20 vonarstjörnur í viðskiptalífinu

Andres Jonsson
Gott að frétta
Published in
7 min readJan 3, 2018

Góð samskipti hafa valið 20 vonarstjörnur í tengslum við val sitt á 40 eftirtektarverðum stjórnendum, 40 ára og yngri. Allt fólk sem miklar væntingar eru bundnar við á næstu árum.

Vonarstjörnurnar er fólk sem var tilnefnt en komst á endanum ekki á aðallistann hjá okkur. Það gæti hins vegar í sumum tilfellum átt eftir að skjóta upp kollinum á honum innan fárra ára.

  1. Alda Karen Hjaltalín (24), sölu- og markaðsstjóri hjá Ghostlamp. Hún var áður sölu- og markaðsstjóri hjá Sagafilm. Trekkti 800 manns á fyrirlestur í Hörpu og sló í gegn. Vinnur nú í New York á vegum hins íslenska Ghostlamp.

2. Alexander Jensen Hjálmarsson (30), sérfræðingur hjá GAMMA. Hann starfaði áður í eignastýringu hjá Sjóvá auk þess að sinna kennslu við Háskóla Íslands. Hann er með B.Sc. gráður í iðnaðarverkfræði og viðskiptafræði frá HÍ auk meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja. Hann var formaður Ungra fjárfesta.

3. Anna Fríða Gísladóttir (27), markaðsstjóri hjá Domino‘s. Hún er með B.S.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Anna Fríða hefur vakið eftirtekt fyrir góðan árangur með markaðsmál og samfélagsmiðla Domino‘s á Íslandi.

4. Ari Guðjónsson (29), yfirlögfræðingur Icelandair Group. Ari hóf fyrst störf á lög­fræðisviði Icelanda­ir Group sam­hliða há­skóla­námi árið 2010, og gegndi svo starfi staðgeng­ils yf­ir­lög­fræðings. Hann lauk laganámi frá Háskóla Íslands og LLM gráðu frá Col­umb­ia Law School, þar sem hann hlaut Har­l­an Fiske Stone Schol­ar viður­kenn­ingu fyr­ir góðan náms­ár­ang­ur. Þá hefur hann öðlast héraðsdóms­lögmannsréttindi. Ari hef­ur verið ann­ar tveggja full­trúa Íslands í Nor­rænni sam­ráðsnefnd um Höfðaborg­arsátt­mál­ann frá 2015 og var aðstoðar­kenn­ari við laga­deild Há­skóla Íslands 2013–2014.

5. Arnar Gauti Reynisson (36), fjármálastjóri Heimavalla. Starfaði áður hjá Glitni og Íslandsbanka. Arnar Gauti er með B.Sc.-gráðu í verkfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc.-gráðu í iðnaðarverkfræði frá University of Minnesota.

6. Ásdís Auðunsdóttir (30), verkefnisstjóri hjá Deloitte. Ásdís lærði lögfræði í Háskólanum í Reykjavík og hefur einnig starfað sem viðskiptablaðamaður. Hún lagði auk þess stund á MIBM framhaldsnám í alþjóðaviðskiptum og markaðsfræði.

7. Björn Brynjúlfur Björnsson (30), fyrrverandi hagfræðingur Viðskiptaráðs. Hann var áður hjá McK­insey & Company í Kaup­manna­höfn og í grein­ing­ar­deild fjár­fest­ing­ar­bank­ans Credit Suisse í London. Hann er með B.Sc.-gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc.-gráðu í fjármálahagfræði frá Oxford-háskóla.

8. Darri Freyr Atlason (23), sérfræðingur í stafrænni þróun hjá Íslandsbanka. Aðstoðarkennari í HÍ. Þjálfar meistaraflokk kvenna í körfubolta hjá Val. Darri Freyr er með B.S-próf í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands, sumarið 2015 var hann einn þriggja nemenda við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands sem komst inn í sumarnám við Stanford-háskóla í Bandaríkjunum.

9. Elísabet Guðrún Björnsdóttir (34), sérfræðingur hjá Landsbankanum. Hún starfaði áður hjá J.P. Morgan í New York og London. Elísabet lauk B.Sc.-prófi í byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands og hlaut Fulbright-styrk og Thor Thors-styrk til framhaldsnáms í Bandaríkjunum. Hún er með meistarapróf í fjármálaverkfræði frá Cornell-háskóla.

10. Eyrún Jónsdóttir (37), forstöðumaður hjá CCP. Hún starfaði áður m.a. hjá OZ, Ígló og Indí og Lazytown. Hún er með B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði og hagfræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu frá Copenhagen Business School.

11. Hafsteinn Hauksson, (28) sérfræðingur hjá GAMMA í London. Hann starfaði áður hjá ráðgjafarfyrirtækinu Newstate Partners í London sem sérhæfir sig í ráðgjöf á sviði opinberra fjármála, þar á meðal stýringu og endurskipulagningu opinberra skulda. Hafsteinn lauk B.Sc. námi í hagfræði frá Háskóla Íslands og er með meistaragráðu í fjármálum og hagfræði frá London School of Economics. Hann starfaði um tíma sem hagfræðingur í greiningardeild Arion banka og einnig sem fjölmiðlamaður með námi, lengst af á fréttastofu Stöðvar 2.

12. Hildur Einarsdóttir (35), forstöðumaður hjá Össuri. Hún lauk B.Sc.-námi í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands, og er með meist­ara­gráðu í raf­magns- og lífeðlis­fræði frá Im­per­ial Col­l­e­ge í London. Hún vann í líf­tæknifyr­ir­tæki í London í þrjú ár og flutti síðan heim og hóf störf hjá Öss­uri.

13. Hrólfur Andri Tómasson (29), framkvæmdastjóri Framtíðarinnar lánasjóðs sem er í eigu GAMMA. Hann hefur áður starfað hjá Arctica Finance við fyrirtækjaráðgjöf, hjá Blackstone Group við greiningu á fjárfestingarkostum og hjá nýsköpunarsjóðnum Octopus Investments í London. Hrólfur er með B.S. gráðu í vélaverkfræði frá HÍ og MBA frá London Business School.

14. Kristinn Árni Lár Hróbjartsson (28), sérfræðingur hjá Kolibri. Kristinn sinnir ráðgjöf og viðskiptaþróun hjá fyrirtækinu. Hann var áður forstöðumaður rekstrar hjá QuizUp og sá jafnframt um innleiðingu Agile-vinnukerfisins. Kristinn er með B.Sc. í viðskiptafræði með áherslu á markaðsfræði og alþjóðaviðskipti frá Háskóla Íslands. Kristinn kom að stofnun Northstack.is þar sem fjallað er um íslensk sprotafyrirtæki.

15. Kristrún Frostadóttir (29), aðalhagfræðingur Kviku banka. Hún er einnig formaður verðlagsnefndar búvara. Kristrún starfaði áður hjá Viðskiptaráði og banda­ríska fjár­fest­ing­ar­bank­an­um Morg­an Stanley. Hún hefur einnig unnið sem blaðamaður á Viðskipta­blaðinu, sem hag­fræðing­ur í starfs­hóp á veg­um for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins og sem hag­fræðing­ur í grein­ing­ar­deild Ari­on banka. Kristrún er með B.S.-próf í hag­fræði frá Há­skóla Íslands, meist­ara­gráðu í alþjóðafræðum frá Yale-há­skóla í Banda­ríkj­un­um og meist­ara­gráðu í hag­fræði frá Bost­on-há­skóla.

16. Magnús Þorlákur Lúðvíksson (29), sérfræðingur í viðskiptaþróun hjá Icelandair. Hann starfaði áður hjá McKinsey & Company í Kaupmannahöfn og þar áður var hann blaðamaður á Fréttablaðinu. Magnús er með B.Sc.-gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc.-gráðu í hagfræði og fjármálum frá London School of Economics and Political Science. Magnús vann Meistarann, spurningakeppni á Stöð 2, árið 2007.

17. Rakel Guðmundsdóttir (26), rekstrarstjóri Gló. Hún er með B.Sc.-gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Rakel byrjaði í afgreiðslunni hjá Gló 2011. Hún varð veitingastjóri á Gló í Hafnarfirði vorið 2012, veitingastjóri á Engjateig haustið 2012 var svo gerð að rekstrarstjóra allra staðann vorið 2013.

18. Samúel Karl White (40), sérfræðingur hjá Creditinfo. Hann starfar við viðskipta- og markaðsþróun með áherslu á ný­markaði sem og við ráðgjöf og upp­bygg­ingu á skrif­stof­um fé­lags­ins víðs veg­ar um heim­inn. Hann starfaði áður m.a. hjá Intr­um Justitia, hef­ur margra ára reynslu af ís­lensk­um fyr­ir­tækja­markaði þar sem hann hef­ur unnið með fjöl­mörg­um fyr­ir­tækj­um og stofn­un­um að því að há­marka nýt­ingu upp­lýs­inga við áhættu­stjórn­un. Samúel er með próf í viðskipta­fræði frá Há­skól­an­um í Reykja­vík.

19. Sigríður María Egilsdóttir (23). Laganemi í Háskólanum í Reykjavík. Sig­ríður kom á sjón­ar­sviðið árið 2013 þegar hún lék í kvikmyndinni Hross í oss og flutti þar að auki ræðu um framtíðarmark­mið kvenna á London 100 Women ráðstefn­unni á veg­um breska rík­is­út­varps­ins BBC. Hún skipaði 5. sæti Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir Alþingiskosningarnar 2016. Starfaði á síðasta ári fyrir nefnd sem var skipuð af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og átti að móta á tillögur um hvernig tryggja megi sanngjarna gjaldtöku fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni.

20. Þuríður Björg Guðnadóttir (29), framkvæmdastjóri hjá Nova. Þuríður stýrir sölu og þjónustu við einstaklinga en hún hefur starfað hjá Nova frá upphafi starfsferils síns. Fyrst sem sölu- og þjónusturáðgjafi og síðar sem viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði. Þuríður tók við stöðu sem sölu- og þjónustustjóri Nova árið 2014 og er nú yfir allri sölu og þjónustu til einstaklinga. Þuríður er með B.Sc-gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík hún hefur einnig lokið námi í stjórnendamarkþjálfun frá sama skóla.

--

--

Andres Jonsson
Gott að frétta

Almannatengsl og stjórnendaleit hjá Góðum samskiptum.