40 stjórnendur: 40 og yngri

Andres Jonsson
Gott að frétta
Published in
14 min readJan 3, 2018

Meðfylgjandi er listi Góðra samskipta yfir 40 stjórnendur, 40 ára og yngri, sem við álítum rísandi stjörnur í íslensku viðskiptalífi.

Listinn er tekinn saman til að lyfta fólki sem hefur verið að standa sig vel í því vandasama hlutverki að vera stjórnandi en einnig til að gefa vísbendingu um hverjir gætu átt eftir að taka við æðstu stöðum í íslenskum fyrirtækjum á næstu árum. Vonandi getur hann reynst fleirum gagnlegur en okkur.

Líkt og fjallað er um í annarri færslu hér á síðunni þá hefur leiðin í stól æðsta stjórnenda verið að lengjast á undanförnum tíu árum. Það liggur fyrir að mun færri 40 ára og yngri eiga sæti í framkvæmdastjórnum eða eru í hlutverki æðsta stjórnanda fyrirtækis nú en þá. Til að mynda er enginn forstjóri fyrirtækis í Kauphöll Íslands 40 ára eða yngri. Á okkar lista eru hins vegar nokkrir einstaklingar sem banka á dyrnar.

Listinn inniheldur fjölmargar fyrirmyndir fyrir það unga fólk sem er að útskrifast úr námi í dag og hefur áhuga á að sækjast eftir ábyrgðarmiklum og krefjandi störfum í viðskiptalífinu en skortir haldgóðar upplýsingar um hvernig það geti unnið sig upp í þessi störf. Listinn getur reynst hjálplegur við að sjá hvaða leið aðrir hafa farið og hvaða tækifæri þetta fólk hefur fengið.

Þá mun listinn vonandi auðvelda okkur að fylgjast áfram náið með ferli fólks sem gæti átt eftir að koma við sögu hjá stjórnendaleit Góðra samskipta, en það er þjónusta sem við hófum að veita árið 2012 og er aðferð sem hefur smám saman verið að ryðja sér til rúms hér á landi við leit að hæfustu kandídötunum í stjórnunarstöður innan fyrirtækja.

Við val á listanum horfðum við til þeirra sem eru 40 ára og yngri og náð hafa langt í kröfuhörðu umhverfi eða sinna stjórnunarstöðum sem fela í sér mikla ábyrgð innan íslenskra fyrirtækja. Ekki var eingöngu horft til mannaforráða heldur líka til þess hvort um lykilverkefni viðkomandi fyrirtækis sé að ræða. Einnig völdum við í nokkrum tilfellum fólk sem hefur samkvæmt okkar upplýsingum stærra hlutverk innan viðkomandi fyrirtækis en starfstitillinn gefur til kynna. Þá horfum við að lokum til þess hvort við teljum líkur til að viðkomandi hafi metnað og getu til að takast á hendur enn ábyrgðarmeiri störf í framtíðinni.

Til greina komu aðeins stjórnendur innan íslenskra fyrirtækja. Við litum alfarið fram hjá þeim sem stýra eigin fyrirtækjum, frumkvöðlum, ráðgjöfum, Íslendingum sem starfa hjá erlendum fyrirtækjum og stjórnendum í opinbera geiranum.

Listinn er í stafrófsröð.

1. Aðalgeir Þorgrímsson (37), framkvæmdastjóri hjá Reiknistofu bankanna. Hann starfaði áður hjá Teris og Creditinfo. Aðalgeir er með B.Sc.-gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík og MBA-gráðu frá Rotterdam School of Management.

2. Andri Guðmundsson (35), framkvæmdastjóri yfir útibúi Fossa í Svíþjóð. Hann starfaði um tíu ára skeið við verðbréfamiðlun og fyr­ir­tækjaráðgjöf hjá H.F. Verðbréf­um hf., þar af var hann framkvæmdastjóri síðustu þrjú árin. Andri er með B.Sc. gráðu í eðlisfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Andri er einn sá yngsti sem kjörinn hefur verið í stjórn Viðskiptaráðs.

3. Ásbjörg Kristinsdóttir (38), yfirverkefnisstjóri hjá Landsvirkjun. Hún starfaði einnig hjá Landsvirkjun á árunum 2002–2006 áður en hún hélt utan í framhaldsnám. Hún var starfsnemi hjá líftæknifyrirtækinu Amgen í meistaranámi sínu. Ásbjörg er með B.Sc.-gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands, M.Sc.-próf í byggingaverkfræði frá MIT og doktorspróf frá sama skóla í verkfræði með áherslu á áhættugreiningu og ákvarðanatöku fyrir virkjanaframkvæmda­verkefni. Þá er hún með MBA próf í fjármálum frá MIT Sloan School of Management. Hún hefur verið varamaður í stjórn Landsbankans og VÍS.

4. Árni Sigurjónsson (39), yfirlögfræðingur hjá Marel. Hann starfaði áður sem lögfræðingur hjá Straumi fjárfestingabanka. Árni lauk meistaranámi í lögfræði frá Háskóla Íslands og lagði stund á nám við The London School of Economics and Political Science og Harvard Law School. Árni er varaformaður Samtaka iðnaðarins. Árni er af mörgum talinn mögulegur arftaki Guðrúnar Hafsteinsdóttur á formannstóli samtakanna þegar Guðrún verður búin að sitja sína sex ára hámarkssetu sem formaður SI.

5. Ásta S. Fjeldsted (35), framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Hún starfaði áður fyrir McKinsey & Company, bæði á Tókýó- og Kaupmannahafnarskrifstofu fyrirtækisins. Þar á undan starfaði Ásta hjá IBM í Kaupmannahöfn og stoðtækjaframleiðandanum Össuri hf., bæði í Frakklandi og á Íslandi. Ásta er vélaverkfræðingur með M.Sc. frá DTU, Tækniháskólanum í Danmörku. Áður en hún réði sig frá McKinsey í Japan í starf framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs höfðu margir hér á landi haft áhuga á að fá hana í stjórnunarstörf.

6. Benedikt Ólafsson (35), framkvæmdastjóri hjá Skeljungi þar sem hann stýrir fjármálum fyrirtækisins. Hann starfaði áður sem forstöðumaður teymis sérhæfðra fjárfestinga hjá Stefni og var sjóðstjóri framtakssjóðanna SÍA I og SÍA II. Áður var hann í fyrirtækjaráðgjöf Arion. Benedikt er með B.Sc. gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

7. Björgvin Ingi Ólafsson (39), hjá Íslandsbanka. Björgvin Ingi er yfirmaður stefnumótunar og markaðsmála hjá bankanum Hann var áður fjármálastjóri Meniga og þar áður starfaði hann hjá ráðgjaf­ar­fyr­ir­tæk­inu McKins­ey & Comp­any í Chicago. Björg­vin er með MBA gráðu frá Kellogg School of Mana­gement og B.Sc. gráðu í hag­fræði frá Há­skóla Íslands.

8. Björk Viðarsdóttir (39), framkvæmdastjóri hjá TM. Björk er yfirmaður tjónaþjónustu. Hún hóf störf hjá TM í ágúst 2008 sem lögfræðingur í tjónaþjónustu félagsins en gegndi starfi forstöðumanns persónutjóna frá 2010–2016. Björk starfaði áður hjá Útlendingastofnun, sem lögfræðingur og síðar forstöðumaður. Björk lauk laganámi frá Háskóla Íslands.

9. Einar Þorsteinsson (39), framkvæmdastjóri hjá Reitum. Hann starfaði áður hjá Íslandsbanka og Stoðum. Einar hefur lokið B.Sc. prófi í viðskiptafræðum frá Háskólanum í Reykjavík og prófi í verðbréfamiðlun.

10. Eva Sóley Guðbjörnsdóttir (36), framkvæmdastjóri hjá Advania. Hún var áður forstöðumaður á fjármálasviði hjá Össuri, en starfaði áður lengst af hjá Kaupþingi, meðal annars í fjárstýringu, fjármögnun, á fyrirtækjasviði og í fyrirtækjaráðgjöf og síðast í stöðu fjármálastjóra frá árinu 2009 til 2011. Eva Sóley er með B.Sc. í hagverkfræði og M.Sc. í fjármálaverkfræði frá Columbia háskólanum í Bandaríkjunum. Eva Sóley var varaformaður stjórnar Landsbankans.

11. Frosti Ólafsson (35), forstjóri ORF Genetics. Hann var áður framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands og þar áður starfaði hann hjá Kaupmannahafnarskrifstofu alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey & Company og þar áður sem hagfræðingur Viðskiptaráðs. Frosti er með MBA gráðu frá London Business School og hagfræðigráðu frá Háskóla Íslands og Macquarie University í Ástralíu.

12. Garðar Ágúst Svavarsson (34), framkvæmdastjóri hjá HB Granda. Hann hóf störf hjá Granda árið 1999, fyrst í sumarafleysingum. Samhliða námi leysti Garðar af sölustjóra í markaðsdeild fyrirtækisins allt fram að útskrift árið 2007 er hann tók við starfi sölustjóra. Garðar er sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri. Hann er sonur Svavars sem einnig situr í framkvæmdastjórn HB Granda.

13. Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir (37), forstöðumaður hjá Marel. Hjá fyrirtækinu ber hún ábyrgð á alþjóðlegri nýsköpunarstarfsemi og starfar þvert á mörg svið Marels. Hún starfaði áður hjá Eyri Invest. Guðbjörg er með meistaragráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og próf í verðbréfaviðskiptum. Guðbjörg Heiða er náinn samstarfsmaður forstjóra Marels, Árna Odds Þórðarsonar.

14. Guðmundur Auðunsson (33), var framkvæmdastjóri Bestseller. Guðmundur nam viðskiptafræði í Háskólanum í Reykjavík og hefur lokið prófi í verðbréfamiðlun. Guðmundur starfaði meðal annars hjá skilanefnd Icebank og Arev verðbréfafyrirtæki áður en hann hóf störf sem framkvæmdastjóri Bestseller fatakeðjunnar. Guðmundur er hluthafi í nokkrum fyrirtækjum, aðallega í veitingageiranum.

15. Guðný Helga Herbertsdóttir (39), framkvæmdastjóri hjá VÍS. Hún var áður deild­ar­stjóri sam­skipta­deild­ar Land­spít­ala. Þar áður var hún upp­lýs­inga­full­trúi Íslands­banka en fyrir það starfaði hún um ára­bil sem fréttamaður og þátta­stjórn­andi hjá 365 miðlum. Guðný Helga er með BSc-gráðu í viðskipta­fræði frá Há­skóla Íslands með áherslu á stjórn­un og markaðsfræði og meist­ara­gráðu í lög­um og viðskipt­um Evr­ópu­sam­bands­ins frá Viðskipta­há­skól­an­um í Árós­um.

16. Guðný María Jóhannsdóttir (37), forstöðumaður hjá Isavia. Guðný hóf störf hjá Flugstöð Leifs Eiríkssonar árið 2004 þar sem hún starfaði fyrst sem verkefnastjóri og síðar sem markaðsstjóri. Guðný María er með B.S.-próf frá Háskólanum á Bifröst. Verkefni Guðnýjar hefur meðal annars verið að laða erlend flugfélög hingað til lands og í tíð hennar hefur þeim fjölgað margfalt sem fljúga til Keflavíkurflugvallar og þá hafa tekjur Isavia af komum og brottförum utan háannnatíma líka stóraukist.

17. Guðrún Eva Gunnarsdóttir (39), framkvæmdastjóri hjá Högum. Hún starfaði áður hjá Hagkaup, Bönunum og Ferskum kjötvörum. Guðrún Eva er með B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og MBA-gráðu frá Háskóla Íslands. Guðrún er ein fárra kvenna sem stýra fjármálum stærstu fyrirtækja landsins.

18. Halldór Benjamín Þorbergsson (38), framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Halldór starfaði áður sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Icelandair Group hf. Hann var um tíma hagfræðingur og síðar starfandi framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands. Halldór lauk hagfræðiprófi frá Háskóla Íslands og er með MBA-gráðu frá Oxford háskóla. Halldór Benjamín var í tíð sinni hjá Icelandair reglulega fenginn til að aðstoða fjármála- og forsætisráðuneytið við vinnslu mikilvægra úrlausnaefna eins og til dæmis í kringum leiðréttinguna svokölluðu og stöðugleikaframlögin.

19. Hildigunnur Thorsteinsson (37), framkvæmdastjóri hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Hún starfaði áður hjá bandaríska orkumálaráðuneytinu. Hildigunnur er með próf í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og meistaraprófi frá MIT í Bandaríkjunum á sviði jarðvarma. Hildigunnur stýrir þróunarmálum Orkuveitunnar og er ein fremsta konan í hinum mjög svo karllæga orkugeira hér á landi.

20. Ingunn Agnes Kro (35), framkvæmdastjóri hjá Skeljungi. Ingunn Agnes Kro stýrir skrifstofu- og samskiptasviði Skeljungs. Ingunn Agnes hóf störf hjá Skeljungi árið 2009 og starfaði sem aðallögfræðingur félagsins þar til í október 2017. Fram að því hafði hún jafnframt gengt stöðu regluvarðar frá skráningu félagsins í desember 2016. Áður starfaði Ingunn sem aðjúnkt í Háskóla Íslands og hjá Landslögum lögfræðistofu. Ingunn Agnes hefur B.A og M.A. próf í lögfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Ingunn hefur starfað undir nokkrum forstjórum Skeljungs og tekið virkan þátt í umfangsmiklum skipulagsbreytingum hjá fyrirtækinu.

21. Jóhann Steinar Jóhannsson (35), framkvæmdastjóri Stapa. Hann starfaði áður hjá ÍV sjóðum hf. og þar á undan Tryggingamiðstöðinni. Hann hefur einnig starfað hjá Stoðum og Straumi fjárfestingabanka. Jóhann Steinar er með B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og M.Sc.-gráðu í viðskiptafræði frá Lunds Universitet. Hann hefur jafnframt lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

22. Jóhanna Margrét Gísladóttir (29), framkvæmdastjóri hjá 365. Var áður rekstrarstjóri sjónvarpssviðs 365 en hún starfaði áður sem fréttamaður á fréttastofu Stöðvar 2 og verkefnastjóri á framleiðsludeild. Auk þess hefur Jóhanna unnið hjá Arion Banka og Straumi. Jóhanna er með B.Sc.-gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í rekstrarverkfræði frá Duke háskóla í Bandaríkjunum.

23. Kjartan Smári Höskuldsson (37), framkvæmdastjóri Íslandssjóða. Hann starfaði áður hjá VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka, en þar leiddi hann fagfjárfestasvið, lífeyrissvið og fjármögnun sérhæfðra fjárfestinga. Kjartan er með B.A.-gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og M.A.-gráðu frá UAB háskólanum í Barcelona, auk þess sem hann hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

24. Linda Jónsdóttir (40), framkvæmdastjóri hjá Marel. Linda hefur síðustu þrjú ár stýrt heildarfjármálum fyrirtækisins en hafði áður stýrt fjárstýringu- og fjárfestatengslum Marels frá árinu 2009. Áður starfaði hún við fjárstýringu og fjármögnun hjá Eimskip, Burðarási og Straumi fjárfestingabanka. Linda er með Cand.Oecon gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í fjármálum. Linda sat í stjórn Framtakssjóðs Íslands frá árinu 2010 til 2014. Fáar íslenskar konur stýra jafn miklum fjármunum og Linda.

25. Magnús Árnason (38), framkvæmdastjóri hjá Nova. Magnús stýrir markaðsmálum Nova og ber ábyrgð á vef og öðrum stafrænum viðmótum fyrirtækisins. Hann starfaði áður sem sjálfstæður ráðgjafi í vörumerkjastjórnun, sem framkvæmdastjóri hjá OZ, Lazytown og auglýsingastofunni Vatíkaninu og þar áður sem vörustjóri hjá Íslandssíma. Magnús hefur setið í stjórn ÍMARKS og er formaður dómnefndar Lúðursins markaðsverðlauna ÍMARK tvö síðustu ár. Fáir stjórnendur búa yfir jafn mikilli reynslu í stafrænum markaðsmálum. Magnús er einn eigenda Nora Magasin við Austurvöll.

26. Margrét Lára Friðriksdóttir (39), framkvæmdastjóri hjá Össuri. Margrét er með B.S.- og MS.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík. Margrét hefur starfað hjá Össuri undanfarin 17 ár í ýmsum hlutverkum, lengst af í tengslum við yfirstjórn fyrirtækisins. Margrét sinnti starfi sínu í nokkur ár á skrifstofum Össurar í Kaliforníu, þar sem Jón Sigurðsson forstjóri fyrirtækisins er einnig með sína starfssstöð, en Margrét flutti sig aftur hingað til lands í fyrra.

27. Margrét Tryggvadóttir (40), aðstoðarforstjóri Nova. Hún starfaði áður hjá Tali, Vodafone og Sparisjóðnum. Mar­grét er alþjóðamarkaðsfræðing­ur með B.Sc.-gráðu frá Tækni­há­skól­an­um. Hún situr í stjórn KEA hótelkeðjunnar. Margrét er náinn samstarfsmaður Liv Bergþórsdóttur forstjóra Nova.

28. Ólafur Örn Nielsen (31), framkvæmdastjóri Kolibri. Hann stofnaði Form5, var vefmarkaðsstjóri WOW air en byrjaði ferilinn sem forritari hjá Árvakri. Ólafur hefur víðtæka reynslu af hugbúnaðarþróun og markaðsmálum og það eru fáir stjórnendur með meiri þekkingu á stafrænni þróun hér á landi.

29. Ragnheiður Hauksdóttir (40), framkvæmdastjóri hjá Vodafone. Ragnheiður er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur starfað í mörgum ólíkum stjórnunarhlutverkum hjá Vodafone.

30. Sigfús Oddsson (39), framkvæmdastjóri hjá Eyri Invest. Hann starfaði áður hjá Landsbankanum. Sigfús er með B.Sc.-gráður í tölvunarfræði og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc.-gráðu í upplýsingatækni frá Technical University of Munich.

31. Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir (40), framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka. Hún starfaði áður sem framkvæmdastjóri hjá Olís og í ýmsum störfum hjá Arion banka. Sig­ríður Hrefna lærði lögfræði í Há­skóla Íslands og er með MBA gráðu frá Copen­hagen Bus­iness School.

32. Sigríður Vala Halldórsdóttir (34), forstöðumaður hjá Sjóvá. Sigríður Vala lauk MSc-prófi í iðnaðarverkfræði frá University of Minnesota og starfaði því næst hjá fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka og kom mikið að skráningum stórra félaga í Kauphöll Íslands. Hún varð síðar forstöðumaður viðskiptastýringar hjá Creditinfo áður en hún fór yfir til Sjóvár. Hjá Sjóvá stýrir Sigríður hagdeild en hún kemur jafnframt að fjárfestingum fyrirtækisins og er náinn samverkamaður Hermanns Björnssonar forstjóra.

33. Sigurður Hannesson (37), framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Hann var áður framkvæmdastjóri hjá Kviku banka. Sigurður er stærðfræðingur að mennt með doktorspróf frá Oxford háskóla og er með próf í verðbréfamiðlun. Sigurður var einn af ráðgjöfum íslenska ríkisins í samskiptum við erlenda kröfuhafa.

34. Sigurður Ingvar Ámundason (36), framkvæmdastjóri hjá Valitor. Hann starfaði áður hjá Maritech. Sigurður er með B.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Verkefni Sigurðar er lykilverkefni Valitor sem hefur náð góðum árangri í færsluhirðingu á erlendum mörkuðum, m.a. fyrir tilstuðlan öflugra tæknilausna.

35. Snædís Ögn Flosadóttir (34), framkvæmdastjóri hjá Arion banka. Hún stýrir eftirlaunasjóði Félags íslenskra atvinnuflugmanna og er önnur aðeins tveggja kvenna sem eru framkvæmdastjórar lífeyrissjóðs á Íslandi. Snædís er með B.Sc. og M.Sc. í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfamiðlun.

36. Sveinn Sölvason (39), framkvæmdastjóri hjá Össuri. Hann starfaði áður í viðskiptaþróun hjá Marel og í fyrirtækjaráðgjöf hjá Kaupþingi, auk þess að vinna um tíma fyrir HSH-Nordbank og Goldman Sachs. Sveinn er með meistaragráðu í fjármálum og endurskoðun frá Copenhagen Business School. Hann starfaði á fjármálasviði Össurar áður en hann tók við sem framkvæmdastjóri sviðsins og er í dag í lykilhlutverki í stjórnendateymi þess.

37. Sylvía Kristín Ólafsdóttir (37), forstöðumaður hjá Landsvirkjun. Sylvía hefur starfað hjá Landsvirkjun frá árinu 2015 fyrst sem forstöðumaður tekjustýringar á markaðs- og viðskiptaþróunarsviði og nú sem forstöðumaður jarðvarmadeildar. Áður starfaði hún hjá höfuðstöðvum Amazon í Evrópu fyrst við rekstur og áætlanagerð um innviði vöruhúsa víðs vegar um Evrópu. Þaðan fór Sylvía í Kindle deild fyrirtækisins og sá um viðskiptagreind og vöruþróun fyrir vefbækur auk þess að leiða greiningar- og stefnumótunarvinnu fyrir samningagerð við bókaútgefendur. Áður starfaði Sylvía m.a sem forstöðumaður á fjármálastöðugleikasviði Seðlabanka Íslands, hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og sinnti kennslu við verkfræðideild HÍ og MPM nám skólans. Sylvía er iðnaðarverkfræðingur frá HÍ og með meistaragráðu í aðgerðarannsóknum frá London School of Economics. Sylvía situr í stjórn Ölgerðarinnar, Orkufjarskipta og Aðgerðarannsóknarfélagi Íslands

38. Tómas Eiríksson (39), yfirlögfræðingur hjá Össuri. Hann starfaði áður hjá Arion banka. Tómas lauk laganámi frá Háskóla Íslands og er þar að auki með MBA-gráðu frá IE Business School.

39. Yngvi Halldórsson (39), var forstöðumaður hjá Össuri. Hann er nú hjá Umbreytingu. Yngvi starfaði sem forstöðumaður upplýsingatækni og yfirmaður Global Business Services hjá Össuri. Frá árinu 2008 gegndi Yngvi ýmsum störfum hjá Össuri hf., m.a. verið framkvæmdastjóri uppýsingatækni og viðskiptaferla, deildarstjóri viðskiptaferla og deildarstjóri viðskiptahugbúnaðarsviðs. Árin 2006–2008 var Yngvi sjóðsstjóri erlendra hlutabréfasjóða hjá Landsvaka ehf. en þar áður stýrði hann innleiðingum og samþættingum á upplýsingakerfum Össur Americas. Á árunum 2000–2005 starfaði Yngvi hjá Maritech ehf. Yngvi er með B.S. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.

40. Þórdís Anna Oddsdóttir (34), forstöðumaður hjá Icelandair. Þórdís Anna ber ábyrgð á hinni afar mikilvægu tekjustýringu Icelandair. Þar áður starfaði hún sem ráðgjafi hjá Statoil í Dan­mörku og vann við áhættu­stýr­ingu hjá Straumi fjár­fest­ing­ar­banka. Þór­dís Anna er með B.Sc.-gráðu í véla­verk­fræði frá Há­skóla Íslands, MSc. í iðnaðar­verk­fræði frá Georgia Institu­te of Technology, auk þess að vera með próf í verðbréfamiðlun.

Fyrirvari: Það segir sig sjálft að val á svona lista er fyrst og fremst til gamans gert, en er vonandi líka til gagns fyrir þá sem leita annað hvort að fyrirmyndum fyrir eigin starfsframa eða mögulegum stjórnendum í fyrirtæki sín. Við byggjum valið á þeim upplýsingum sem við búum yfir um hlutverk og árangur einstakra stjórnenda. Þá leituðum við eftir tilnefningum frá fjölda fólks í atvinnulífinu. Eðli málsins samkvæmt skekkir þetta niðurstöðuna þannig að fleiri enda á listanum sem tilheyra okkar tengslaneti. Við viljum þó gjarnan draga úr þeirri skekkju í framtíðinni og vinna listann úr enn fleiri tilnefningum næst.

Það má gjarnan senda okkur ábendingar á andres@godsamskipti.is eða ylfa@godsamskipti.is um fólk sem ætti heima á lista næsta árs.

--

--

Andres Jonsson
Gott að frétta

Almannatengsl og stjórnendaleit hjá Góðum samskiptum.