykst framboð fasteignanna samhliða óbreyttri (oftast minnkandi) eftirspurn. Þetta sjáum við gerast þegar bæjarfélögum stafar hætta af náttúruhamförum, eitrun eða vaxandi glæpatíðni. Eftir því sem fleiri fasteignir fara á sölu, því erfiðara verður að biðja um uppsett verð á fasteigninni þinni sem leiðir af sér að heildar markaðsvirði fasteignanna lækkar, sem gerir fasteignir fyrir vikið að óhandbærum eignarflokki.

Eftir því sem vara verður seljanlegri sækist fólk meira í að eiga þá vöru í auknu magni. Sem dæmi er handbærni bandarískra ríkisskuldabréfa um $26 billjónir (e. $26 trillion), og sækjast því seðlabankar, ríkissjóðir og fjárfestar eftir að eiga slík skuldabréf í auknum mæli fyrir vikið, því ef stór ríkissjóður hyggst selja háar fjárhæðir af slíkum bréfum er það eins og dropi í hafið. Sem dæmi ef íslenski ríkissjóðurinn myndi selja bandarísk ríkisskuldabréf fyrir 1,000 milljarða ISK (u.þ.b. $7.3 milljarðar á núvirði) að þá væri það aðeins 0.028% af heildar markaðsvirði þeirra bréfa.

Eftir því sem vara verður seljanlegri leiðir hún fólk til þess að vilja halda henni í auknum mæli, sem eykur enn frekar við seljanleika hennar og skapar þannig seljanlegustu vöruna á markaðnum: pening. Þar með verður vara seljanlegri eftir því sem rýrnun jaðarnýtni hennar minkar.

Mynd 1. Einfalt dæmi um minkandi jaðarnýtni ólíkra vörutegunda

Á mynd 1 sjáum við dæmi um hvernig tiltekinn aðili metur (huglægt) virði ákveðinna vörutegunda og hvernig jaðarnýtni þeirra rýrnar. Í þessu dæmi er nýtni fyrsta eplisins sem þú kaupir 100 krónur, en fer ört lækkandi þangað til að þú ert ekki tilbúinn að greiða fyrir 6. eplið, svipað gildir fyrir appelsínurnar og banana, rýrnun jaðarnýtni ávaxtanna fer því mjög ört dvínandi sem gerir þá ekki svo seljanlega. Hinsvegar sjáum við hvernig jaðarnýtni peningsins rýrnar talsvert hægar, sem gerir hann fyrir vikið seljanlegri, því fyrsta eining peningsins sem þú eyðir metur þú að sama notagildi og verðmætasta ávaxtarins í þínum huga, næstu einingu meturðu svo að sama notagildi og það næst verðmætasta sem þú getur keypt; appelsínunnar, og þannig koll af kolli.

Á þennan máta sjáum við hvernig við metum minkandi jaðarnýtni penings okkar í samanburði við aðrar vörutegundir og hversu mikilvægt það er að fresta neyslu okkar til þess að hámarka nýtni peningsins hverju sinni.

Ólíkar víxllanganir

Þó svo seljanleiki einn og sér spili stóran þátt í að leysa vandamál víxllanganna að þá skiptir sá eiginleiki helst máli fyrir vöruskipti sem eiga sér stað í einangruðu samfélagi á gefnum tímapunkti, en vandamálin eru fleiri sem peningur þarf að leysa.

Mynd 2. Ólík vandamál víxllangana

Á mynd 2 sjáum við hvaða eiginleikar góður peningur þarf að uppfylla til þess að leysa ólík vanamál víxllangana, en einn þátt vantar á myndina sem peningur þarf alltaf að uppfylla og er sá eiginleiki þekkjanleiki.

Þekkjanleiki: Það að peningur sé þekkjanlegur þýðir að auðvelt sé að bera kennsl á hann og sannreyna að hann sé sú vara sem hann segist vera, sem dæmi eru krónur, evrur og dollari þekkjanlegir peningar, sem nokkuð auðvelt er en ólöglegt að falsa. Gull er t.d. ekki auðþekkjanlegt, og þekkist svindl vel á gullmarkaðnum þar sem gullhúðað tungsten er oft selt á raunvirði gulls.

Seljanleiki: Ég hef nú þegar rætt seljanleika nokkuð ítarlega, en í dæminu að ofan þarf peningalegi eiginleikinn að vera sá að því fleiri sem samþykkja peninginn því seljanlegri verður hann og því færri vöruskipti þarf að stunda til að geta stundað viðskipti. Sem dæmi förum við ekki með íslenskar krónur til Asíu og verslum fyrir þær þar, heldur þurfum við að skipta þeim í gjaldmiðil sem tiltekið Asíuland tekur á móti, en oftast er þó tekið á móti dollurum.

Færanleiki: Þegar peningur er færanlegur er auðvelt að ferja hann á milli staða og landa. Sem dæmi var gull ekki mjög færanlegt, þó það uppfyllti marga aðra mikilvæga eiginleika penings, sökum þess hve þungt það er og erfitt að ferðast með í miklu magni.

Deilanleiki og einsleitni: Þegar peningur er deilanlegur þýðir það að hægt sé að skipta honum niður í smærri einingar, sem dæmi eru fasteignir ekki deilanlegar því þú getur ekki skipt fasteign niður í smærri einingar og borgað með þeim úti í búð. Gull er t.d. deilanlegt og einsleitt því það er hægt að deila gullstöng niður í margar smærri einsleitar einingar, þó svo það sé orkufrekt verk.

Ending: Það að peningur endist er nauðsynlegt svo hægt sé að spara til framtíðar, því eru t.d. ávextir slæmur peningur því þeir rotna fljótt og væri það ógerlegt að safna þeim upp og spara fyrir kaup á fasteign. Gull t.d. endist mjög vel, það ryðgar ekki eða skemmist á nokkurn máta.

Sjaldgæfni: Óumdeilanlega mikilvægasti þátturinn ásamt endingu, því ef peningur er ekki sjaldgæfur og hægt er að búa hann til á ódýran hátt að þá heldur hann aldrei virði sínu í samanburði við aðrar sjaldgæfari vörur. Án sjaldgæfni í peningnum er erfitt að spara og safna sér upp fyrir t.d. fasteign.

Með því að skoða þessa þætti að þá sjáum við hvernig gull og aðrir sjaldgæfir málmar gegndu hlutverki penings svona lengi; gull var seljanlegt, þekkjanlegt (áður en tæknin auðveldaði að falsa það), endingargott og sjaldgæft en skorti það að vera færanlegt, og þegar maðurinn hóf að auka sín alþjóðaviðskipti að þá reyndist það vera stór flöskuháls gullsins. Það hjálpar okkur því að skilja hversvegna valdboðsgjaldmiðlar (e. fiat currency) fæddust, en upphaflega voru þeir ekkert annað en ávísanir á tiltekna inneign af gulli, sem gerði það fyrir vikið að færanlegum pening. En sú óumflýjanlega afleiðing þess að gera gullið að færanlegum pening með pappírsávísunum varð fyrir vikið að miðstýrðum pening sem auðvelt var að spilla.

Til lengri tíma litið er þó mikilvægasti þáttur penings sá að ferja kaupmátt sinn inn í framtíðina, og leysa þar með vandamál víxllangana þvert yfir tíma, og eru því endingargóðir málmar seljanlegri en þeir sem rýrna og ryðga. Það skiptir þá öllu máli að ekki sé auðvelt að auka við núverandi byrgðarstöðu peningsins, og hafa endingabestu málmarnir því gríðarstóra birgðarstöðu, þar af leiðandi hefur árlegt innflæði lítil áhrif á heildar birgðarstöðuna sem gerir hana fyrir vikið hér um bil ónæma fyrir verðbólgu í kerfinu.

Með þessu móti fæðist orðið harka, eða öllu heldur harður peningur (e. hard money), þar sem það er mjög erfitt (e. hard) eða ógerlegt að auka við núverandi handbæra birgðarstöðu peningsins. Við skilgreinum því svokallað birgðar-flæðis hlutfall (e. stock-to-flow ratio), sem heildarstærð núvernadi birgðarstöðu deilt með árlegri framleiðslu peningsins, og er það mjög öflug leið til þess að skilja hvers vegna tiltekin markaðsvara peningavæðist.

Sömleiðis er það kostur að tiltekin markaðsvara sé ekki neytanleg í margt annað en að þjóna tilgangi penings. Því geyma fáir miklar birgðir af kopar, nikkel, járni eða öðrum samskonar málmum, því þessir málmar eru keyptir og framleiddir til þessa að neyta þeirra, og er því handbær birgðarstaða slíkra málma aldrei mikið meiri en árleg neysla þeirra, sem gerir birgðar-flæðis hlutfall þeirra lágt fyrir vikið. Slíkir málmar eru því viðkvæmir fyrir framboðsrykk: ef eftirspurn eftir þeim eykst að þá eykst sömuleiðis framboðið með aukinni framleiðslu, því við framleiðum þessa málma á nokkuð einfaldan máta. Fyrir vikið eru málmar með lágt birgðar-flæðis hlutfall lélegir peningar.

Ólíkt form eftirspurna

Málmar, sem og aðrar vörur, geta þjónað tvennskonar eftirspurn, peningatengdir eða neyslutengdri, og um leið og tiltekinn málmur er notaður til neyslu, þ.m.t. framleiðslu, þjónar hann aðeins því hlutverki og hverfur því samtímis úr hans handbæru birgðarstöðu því um leið og málmur er notaður í raftæki eða annarskonar iðnað verður hann að neysluvöru. Hinsvegar þegar málmur svarar peningatengdri eftirspurn er hann aðeins notaður í þeim tilgangi að skipta á honum fyrir aðrar vörur og varðveita kaupmátt, og hverfur hann þar af leiðandi ekki úr sinni handbæru birgarstöðu. Því fleiri sem kjósa að safna að sér tilteknum málmi í þeim tilgangi að skipta á honum fyrir aðrar vörur eykur það handbæra birgðarstöðu málmsins og sömuleiðis peningalega eftirspurn hans, sem eykur verðgildi hans fyrir vikið.

Mynd 3. Birgðar-flæðis hlutfall tiltekinna málma.

Á mynd 3 sjáum við hvað aðgreinir peningalega málma (gull) frá iðntengdum málmum, og skiptir þar öllu máli hve stór birgðarstaða gulls er í samanburði við það sem flæðir inn í hana á hverju ári, fólk sömuleiðis kaupir ekki gull í miklu magni til þess að neyta og nota í iðnað, fólk kaupir gull fyrir peningalegu eiginleikana sem gull hefur; hátt birgðar-flæðis hlutfall. Málmar sem hinsvegar eru notaðir einungis í iðnað hafa lága birgðarstöðu í samanburði við það sem flæðir inn í hana hverju ári, og situr fólk því ekki á slíkum málmum í miklu magni heldur notar þá til framleiðslu vegna þess hve vel þeir þjóna því hlutverki, slíkir málmar hafa lágt birgðar-flæðis hlutfall.

Ef lög yrðu sett um það að kopar yrði gerður að pening að þá myndum við falla í svokallaða lina peningagildru (e. easy money trap), þar sem þeir sem framleiða og flæða kopar inn á markaðinn stórgræða á þeim sem nota kopar sem pening, því þeir sem ekki framleiða kopar eru einfaldlega að gefa koparframleiðendum auðæfi sín. Þannig ef þú setur auðæfi þín í linan pening munu þeir sem geta framleitt lina peninginn taka auðæfi þín af þér.

Ef við skoðum nánar birgðar-flæðis hlutfall kopars, að þá er það hlutfall undir einum, sem segir okkur að það er framleitt meira af kopar á hverju ári en handbær birgðarstaða hans er. Fyrir gull hinsvegar, er hlutfallið um 60, sem segir okkur að fyrir hvert kíló sem framleitt er á hverju ári eru um 60 kíló til staðar í núverandi birgðarstöðu. Fyrir silfur er hlutfallið 4 en áður fyrr var hlutfallið mun hærra, en eftir að notagildi silfurs jókst í iðnaði lækkaði peningalegt notagildi þess samtímis. Bitcoin hefur sem stendir birgðar-flæðis hlutfallið nálægt 60, og er því hér um bil jafn hart og gull, en eftir næstu helmingun (í Apríl 2024) mun hlutfall þess nálgast 120 og gera það fyrir vikið að hörðustu eign sem völ er á. Svo lokst árið 2140 mun hlutfallið standa í óendanlegu, því ekki verður bætt frekar við birgðarstöðu Bitcoin eftir það.

Því meira sem tiltekinn málmur er notaður í iðnað, því meira eykst hvatinn fyrir því að grafa eftir honum og því hraðar lækkar birgðarstaða hans, þannig ef eftirspurn eftir gulli eykst í iðnað mun það drýgja birgðarstöðu þess hratt og mun gull tapa verðmæti sínu ört því handbær birgðarstaða gulls mun minka til muna. Því er mjög mikilvægt að þegar við leitumst eftir að finna góðan pening að sá peningur gegni sem fæstum hlutverkum öðrum en að vera góður peningur, því það er eina hlutverkið sem við viljum að peningurinn gegni.

Mynd 4. Hlutfallslegt verðgildi gulls á móti silfri.

Silfur gegndi því hlutverki hér áður fyrr að vera notað í smærri daglegum viðskiptum, en þegar Þýskaland færði sig yfir á gullfótinn eftir að þeir unnu Franco-Prussian stríðið árið 1871, hófu þeir að gefa út pappírsávísanir á gull og gerðu með því gull að auðfæranlegum og deilanlegum pening sem útrýmdi þörfinni fyrir silfur í slíkum viðskiptum, slíkt leiddi af sér að heimurinn var kominn yfir á gullfótinn í lok 19. aldar.

Peningur sem samfélagssáttmáli

Við sem samfélag getum ákvarðað hvað við notum sem pening og skilgreint hvaða vara gegnir því hlutverki, en raunveruleikinn er sá að frjáls markaðspeningur er enginn samfélagssáttmáli. Vara verður ekki að pening bara afþví að við ákveðum það í sameiningu hvað á gegna því hlutverki, því er peningur ekki einhver sameiginleg ofskynjun. Þeir sem halda því fram ýmist skilja ekki hvernig vara peningavæðist eða eru Marxistar.

Í bók sinni Saipiens telur Yuval Harari lesendum sínum trú um að peningur sé saga sem við segjum hvort öðru, það er jafn glórulaust og að segja að flugvélar séu saga sem við segjum hvort öðru. Við teljum ekki hvort öðru trú um að bananar séu góðar flugvélar, því ef einhver sest á banana og hoppar framm af húsþaki í þeirri von um að geta flogið að þá munu lögmál náttúrunnar refsa honum fyrir. Manninum tókst að fljúga á skilvirkan hátt með því að beita rökhugsun og kapítali samhliða tækniþróun, ekki vegna einhvers samfélagssáttmála. Það sama gildir um pening, um leið og þú skilur hvernig peningur virkar að þá skilurðu að hann er ekki saga sem við segjum hvort öðru, hann er ekki samfélagssáttmáli og hann er ekki einhver sameiginleg ofskynjun.

Það er því mikilvægt að átta sig á því hvaða vandamál peningur leysir; vandamál víxllangana þvert yfir vörur, rúm, skala og tíma, og mun sá peningur sem leysir þau vandamál hvað best og er samtímis erfiðast að búa til verða peningurinn sem heldur virði sínu hvað best. Þó svo fasteignir, hlutabréf og skuldabréf virðast vera eignirnar sem halda verðmætum sínum hvað best, að þá halda þau tæplegast virði sínu í samanburði við aukið peningamagn sem er í umferð, því hækka slíkar eignir oftast í verði sökum þess eins.

Fólk þarf ekki að skilja þessa hluti til þess að átta sig á hvað er góður peningur, fólk þarf ekki að skilja vandamál víxllanganna, eða hvernig birgðar-flæðis hlutfall virkar, fólk mun átta sig á því hvaða vara heldur og eykur kaupmátt sinn í samanburði við aðra vöruflokka, og mun fólk þannig leitast í auknum mæli í að halda og nota þá vöru sem pening.

Fasteignir gegna stóru og veigamiklu hlutverki hjá fólki í dag til að viðhalda þeirra kaupmætti, einfaldlega sökum þess að það er gríðarlega orku- og tímafrekt að búa þær til, sem og það er mjög kostnaðarsamt. Að halda því fram að ástæða þess að fasteignir hækka í verði vegna notagildi þeirra er að vissu leiti rétt en á sama tíma mjög rangt. Fasteignir hækka aðeins í verði vegna þess að þær hafa umtalsvert hærra birgðar-flæðis hlutfall í samanburði við okkar pening, því flýja margir með auðæfi sín inn í fasteignirnar sökum þess að þær varðveita kaupmátt og fylgja nokkuð vel því hvernig peningamagn í umferð eykst.

Því er sú keyníska kenning að peningamagn í umferð þurfi stanslaust að vaxa gjörsamlega fáránleg og sköpuð af þeim sem vilja réttlæta aukna eyðslu ríkisins og rökstyðja hallarekstur þess, því ef einhver getur búið til pening úr engu er hann alltaf að drýgja kaupmátt annars fólks sem skilar sér í verðhækkunum á öðrum vörum, sem gefur okkur verðbólgu fyrir vikið. Saga mannsins hefur ítrekað sýnt það að peningaþróunin hefur verið sú að finna þá vöru sem erfiðast er að framleiða, og hefur það ítrekað gerst að þau samfélög sem notað hafa linan pening hafa alltaf fallið í kramið á samfélögum sem geta komið inn og framleitt þeirra pening á einfaldan hátt. Slíkt hefur átt sér stað með perlur, baunir, salt, steina, skeljar og margt fleira.

Afhverju aðeins einn gjaldmiðill?

Eftir því sem seljanleiki penings eykst leitast fólk eftir að nota hann og varðveita kaupmátt sinn með, því handbærari sem tiltekinn peningur verður því meira finnum við okkur knúim til þess að nota hann fram yfir aðrar vörur, sem sýndi sig í lok 19. aldar þegar heimurinn var kominn á gullfótinn. Í dag hinsvegar sjáum við þörf fyrir ólíkum ríkisstjórnarpappírum sem eiga að gegna hlutverki penings en slíkir peningar eru í raun ekkert annað en handbærasti ríkisstjórnarpappír heimsins (dollarinn) að viðbættri ríkisáhættu, því öll lönd halda á miklu magni bandarískra ríkisskuldabréfa sem part af gjaldeyrisforða sínum. En eftir því sem við tæknivæðumst frekar og leitumst eftir en frekari viðskiptum við umheiminn eykst þörfin samtímis fyrir einum gjaldmiðli sem hægt er að nota á tryggan hátt yfir internetið, og mun sá peningur sem sigrar þá samkeppni verða næsta varasjóðsmynt heimsins (e. global reserve currency).

Peningur og ríkisvaldið

Austurríski skólinn aðskilur sig frá öðrum skólum hagfræðinnar í sinni skilgreiningu á pening og hvernig hann peningavæðist, en austurríska kenningin er sú að peningur er vara sem verður til og valin á markaðnum. Allir aðrir hagfræðingar sem byggja rök sín á ríkisfjármögnuðum skólum hagfræðinnar, kenna að þörf sé fyrir ríkisbákni til þess að peningur geti virkað. Austurríski skólinn hefur ítrekað þetta alla tíð, að peningur er afurð markaðsins en ekki afurð þess sem ríkið segir þér að nota og refsar þér með ofbeldi ef þú kýst annað. Fólk þróar pening með sér á sama hátt og það þróa með sér hugtakið um vinnu, eignir, kapítal og allar þær vörur sem við þekkjum. Þá er gott að vitna í orð Carl Menger, einn af hugmyndasmiðum Austurríska skólans, og hvernig hann túlkaði pening:

Money is not an invention of the state. It is not the product of a legislative act. Even the sanction of political authority is not necessary for its existence. Certain commodities came to be money quite naturally, as the result of economic relationships that were independent of the power of the state. [1]

Okkar nútíma valdboðsgjaldmiðlar eru fyrsta tegund penings sem ekki fæðist á markaðnum. Gull sem dæmi varð peningur löngu áður en ríkisvaldið fæddist, og datt engu ríki það í hug að geta framleitt pening sér að kostnaðarlausu og símtímis vera samþykkt af fólki á markaðnum. Því útbjuggu fornríki til skyldinga sem voru gerðir úr gulli, en smám saman minkuðu þau magnið af gulli í hverjum pening, eða gullhúðuðu aðra ósjaldgæfari málma sem leiddi af sér verðbólgu innan þess ríkis sem svo á endanum féll.

Okkar nútíma valdboðsgjaldmiðlar voru því í upphafi ávísanir á gull, en mörg ríki evrópu fóru af gullfætinum ýmist í fyrra stríði eða á milli stríðsáranna, en samþykktu svo öll á endanum að gera dollarann að varasjóðsmynt heimsins eftir seinna stríð í Bretton Woods. Dollarinn var þá handbærasti gjaldmiðill heims og var enn fastur við gull. Þetta gaf bandaríska ríkinu mikil völd þar sem þau sönkuðu að sér gulli í skiptum fyrir dollara þar til 1971, þegar Nixon ákvað þá að afnema gullfótinn eftir að mun fleiri ávísanir höfðu verið gefnar út en innistæður þeirra voru í gulli. Slíkt leiddi af sér mikla verðbólgu víðast hvar um allan heim á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

Virði penings

Líkt og ég talaði um í síðasta kafla um viðskipti, að þá stórauka þau afköst okkar og hvetja okkur til friðsælla samskipta og að virða eignarrétt hvors annars og eykur peningur okkar skilvirkni í að stunda viðskipti. Sem dæmi, ef peningur væri ekki til og við myndum aðeins stunda vöruskipti innan samfélags sem samanstendur af 100 vörum að þá hefðum við 4.450 ólík vöruverð, en með því að nota pening höfum við 99 ólík verð, sömuleiðis ef samfélagið væri stærra og samanstæði af einni milljón vöruflokka hefðum við 5 milljarða af ólíkum vöruverðum, en þökk sé pening höfum við aðeins eina milljón af ólíkum vöruverðum.

En mikilvægasti þátturinn sem peningur gerir okkur kleift er að lækka tímavali okkar (e. time preference). Með hjálp peningsins getum við áætlað og sparað til framtíðar og minnkað okkar framtíðar óvissu. Ef peningurinn er harður að þá getum við treyst á að hann haldi og jafnvel aukist í kaupmætti, en ef við lifum við háa verðbólgu neyðumst við að neyta peningsins sem fyrst svo hann “skemmist” ekki og tapi kaupmætti.

Hversu mikið peningamagn þurfum við?

Austurríski skólinn stendur fast í þeirri trú að peningamagn í umferð þarf ekki að vaxa, því fólk þarf ekki aukið magn penings heldur aukinn kaupmátt, og eru því engin efri mörk fyrir því hversu mikinn kaupmátt tiltekin eining af pening getur haldið. Notagildi penings felst ekki í því hversu margar einingar þú átt af honum, heldur hversu mikið þú getur skipt á honum fyrir aðrar vörur eða þjónustur sem þú metur til virðis.

Ef við höfum pening sem ekki er hægt að auka með prentun eða námuvinnslu, þýðir það að aðrar vörur falla í virði í samanburði við þann pening að eilífu sökum þess að við erum stanslaust að verða skilvirkari í okkar framleiðslu á öðrum vörum, líkt og ég fór yfir í kafla mínum um tækni. Þannig gætir þú unnið þér inn penning og vitað að aðrar vörur eða eignir myndu falla í verði í samanburði við kaupmátt þess penings, líkt og fasteignir. Slíkur peningur myndi hvetja fólk til að draga úr ónauðsynlegri neyslu í hluti sem þau þurfa síður eða ekkert á að halda, hluti sem bæta líf þeirra ekkert. Þannig myndi fólk meta virði peningsins mun meira en það metur virði penings sem stanslaust fellur í verði líkt og við sjáum í dag.

Í augum keynísku þjóðhagfræðinga okkar er fast peningamagn slæm hugmynd, vegna þess að slíkt myndi draga úr neyslu þó svo slík neysla væri heimsk og algjörlega óþörf og tilgangslaus, því samkvæmt þeirra kenningum dregur aukinn sparnaður úr neyslu, sem leiðir af sér atvinnuleysi, sem dregur enn frekar úr neyslu sem leiðir af sér enn frekara atvinnuleysi og þannig koll af kolli, og er þá eina lausnin í þessum vítahring sem lifir í þeirra huga sá að auka útgjöld ríkisins og prenta pening á neikvæðum raunvöxtum. Slíkt er gert vegna þess að verð þurfa að hækka í verði stanslaust til þess að halda okkar skuldabólu á lofti, ef slíkt gerist ekki munu ríki leiðast í greiðsluþrot af skuldum sínum. Þetta kerfi er augljóslega mjög ósjálfbært þar sem verð leitast stanslaust eftir að lækka í verði sökum þess að við aukum okkar skilvirkni og framleiðni sífellt þökk sé tækniframförum og aukins kapítals.

Í raunveruleikanum, þegar peningur er frjáls markaðsvara, er afurð aukins sparnaðar minnkuð jaðarneysla á neysluvörum, sem eykur jaðarframleiðslu okkar kapítals, því líkt og ég fór yfir í skrifum mínum um kapítal að þá er kapítal samhliða eignarrétti það sem kom okkur úr frumskóginum og hjálpaði okkur að skapa okkar samfélög, því eina leiðin til þess að auka okkar verðmæti er sú að draga úr neyslu og spara upp kapítal.

Þegar peningur hækkar í verði í samanburði við aðrar vörur hjálpar það okkur að skilja tilgang hans, því fólk mun alltaf vilja neyta peningsins sem það á þó svo hann sé óendanlega harður. Það sem mun hinsvegar gerast er að fólk mun draga úr sinni tilgangslausu neyslu og safna upp fyrir hlutum sem virkilega bætir líf þeirra, sem fyrir vikið færir okkar samfélagi bætt lífsgæði.

Mér þykir þá við hæfi að enda þennan kafla á orðum Murray Rothbard:

A world of constant money supply would be one similar to that of much of the eighteenth and nineteenth centuries, marked by the successful flowering of the Industrial Revolution with increased capital investment increasing the supply of goods and with falling prices for those goods as well as falling costs of production. [2]

[1]: Menger, Carl. Principles of Economics. Ludwig von Mises Institute, 2007, p. 261–2.

[2]: Rothbard, Murray. Economic Controversies. Ludwig von Mises Institute, 2011, p. 699.

--

--