Tækni

Ishmael
9 min readJan 11, 2024

--

What is wrong with our age is precisely the widespread ignorance of the role which these policies of economic freedom played in the technological evolution of the last two hundred years. People fell prey to the fallacy that the improvement of the methods of production was contemporaneous with the policy of laissez faire only by accident.

- Ludwig von Mises

Tækni er tegund af kapítali sem eykur okkar framleiðni, hinsvegar er tækni óefnisleg og þar af leiðandi ekki bundin við neina sjaldgæfni. Með því að greina hagfræði frá sjónarmiði mannlegrar hegðunar, er tækni aðeins hugmynd í huga hvers manns áður en hann hefst handa við efnahagslegrar framleiðslu á henni. Áður en nokkur framleiðsla hefst í raunheimi, hefst hún fyrst í huga mannsins og er tækni sú áætlunaraðferð sem hjálpar manninum að ná efnahagslegum markmiðum sínum. Hægt að líkja henni við mataruppskrift; uppskriftin er ekki efnislegur partur af máltíðinni, en án hennar væri máltíðin ekki til því hún er einungis þekkingin sem þarf til að framreiða hana.

Jaðarframleiðsla alls kapítals fer minnkandi án tækniframfara, þ.e. að án þess að breyta og bæta núverandi framleiðsluferlu mun framleiðnin minnka. Sem dæmi græðir fiskveiðimaðurinn lítið á því að eignast fleiri og fleiri fiskveiðistangir því það hjálpar honum ekki að veiða meiri fisk, en með því að bæta tæknina og beita sínu kapítali í að búa til fiskinet og fiskibát getur hann stóraukið jaðarframleiðslu sína. Þannig hjálpa tækniframfarir okkur að komast hjá minnkandi jaðarframleiðslu.

Tækni og vinna

Oft hefur ríkt mikill misskilningur um tækniframfarir og því haldið fram að þær ræni frá okkur störfum og leiði af sér atvinnuleysi. Þessi misskilningur er rótgróinn í kenningar Marx þar sem hann trúði því að kapítalistar myndu nota vélar í stað verkafólks í allan iðnað og framleiðslu sem myndi leiða af sér aukið atvinnuleysi. Þetta er gríðarlegur misskilningur á því hvernig tækni virkar því hún er ekki það sem skapar virði, tími mannsins er það sem skapar virði því hann er sú auðlind sem sjaldgæf er, sem gerir vinnandi fólk að þeirri sjaldgæfu auðlind sem nayðsynleg er til allrar efnahagstengdrar framleiðslu.

Lúddítar (e. Luddites) samanstóð af hópi textíl-verkamanna í Bretlandi á 19. öld sem trúðu því að vélar væru að ræna störfum þeirra, en í raunveruleikanum voru þær að auka framleiðni vinnuaflsins. Nú í dag, heilum tveimur öldum síðar, liggur hystería Lúddíta og Marxista okkur að baki og iðnbyltingin hefur heldur betur rutt sér til rúms og gjörbætt lífsgæði fólks. Fólksfjöldi Breta hefur áttfaldast síðan þá og konur sömuleiðis farið talsvert meira inn á vinnumarkaðinn á sama tíma, og atvinnuleysi í Bretlandi stendur í kringum 4%. Það sem hefur breyst er að fólk þarf ekki lengur að handsauma föt í verksmiðjum og getur því sinnt mun skilvirkari störfum sem vélar geta ekki leyst.

Með því að líta á vinnu frá sjónarmiði Austurrísku hagfræðinnar að þá áttum við okkur á að við getum ekki litið á vinnu eins og neysluvörur, því fólk vinnur ekki til þess eins að eyða tíma sínum í vinnu, fólk vinnur fyrst og fremst til þess að auka framleiðni sína og eiga efni á meiri frítíma. Tími mannsins, og þar með vinna, er sjaldgæfasta auðlind heimsins og býr því ávalt yfir vaxandi eftirspurn, og þegar við beytum kapítali í framleiðslu samhliða sífelldum tækniframförum verður tími mannsins skilvirkari og þar með betur launaður. Á meðan kapítal er oftast mjög sérhæft til að sinna tilteknu hlutverki er vinnandi maður mun sveigjanlegri því hann getur sinnt mörgum ólíkum hlutverkum. Hugvit mannsins er mjög öflugt afl og mun því ávallt verða eftirsóknarvert.

Þar sem tækniframfarir auka afköst vinnunnar sem við sinnum, frysta þær sömuleiðis og spara okkur tíma sem önnur verkefni krefjast, því létta þær á sjaldgæfni tímans sem við búum við án þess þó að útríma henni.

Samgöngur er eitt besta dæmið sem hægt er að taka þegar við tölum um tækniframfarir og vinnu. Þegar samfélög mannsins hófu að myndast var maðurinn sá kraftur sem flutti hluti og vörur á milli staða. Með tilkomu hjólsins gat maðurinn flutt talsvert meira magn en hann gat áður, hesturinn jók svo enn frekar okkar flutningsgetu en þó ekkert í samanburði við lestina, bílinn eða flutningaskipin; og getur einn maður á flutningabíl getur flutt um 50 tonn á 100km/klst, airbus flugvél getur flutt um 300 tonn á 900km/klst með lítilli áhöfn og HMM Algecirac, eitt stærsta flutningaskip í heimi, getur flutt 672.000 tonn á 28km/klst með lítilli áhöfn.

Með þessar staðreyndir í huga getum við spurt okkur hvort þessar tækniframfarir hafi útrýmt atvinnumöguleikum í flutningageiranum? Þvert á móti, í dag höfum við fleira fólk starfandi í þeim iðnaði en nokkru sinni fyrr, þetta fólk eru ekki þrælar sem halda á og flytja hluti á sínum herðum heldur eru þetta ólíkir einstaklingar sem gæta sinna eigin hagsmuna: verkfræðingar, flutningabílstjórar, flugmenn, skipulagsfræðingar og margt fleira. Tækniframfarir færðu þannig flutningaþjónustu úr þrældómi yfir í frjálsa vinnu.

Þrælahald

Í dag hefur enginn þörf á þrælum til þess að halda á sér á milli staða eða plægja akurinn sinn, en þegar þrælar vor eina og þar með skilvirkasta leiðin til þess að sinna slíkri vinnu voru þeir það sem maðurinn notaði, en eftir því sem við uppgötvuðum afkastameiri aðferðir til að leysa þessi verkefni fórum við sömuleiðis að nýta þær. Því getum við sagt að Lúddítar og Marxistar eru ekki á móti gráðugum kapítalistum heldur eru þeir á móti þeim þrótti sem í okkur býr og sem knýr okkar efnahagstengda hvata, þann hvata að auka okkar nútíðar ástand með bættri skilvirkni. Þó svo Lúddítar geti brotið nokkra vefstóla geta þeir ekki stöðvað þrótt mannsins í að auka sína skilvirkni með sjálfvirkum vefstólum. Sama hversu reiður þú ert út í tiltekna vél, mun hún samt bæta lífsgæði þín og afkomenda þinna til lengri tíma litið.

Hreyfing Lúddíta varð að algjörum brandara á meðan tækniframfarir bættu lífsgæði allra. Um leið og hjól, vefstóll, bíll, flugvél eða hugbúnaður er uppgötvaður, áttar fólk sig á virðinu sem það færir því í formi aukinna afkasta. Ofbeldisfullar hömlur geta því aðeins hægt á slíkum tækniframförum sem munu alltaf á endanu skila sér í aukinni arðsemi til þeirra sem nýta þær því tækniframfarir gera okkur kleift að framleiða á lægri verðum og munu því þeir sem nýta og finna upp nýja framleiðslutækni sjá skilvirkni sína aukast, á meðan þeir sem ekki það gera munu sjá hana dvína.

Það er hægt að færa sannfærandi rök fyrir því að það voru tækniframfarir sem útrýmdu þrælahaldi en ekki Abraham Lincoln eða aðrir þjóðarleiðtogar 18. aldarinnar. Í flestum þeim löndum sem iðnvæddust varð þrælahald þar fljótlega afnumið og er hagfræðileg útskýring á því. Í fyrsta lagi er hægt að færa þau rök að fólk varð ríkara og því betur í stakk búið til að eiga efni á að betra siðferði, og þar með ólíklegra til þess stunda eins vítisverða háttsemi og að þræla út fólki, það er nokkuð lógísk ástæða en meira sannfærandi ástæða er að tækniframfarir leiddu af sér aukna framleiðni sem gerði það óhagkvæmt að ráða og eiga þræla því þeir eru mun óskilvirkari en vélar.

Iðnbyltingin færði vinnur úr því að snúast um handafl yfir í hugarafl og því er það nauðsynlegt að starfsmaður vilji sinna sinni vinnu að fúsum og frjálsum vilja svo hann sé í réttu hugarástandi. Í dag er samvinna mun skilvirkari aðferð en reiður þræll var fyrr á öldum, því reiður starfsmaður er fær um að eyðileggja vélar sem samsvara 100 árum af handafli á augabragði, en launaður starfsmaður sem sinnir sinni vinnu stoltur og ánægður hefur engann hvata til að gera slíkt. Þetta er gríðarstór og mikilvægur þáttur sem oft er skautað framhjá þegar talað er um tækniframfarir. Því meira kapítal sem við eignumst, því verðmætari verður hver starfsmaður, og því mikilvægara er samþykki hans til að sinna sinni vinnu, því er það mín skoðun að þrælahald er mjög óhagkvæmt eftir að við iðnvæddumst.

Fyrr á öldum var handafl okkar helsta orkuauðlind og krafðist það því mannafls að flytja hluti á milli staða, sauma saman fötin okkar eða koma skilaboðum áleiðis. Í dag, þökk sé tækniframframförum í orkunýtingu ferjum við fleiri þúsundir tonna heimsálfana á milli á degi hverjum, fjöldaframleiðum fötin okkar fyrir lítinn kostnað og sendum skilaboð þvert yfir hnöttin á sekúndubrotum. Þessar tækniframfarir færa okkur jafngildi þess að hafa hundruði ef ekki þúsundir manna innan seilingar vinnandi fyrir okkur á hverjum degi.

Lykilástæða þess að tækniframfarir auka okkar framleiðni til lengri tíma litið er vegna þess að vinna, eignir, kapítal, orka og viðskipti eru öll bundin við sjaldgæfni á meðan hugmyndir eru það ekki, án þeirra verður minnkandi ávöxtun afurð allrar framleiðni.

Kapítal er sjaldgæft sökum þess að þú þarft að fresta þér til um neyslu þess, á meðan viðskipti eru takmörkuð við sérhæfingu okkar sem er takmörkuð við nútíma vöruúrval og þar með nútíma tækni. Fórnarkostnaður tímans sem við nýtum til vinnu er tími sem við gætum annars nýtt til frístunda. En hugmyndir hinsvegar eru fríar, það er enginn kostnaður sem fylgir því að uppgötva eða nýta hugmyndir annara; þegar hjólið var fundið upp fóru allir að nota það sömuleiðis, og var því ekki stolið frá þeim sem uppgötvaði það. Framleiðni okkar eykst þökk sé hugmyndarflugi okkar sem við nýtum í að finna upp tækninýjungar.

Nýsköpun, forsenda hagvaxtar

Oft er talið að auðlindir sé undirstaða hagvaxtar í okkar nútíma samfélagi, líkt og fiskurinn sem við höfum aðgang að eða orkan okkar. Michael Kremer rannasakaði þetta nánar og var hans niðurstaða að ef auðlindir væru forsenda hagvaxtar ættum við að sjá meiri hagvöxt í smærri ríkjum en þeim sem stærri eru sökum þess að minni þjóðir hefðu aðgang að meiri auðlindum á hvern einstakling, hinsvegar sjáum við það öfuga gerast; stærri samfélög búa við meiri hagvöxt sökum þess að því stærri sem samfélagið er því meira fólk er til staðar til þess að uppgötva tækninýjungar [1]. Sömuleiðis grotna tækninýjungar ekki niður og mun erfiðara að eyðileggja þær samanborið við annarskonar kapítal.

Háskólar telja okkur sömuleiðis trú um að tækniframfarir sé afurð vísindalegra framfara, sem er skiljanlegt þef við skiljum hvaða hagsmuna þeir hafa að gæta. Í raun og veru eru það sjaldnast vísindamenn sem uppgötva tækninýjungar sem verkfræðingar beyta svo í sína framleiðslu, heldur eru það frumkvöðlar á markaðnum sem drífa áfram nýsköpun, ekki vísindalegar uppgötvanir. Tækniframfarir eru aðeins marktækar og nytsamlegar ef þær standast þarfir markaðsins með því að auka afköst okkar, þannig eru þeir sem tæknina framleiða verðlaunaðir fyrir.

Í bók sinni The Economic Laws of Scientific Research birtir Terence Kealy niðurstöður ítarlegrar rannsóknar sinnar á merkustu uppgötvunum iðbyltingarinnar, flestar þeirra komu til þökk sé verkfræðingum og verkamönnum, því þeir áttuðu sig á að þeir þurftu að betrumbæta þeirra núverandi framleiðsluferli og nýttu þá tólin og tækin sem voru þeim aðgengileg. Oftast voru það ólæsir, hálflæsir eða ómenntaðir verkamenn sem fundu lausnir við vandamálunum með því að leysa markaðsvandann og endurnýta tólin sem þeir höfðu aðgang að. Því getum við sagt að varmafræðin færði okkur ekki gufuvélina, heldur var það gufuvélin sem færði okkur varmafræðina. [2]

Tvær áhugaverða málsgreinar úr bókinni:

It will be seen, therefore, that the development of the steam engine, the one artefact that more than any other embodies the Industrial Revolution, owed nothing to science; it emerged from pre-existing technology, and it was created by uneducated, often isolated, men who applied practical common sense and intuition to address the mechanical problems that beset them, and whose solutions would yield obvious economic reward.

Looking back at the Industrial Revolution generally, it is hard to see how science might have offered very much at all to technology, because science itself was so rudimentary. Chemists who subscribed to the phlogiston theory, or to the view that heat was a substance, or who tried to build perpetual motion machines, were not likely to be of much use to engineers. Indeed, during much of the nineteenth century, the reverse was true; scientists scrambled to catch up with engineers. Carnot’s descriptions of the laws of thermodynamics, for example, emerged from his frustration with Watt’s improved steam engine, because that steam engine broke all the rules of contemporary physics. Watt’s engine was more efficient than theory stated it could be, so Carnot had to change the theory.

Það sama er hægt að segja um flugvélar. Þegar Wright bræður flugu sinni fyrstu flugvél árið 1903 sammældust vísindamenn um að það væri ómögulegt að fljúga. Meira að segja Lord Kelvin reyndi að útskýra það árið 1905, u.þ.b. tveimur árum eftir að Wright bræður höfðu flogið sinni fyrstu flugvél, að það væri algjör draumóra að fólk gæti ferðast um í flugvélum, en á meðan allir treystu á sérfræðingana og treystu á þeirra þekkingu tóku tveir hjólabúðareigendur sig til í Norður Karólínu, bræður sem fóru ekki einu sinni í menntaskóla, fiktuðu sig áfram með hjólin sín og ákváðu að gera þau aðeins áhugaverðari og láta þau fljúga.

Þessi saga hefur endurtekið sig aftur og aftur, þar sem frumkvöðlar drífa áfram nýsköpun með því að finna út þarfir markaðsins og uppgötva nýjar leiðir sem betrumbæta líf okkar.

Hugbúnaður

Eftir því sem vélar urðu fyrirsjáanlegri fór fólk að finna upp leiðir til þess að gera þær sjálfvirkari með því að forrita þær. Á 6. áratug síðustu aldar fæddust forritunarmál sem voru óháð vélbúnaði tölva, fyrir það var forrituninni handstýrt. Með tilkomu forritunarmála gat vélbúnaðurinn haldist óbreyttur á meðan hugbúnaðurinn varð síbreytilegur, sem gerði hann að efnahagstengdri vöru í formi hreinna upplýsinga. Án nokkurns vafa er hugbúnaður hreinasta tæknilega varan sem við þekkjum því hann er óáþreifanlegur og stóreykur okkar framleiðni. En það er mikilvægt að átta sig á að hugbúnaður er ekki samkeppnishæfur, því hann er ekki sjaldgæfur og getur hver sem er afritað hann og aukið sína skilvirkni. Hugbúnaður er hugmynd og þökk sé honum getum við sagt vélum að gera nákvæmlega það sem við viljum og er hann því gríðarleg framför í framleiðni mannsins og algjör undirstaða upplýsingaraldarinnar.

[1]: Kremer, Michael. Population Growth and Technological Change: One Million B.C. to 1990.

[2]: Kealey, Terence. The Economic Laws of Scientific Research.

--

--