40/40 listinn 2020:

Andres Jonsson
Gott að frétta
Published in
20 min readJun 20, 2020

40 stjórnendur, 40 ára og yngri

Meðfylgjandi er listi Góðra samskipta yfir 40 efnilega stjórnendur í viðskiptalífinu árið 2020, 40 ára og yngri. Þetta er í annað sinn sem við tökum saman 40/40 listann svokallaða, en síðasta lista má nálgast hér.

Í ljósi smæðar landsins og í þágu þess að geta ávallt fundið 40 verðuga stjórnendur, höfum við ákveðið að gefa listann út á tveggja ára fresti.

Þau 40 sem eru á listanum í þetta sinn

Hugmyndin með listanum er að beina sjónum að ungu fólki sem er að ná eftirtektarverðum árangri á sviði stjórnunar og sem hefur fengið skjótan frama og góð tækifæri á sínu sviði. Á honum eru einstaklingar sem geta hugsanlega reynst fyrirmyndir fyrir ungt fólk sem stefnir hátt í atvinnulífinu en einnig hjálpar útgáfa hans okkur að fylgjast með öflugu fólki sem gæti komið við sögu hjá ráðningardeild Góðra samskipta.

Þau sem tilnefndu fólkið á listanum í ár tilheyra hópi nokkurra tuga einstaklinga, æðstu stjórnenda, stjórnarfólks og fjárfesta sem eru virkir í íslensku viðskiptalífi.

Við birtum ekki tilnefningarnar sem okkur berast en það var gaman að sjá hversu margar konur voru tilnefndar í ár. Um 60% þeirra sem hlutu tilnefningu eru konur sem er ríflega þriðjungs aukning frá 2018. Ekki er um vísindalega könnun að ræða en vonandi er þetta vísbending um að ungar konur í atvinnulífinu séu að fá meira rými en áður. Þess ber þó að geta að í kauphöllinni er staðan enn óbreytt, ekkert skráð fyrirtæki á Íslandi hefur ráðið konu í forstjórastarf síðustu ár.

Þá kom einnig fram í samtölum okkar við stjórnarmenn og fjárfesta að leiðin sé að lengjast fyrir ungt fólk í viðskiptalífinu. Margir áttu í erfiðleikum með að nefna nokkurn yngri æðsta stjórnanda á nafn og þegar litið er yfir sviðið þá sést að þorri allra stjórnenda í efstu og næstefstu lögum viðskiptalífsins er í dag eldri en 40 ára. Þetta er breyting, áður fyrr þekktist að forstjórar væru sumir í kringum þrítugt. Nú eru þeir sjaldnast yngri en 50 ára.

Við val á listann var horft til þess að fólk uppfyllti að vera:

  1. 40 ára eða yngra og hafi vakið athygli fyrir frammistöðu sína, hafi fengið aukna ábyrgð að undanförnu og þyki líklegt til að fá enn stærri stjórnunarhlutverk á komandi árum.
  2. Það sé nú þegar, óháð bakgrunni, komið með einhvers konar stjórnunarskyldur, t.d. með því að halda á hluta af stefnumarkandi málefnum fyrirtækja eða að það stjórni eigin teymi eða teymum.
  3. Starfandi í fyrirtækjum, eða á mörkuðum, þar sem ríkar kröfur eru gerðar og mikil áhersla á fagmennsku er til staðar.

ATH: Tekið skal fram að frumkvöðlar og stjórnendur eigin fyrirtækja voru alfarið undanskildir við val listans (annars vegar þar sem við teljum þá fá næga athygli nú þegar og hins vegar þar sem þeir koma sjaldan til greina í stjórnunarstöður í öðrum fyrirtækjum).

Þá er rétt að taka fram að allir sem voru á síðasta 40/40 lista (útgefnum í janúar 2018) eru undanskildir við gerð listans nú, jafnvel þó að þeir teljist enn til ungra stjórnenda og séu áfram að gera góða hluti. Nokkrir sem voru á svokölluðum vonarstjörnulista síðast, færast hins vegar upp á 40/40 listann í ár.

Þá gefum við í dag, líkt og í fyrra, út styttri lista yfir vonarstjörnur (fólk sem er nýlega farið að vekja athygli og á bjarta framtíð framundan á sínu sviði).

Í næstu viku kemur svo út hjá okkur enn annar og vonandi ekki síður áhugaverður listi, sem við nefnum “40/40 erlendis”. Það er listi yfir fjörutíu Íslendinga á uppleið, sem allir eru fjörutíu ára og yngri, og starfa hjá spennandi fyrirtækjum víða um heim.

— — -

40 stjórnendur / 40 ára og yngri

Anna Hrefna Ingimundardóttir (37), nýr forstöðumaður efnahagssviðs SA. Anna starfaði áður við sérhæfðar fjárfestingar hjá Eldhrímni og þar áður sem efnahagsgreinandi hjá greiningardeild Arion banka þar sem hún vakti athygli fyrir glöggar greiningar, en ekki síður fyrir örugga framkomu í fjölmiðlum og á opnum fundum bankans. Áður starfaði hún sem lánastjóri á fyrirtækjasviði Arion banka. Hún hefur einnig starfað við greiningar á fjármálamörkuðum í Bandaríkjunum. Anna Hrefna er með BA gráðu í hagfræði frá New York University og MA gráðu í hagfræði frá sama skóla. Hún hefur auk þess réttindi sem löggiltur verðbréfamiðlari.

Anna Kristín Pálsdóttir (33), framkvæmdastjóri nýsköpunar og þróunar hjá Marel og hlaut nýverið stöðuhækkun. Fáir stjórnendur á Íslandi hafa fengið jafn mikla ábyrgð jafn hratt en Marel ver umtalsverðum fjárhæðum til nýsköpunar og þróunar ár hvert. Anna starfaði áður m.a. sem fréttamaður hjá RÚV þar sem hún fékk einnig fljótt mikla ábyrgð, stýrði umræðuþáttum í kosningum og fjallaði um ýmis flókin viðfangsefni. Anna Kristín er með meistaragráðu í framleiðsluverkfræði frá Tækniháskólanum í Berlín og B.SC. gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Anna Fríða Gísladóttir (30), fyrrverandi markaðsstjóri hjá Domino‘s. Anna Fríða hefur vakið athygli fyrir góðan árangur á síðustu árum í að ná í gegn hjá ungu fólki, meðal annars með skemmtilegum svörum á samfélagsmiðlum, óvenjulegum markaðs- og PR-herferðum og fyrir að koma Domino’s snemma á Podcast vagninn en fyrirtækið styrkir vinsæl íslensk hlaðvörp. Anna er með B.S.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Anna tekur við nýju starfi á næstunni en ekki er búið að opinbera það ennþá hvert hún er að fara en hún mun þar stýra enn stærra teymi en hún gerði hjá Domino’s. Anna hefur haldið fjölda fyrirlestra um markaðssetningu á netinu síðustu ár og þá er hún vel tengd meðal ungra kvenna í atvinnulífinu.

Alexander Jensen Hjálmarsson (33) forstöðumaður hjá Stoðum. Alexander starfaði áður sem sjóðsstjóri hjá GAMMA í fjögur og hálft ár og þar áður í eignastýringu hjá Sjóvá auk þess að sinna kennslu við Háskóla Íslands. Hann er með B.Sc. gráður í bæði iðnaðarverkfræði og viðskiptafræði frá HÍ auk meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá sama skóla. Hann var formaður félags ungra fjárfesta. Alexander er í eftirsóttri stöðu sem forstöðumaður hjá Stoðum. Þrátt fyrir að hafa nýverið gert upp stórhýsi og umliggjandi lóð við Suðurgötu 12 þá eru starfsmenn Stoða einungis 5 eða 6 talsins. Það er ekki í beinu samhengi við það gríðarmikla fé sem Stoðir hafa yfir að ráða til fjárfestinga um þessar mundir.

Ari Fenger (40) Forstjóri Nathan og Olsen. Ari er jafnframt formaður viðskiptaráðs og situr í stjórn Ameríska-Íslenska viðskiptaráðsins (AMÍS). Ari er einn af eigendum rekstrarfélagsins 1912 ehf sem á og rekur Nathan og Olsen, Ekruna og Emmessís. Þá eru félög í eigu Ara og ættingja hans þátttakendur í víðtækum fjárfestingum á hlutabréfamarkaði. Ari tók mjög ungur við fjölskyldufyrirtækinu við ótímabært fráfall föður síns. Hann er sagður hafa byggt það upp af miklum dugnaði, seiglu og útsjónarsemi og sé harðduglegur maður með mikla þekkingu, tengsl og innsæi sem láti verkin tala. Starfsmenn Ara hjá heildsölunni bera honum einnig afar vel söguna sem stjórnanda.

Ari Guðjónsson (31), yfirlögfræðingur Icelandair Group. Ari hóf fyrst störf á lög­fræðisviði Icelanda­ir Group sam­hliða há­skóla­námi árið 2010, og gegndi í kjölfarið starfi staðgeng­ils yf­ir­lög­fræðings. Hann lauk laganámi frá Háskóla Íslands og LLM gráðu frá Col­umb­ia Law School, þar sem hann hlaut Har­l­an Fiske Stone Schol­ar viður­kenn­ingu fyr­ir góðan náms­ár­ang­ur. Þá hefur hann öðlast héraðsdóms­lögmannsréttindi. Ari hefur staðið í ströngu að undanförnu eins og margir aðrir stjórnendur Icelandair og öðlast dýrmæta reynslu sem nýtast mun í framtíðinni.

Arnar Gauti Reynisson (39) framkvæmdastjóri Heimavalla. Gauti, eins og hann er jafnan kallaður, er iðnaðarverkfræðingur frá University of Minnesota og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Hann var áður fjármálastjóri Heimavalla og hefur tekið virkan þátt í uppbyggingu félagsins á síðastliðnum árum. Áður en Gauti hóf störf hjá Heimavöllum starfaði hann sem sérfræðingur í markaðsviðskiptum hjá Íslandsbanka.

Arnar Kristinn Þorkelsson (38) fjármálastjóri Nox Medical. Arnar er endurskoðandi og viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Hann hóf feril sinn hjá EY og vann sig upp í stjórnendastöðu þar áður en hann skipti yfir tæknigeirann árið 2015 og til að annast uppgjör og fjárstýringu hjá CCP. Arnar var búinn að vera í þrjú og hálft ár hjá CCP þegar honum bauðst að gerast fjármálastjóri í öðru tæknifyrirtæki, Nox Medical. Arnar kom á árum áður að handboltaþjálfun hjá Gróttu og er í dag stjórnarmaður og gjaldkeri HSÍ.

Árni Sigurðsson (37), framkvæmdastjóri stefnumótunar og stefnumarkandi rekstrareininga Marel. Árni ber m.a ábyrgð á yfirtökum og sölum ásamt því að viðhalda og bæta samkeppnisstöðu Marel. Áður en hann gekk til liðs við Marel vann hann fyrir AGC Partners í London og starfaði hjá Landsbankanum og kom þar meðal annars að ráðgjöf við yfirtöku Marels á Stork Systems. Árni er með MBA gráðu frá Harvard Business School og B.S gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Árni var lykilmaður í skráningu Marels á markað og margir telja hann mögulegan arftaka núverandi forstjóra ef Árni Oddur Þórðarson skyldi einhvern tíma ákveða að hætta í því starfi og verða stjórnarformaður Marels á ný.

Árni Jón Pálsson (30), sjóðsstjóri Alfa Framtaks. Árni starfaði áður hjá Arctica Finance og þar áður hjá Landsbankanum. Árni Jón er með BSc gráður í viðskiptafræði og fjármálaverkfræði (með láði) frá Háskólanum í Reykjavík. Árni er í dag bæði stjórnarformaður Borgarplasts og Málmsteypu Þorgríms Jónssonar fyrir hönd Alfa Framtaks. Hann sat í stjórn Heimavalla en gekk úr henni nýverið við yfirtöku norskra fjárfesta. Árni þykir mjög efnilegur stjórnandi af þeim sem til þekkja en hógvær framkoma í bland við ákveðni og góða greind eru nefndir á meðal hans helstu kosta.

Ásgeir Helgi Reykfjörð (38), aðstoðarbankastjóri Arion. Áður starfaði Ásgeir sem framkvæmdarstjóri fyrirtækjasviðs Kviku banka. Hann starfaði einnig hjá MP banka sem yfirlögfræðingur og þar áður hjá LOGOS lögmannsþjónustu og hjá Straumi fjárfestingarbanka. Hann var einnig meðlimur í framkvæmdahópnum sem hélt utan um losun fjármagnshafta með samningum við erlenda kröfuhafa. Ásgeir er með lögmannsréttindi og hefur lokið lagaprófi frá Háskólanum í Reykjavík. Ásgeir er uppalinn á Akranesi, var virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins og er eldri bróðir Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Bergrún Björnsdóttir (38), er í dag forstöðumaður stafrænnar vegferðar hjá Bláa lóninu en sinnti áður viðskiptaþróun hjá lóninu. Bergrún starfaði áður hjá Landsbréfum, Horni fjárfestingafélagi og Kaupþingi við greiningar og sjóðsstjórn. Hún situr í dag m.a. í stjórn Laugarvatn Fontana, VÖK Baths og Mývatn Nature Baths. Bergrún er með Bsc. í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík. Bergrún er einnig varamaður í stjórn Bláa lónsins og nýtur mikils trausts helstu eigenda og stjórnenda lónins.

Davíð Þorláksson (39), for­stöðumaður sam­keppn­is­hæfnisviðs Sam­taka at­vinnu­lífs­ins. Hann var áður yf­ir­lög­fræðing­ur Icelanda­ir Group, fram­kvæmda­stjóri fast­eigna­fé­lags­ins Lind­ar­vatns, yf­ir­lög­fræðing­ur fjár­fest­inga­bank­ans Ask­ar Capital og lög­fræðing­ur Viðskiptaráðs Íslands. Davíð lauk embætt­is­prófi í lög­fræði frá Há­skóla Íslands árið 2006, varð héraðsdóms­lögmaður árið 2009 og er að auki með MBA-gráðu frá London Bus­iness School. Davíð hefur lengi verið á vettvangi í fremstu röð atvinnulífsins og gæti mjög líklega átt eftir að taka við enn stærri verkefnum á næstu árum.

Edda Rut Björnsdóttir (39), framkvæmdastjóri Mannauðs- og samskiptasviðs Eimskips en auk þeirra málaflokka tilheyra markaðsmálin líka sviðinu. Edda Rut starfaði áður sem forstöðumaður á fyrirtækja- og fjárfestingasviði Íslandsbanka. Hún fór með Vilhelm Þorsteinssyni yfir í Eimskip þegar hann kom frá Íslandsbanka til að taka við forstjórastólnum. Edda Rut er með BSc. í viðskiptafræði með áherslu á tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur síðan einnig tekið yfir mannauðssvið félagsins. Edda Rut er sögð eldklár, kraftmikil og öflugur leiðtogi með gríðarlega útgeislun og persónutöfra. Líklegt sé að hún eigi eftir að fá enn stærri tækifæri í framtíðinni.

Edda Hermannsdóttir (34), forstöðumaður samskipta, greiningar og markaðsmála hjá Íslandsbanka. Edda var áður sam­skipta­stjóri bank­ans og aðstoðarrit­stjóri og blaðamaður hjá Viðskipta­blaðinu. Þessu til viðbótar hefur hún verið dagskrárgerðarmaður hjá RÚV og gefið út tvær bækur. Edda er hag­fræðing­ur frá Há­skóla Íslands og hefur lokið stjórn­un­ar­námi í IESE í Barcelona. Hún er algjör hamhleypa þegar hún tekur sér eitthvað fyrir hendur og er án efa ein best tengda kona landsins. Hún varð skjótt aðstoðarritstjóri Viðskiptablaðsins eftir ráðningu þangað inn og fer svo til Íslandsbanka og vann sig upp þar mjög hratt. Leiðir nú samskipti, greiningar, markaðsmál og fræðslu bankans og er mikill áhrifavaldur innan bankans og utan. Gríðarsterk í samskiptum og framkomu.

Edda Sif Pind Aradóttir (39) Framkvæmdastjóri Carbfix, dótturfélags OR. Edda útskrifaðist með meistaragráðu í efnaverkfræði úr Háskóla Íslands og er jafnframt með doktorspróf í efnafræði frá sama skóla. Edda hefur yfir 15 ára reynslu af stjórnun, rannsóknum og nýsköpun tengdum kolefnisförgun og geymslu, endurnýjanlegri orku og þróun hermilíkana. Hún er meðhöfundur ríflega 20 alþjóðlegra ritrýndra vísindagreina sem birst hafa meðal annars í tímaritunum Science og Nature Communications. Edda Sif hefur vakið athygli út fyrir landsteinanna að undanförnu fyrir rannsóknir sínar og er blanda af vísindamanni og stjórnanda.

Eyrún Jónsdóttir (40), forstöðumaður leikjaútgáfu hjá CCP. Hún starfaði áður m.a. hjá OZ, Ígló og Indí og LazyTown. Hún er með B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði og hagfræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu frá Copenhagen Business School. Eyrún þykir skipulögð, fókuseruð og góð í teymisvinnu. Það var hjá LazyTown sem Eyrún fékk fyrst stjórnunarreynslu og í kjölfarið tók hún að sér stjórnunarstörf hjá nokkrum sprotafyrirtækjum. Eyrún er í dag lykilstjórnandi hjá CCP en fyrirtækið hefur framleitt nokkra stjórnendur á síðustu árum sem hafa farið í mikilvægar stjórnunarstöður hjá stærstu leikjaframleiðendum heims, bæði konur og karla.

Fannar Örn Þorbjörnsson (39), framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Securitas. Fannar er með Bsc gráðu í iðnaðarverkfræði og mastersgráðu í stjórnun frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst. Hann starfaði áður í mörg ár hjá Vodafone, meðal annars sem forstöðumaður fyrirtækjarsviðs og sat í stjórn Vodafone í Færeyjum. Þaðan þekkti Ómar Svavarsson forstjóri Securitas til starfa Fannars og réði hann fyrst sem yfirmann öryggissviðs Securitas og síðan í núverandi starf. Þess má geta að Fannar var öflugur handboltamaður á sínum yngri árum.

Friðbjörn Ásbjörnsson (38), framkvæmdastjóri FISK Seafood. Hann starfaði áður sem framkvæmdastjóri Soffaniasar Cecilssonar hf. og framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Snæfellsbæjar. Hann er auk þess stjórnarformaður útgerðarfélagsins Nesvers. Friðbjörn hefur að mestu flogið undir radar í viðskiptalífinu enda búsettur á Grundarfirði og kemur að sögn ekki til Reykjavíkur nema eiga þangað brýnt erindi. Það eru þó fáir sem hefur verið treyst fyrir meiri ábyrgð í íslensku atvinnulífi frá unga aldri. Nú síðast FISK Seafood en það er eitt stærsta útgerðarfyrirtæki landsins og eigandinn (Kaupfélag Skagfirðinga) setti í nóvember 2018 ábyrgðina á herðar Friðbjörns að taka við af Jóni Eðvald Friðrikssyni sem var búinn að stýra félaginu mjög lengi. Friðbjörn er sagður algert séní þegar kemur að útgerð fiskiskipa og það eru fáir sem vita meira um íslenska aflamarkskerfið.

Gunnar Egill Sigurðsson (40), framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa. Gunnar er menntaður viðskiptafræðingur frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst og situr í stjórn Samtaka verslunar og þjónustu. Gunnar hefur unnið sig upp innan Samkaupa og var meðal annars áður framkvæmdastjóri Nettó í nokkur ár. Gunnar hefur mikinn áhuga á stangveiði og býr ásamt fjölskyldu sinni í Reykjanesbæ. Hann var orðaður við forstjórastól Haga nýverið áður en Finnur Oddsson settist í hann. Gunnar þykir viðkunnanlegur og duglegur og vilja margir sjá hann fá frekari tækifæri.

Gréta María Grétarsdóttir (40), fyrrverandi framkvæmdastjóri Krónunnar. Hún var áður fjármálastjóri Festi, forstöðumaður hagdeildar Arion banka og sérfræðingur hjá Seðlabanka Íslands og Sparisjóðabankanum. Hún hefur einnig sinnt stundakennslu við verkfræðideild Háskóla Íslands og við MPM-nám Háskólans í Reykjavík. Gréta er með B.Sc. og meistaragráðu í verkfræði frá Háskóla Íslands. Gréta er umtöluð sem góður stjórnandi hvort sem rætt er við fyrrum samstarfsmenn hennar hjá Krónunni eða í Arion banka og hún mun án efa taka við nýju stjórnunarstarfi í viðskiptalífinu á næstunni.

Gróa Björg Baldvinsdóttir (34), yfirlögfræðingur og í framkvæmdastjórn hjá Skeljungi. Gróa er einnig regluvörður og ritari stjórnar félagsins. Áður hún kom til Skeljungs starfaði Gróa sem lögmaður hjá Landslögum lögfræðistofu. Gróa lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hún er einnig með málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi. Gróa er lykilmanneskja hjá Skeljungi og nýtur virðingar á meðal samstarfsfólks. Hún hefur orð á sér fyrir dugnað, góða samskiptahæfileika og þykir vera fljót að setja sig inn í flókin mál.

Helga Óskarsdóttir (37), sjóðsstjóri í skulda­bréf­a­stýr­ingu hjá Íslandssjóðum. Hún starfaði áður hjá Íslands­banka og for­ver­um hans, lengst af við verðbréfamiðlun en einnig í af­leiðudeild. Helga er með B.Sc.-gráðu í iðnaðar­verk­fræði frá Há­skóla Íslands og hef­ur lokið prófi í verðbréfaviðskipt­um. Hún þykir öguð og fókuseruð og hafa allt sem prýða þarf góðan stjórnanda í fjármálageiranum.

Hildur Einarsdóttir (37), forstöðumaður vöruþróunar hjá Össuri (VP of strategy&operations). Hún lauk B.Sc.-námi í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands, og er með meist­ara­gráðu í raf­magns- og lífeðlis­fræði frá Im­per­ial Col­l­e­ge í London. Hún vann í líf­tæknifyr­ir­tæki í London í þrjú ár og flutti síðan heim og hóf störf hjá Öss­uri. Hún hefur fengið hraðan framgang síðan hún kom til Össurar fyrst árið 2009 og er spáð enn frekari frama á næstu misserum. Hildur hefur verið eitt af helstu andlitum Össurar á sviði vísinda og þróunar og hefur verið fjallað um störf hennar í erlendum fjölmiðlum.

Ingólfur Jóhannsson (30), forstöðumaður fjármála og innheimtu hjá Kaupfélagi Skagfirðinga (KS). Hann starfaði áður hjá Landsbankanum. Ingólfur er með B.Sc. í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Ingólfur hefur vakið athygli margra enda með ábyrgð á gríðarmiklum umsvifum sem fjármálastjóri Kaupfélags Skagfirðinga. Margir spá honum enn stærri hlutverki í framtíðinni. Annað hvort innan Kaupfélagsins eða hjá öðrum innlendum félögum í sjávarútvegi eða iðnaði í krafti þeirrar reynslu sem hann hefur öðlast hjá KS.

Jens Þórðarson (38) framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs Icelandair. Jens tók við starfi framkvæmdastjóra flugrekstrarsviðs í janúar 2018 eftir að hafa starfað sem framkvæmdastjóri tæknisviðs flugfélagsins allt frá árinu 2011. Hann hefur starfað hjá Icelandair frá árinu 2006, fyrst sem aðstoðarmaður framkvæmdastjóra hjá ITS, dótturfélagi Icelandair. Eftir það var hann forstöðumaður fjármála og rekstrar á tæknisviði Icelandair frá 2007 til 2010 en þá tók hann við starfi forstöðumanns varahluta- og innkaupadeildar. Jens er iðnaðarverkfræðingur og með M.Sc. gráðu frá Háskóla Íslands. Jens hefur verið í eldlínunni í ýmsum málum og hefur verið sendur til að svara fjölmiðlum um málefni flugflota Icelandair og flughæfni Boeing 737MAX flugvélanna sem fyrirtækið ákvað að skipta yfir í fyrir nokkrum árum en sem hafa ekki mátt fljúga að undanförnu. Jens er vel liðinn meðal samstarfsfólks og annarra. Hann er vinmargur og syngur í karlakórnum Esju, þegar ekki eru krísur í flugbransanum sem er reyndar sjaldgæft ef miðað er við undanfarin misseri.

Kristbjörg M Kristinsdóttir (40) starfandi framkvæmdastjóri Stefnis. Kristbjörg er með MIB gráðu frá Háskólanum í Melbourne þar sem hún sinni einnig rannsóknum og kennslu og Bsc. í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Kristbjörg þykir mjög stefnumiðuð í allri hugsun, hún er sögð sjá tvo leiki fram í tímann og sé bæði skapandi og víðsýn í því hvernig hún sér framtíðina mótast. Kristbjörg situr í stjórn erlends athafnasjóðs og hefur gegnt fjölmörgum stjórnartengdum verkefnum í tengslum við starf sitt hjá Stefni. Kristbjörg hefur verið leiðandi í innleiðingu ábyrgra stjórnarhátta hjá Stefni og gegnir nú um stundir varaformennsku í IcelandSIF — samtaka um ábyrgar fjárfestingar.

Kristrún Frostadóttir (32) aðalhagfræðingur Kviku banka. Hún starfaði áður hjá Viðskiptaráði og banda­ríska fjár­fest­ing­ar­bank­an­um Morg­an Stanley. Hún hefur einnig unnið sem blaðamaður á Viðskipta­blaðinu, sem hag­fræðing­ur í starfs­hóp á veg­um for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins og sem hag­fræðing­ur í grein­ing­ar­deild Ari­on banka. Kristrún er með B.S.-próf í hag­fræði frá Há­skóla Íslands, meist­ara­gráðu í alþjóðafræðum frá Yale-há­skóla í Banda­ríkj­un­um og meist­ara­gráðu í hag­fræði frá Bost­on-há­skóla. Kristrún er lykilmanneskja hjá Kviku og henni standa að sögn kunnugra margar dyr opnar. Eina spurningin er hvaða leið hún muni sjálf velja sér. Hvort það verði á sviði efnahagsmála eða stjórnunar og viðskipta.

Logi Karlsson (39), forstöðumaður viðskiptastjórnunar og sölu á einstaklingssviði hjá Íslandsbanka. Hann var áður markaðsstjóri hjá Arctic Adventures Iceland auk þess að starfa við ráðgjöf og rannsóknir. Logi er með BA í sálfræði frá Háskóla Íslands, MBA frá Sydney Business School í Ástralíu og doktorsgráðu í markaðsfræði frá sama skóla. Hann skipar sér þannig í hóp mjög fárra Íslendinga með doktorsgráður í markaðsfræðum. Logi þykir mjög sleipur í tölfræði og markaðsgreiningum og hefur kennt bæði við Háskóla Íslands og háskóla í Sviss samhliða vinnu.

Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir (32) er einn af meðeigendum Deloitte ehf. og sviðsstjóri fjármálaráðgjafar þar sem hún hefur veitt ráðgjöf til margra stærstu félaganna á íslenskum markaði. Lovísa þykir ein öflugasta unga konan sem starfar á íslenskum fjármálamarkaði og margir spá því að hún eigi glæsilegan feril framundan. Lovísa hefur lokið M.Sc. gráðu í fjármálahagfræði frá Háskóla Íslands, en hún er jafnframt með M.Acc. gráðu í reikningsskilum og endurskoðun og B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá sama skóla.

Magnús Ingi Einarsson (38), framkvæmdastjóri bankasviðs Kviku. Hann var áður framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar hjá Kviku, forstöðumaður áhættustýringar og síðar fjárstýringar Straums fjárfestingabanka og þar áður starfsmaður í áhættustýringu hjá Straumi-Burðarás. Magnús er með B.Sc. gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. gráðu í vélaverkfræði frá Virginia Tech í Bandaríkjunum. Magnús nýtur mikillar virðingar í fjármálageiranum þrátt fyrir að hann kjósi að láta ekki mikið á sér bera.

Magnús Júlíusson (34), framkvæmdastjóri Íslenskrar orkumiðlunar. Magnús starfaði áður hjá Orku náttúrunnar og Orkustofnun. Hann er einnig stundakennari við Háskólann í Reykjavík og situr þar að auki í starfshópi um gerð orkustefnu. Magnús er með B.Sc. í vélaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og er með M.Sc. í vélaverkfræði frá Kon­ung­lega tækni­skól­an­um í Stokk­hólmi. Magnús hefur reglulega haldið námskeið í stærðfræði fyrir háskólanema. Honum er lýst sem duglegum og sjálfstæðum stjórnanda. Hann er stofnandi fyrirtækisins ásamt Bjarna Ármannssyni, en það hóf fyrir fyrir þremur og hálfu ári síðan í að selja rafmagn, aðallega til fyrirtækja. Nýverið keypti Festi svo Íslenska orkumiðlun á hátt í milljarð króna en fyrirtækið býður nú ódýrasta rafmagn á Íslandi, skv. samanburði á Aurbjorg.is. Við kaup Festis hefur Magnús fengið aukin stjórnunarleg verkefni og þeir sem til þekkja telja hann munu vaxa mikið á komandi árum.

María Björk Einarsdóttir (31), framkvæmdastjóri Ölmu leigufélags. María starfaði áður sem sérfræðingur hjá GAMMA og Íslandsbanka. María Björk er með B.Sc.-gráðu í rekstrarhagfræði frá HR og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. María Björk er að mati þeirra sem til þekkja afar fókuseruð og efnilegur stjórnandi sem muni fara langt. Hún hafi sýnt mikla aðlögunarhæfni á erfiðum markaði og tekist á við á tímabili mjög gagnrýna umræðu um leigufélögin með yfirvegun og auðmýkt. Alma hefur undir stjórn Maríu mætt gagnrýninni og boðið valkosti sem henta ólíkum hópum leigjenda.

Nikhilesh Mohanty (38), forstöðumaður fjárhagsáætlanagerðar hjá Össuri. Hann starfaði áður hjá McKinsey & Company í Bretlandi um árabil og þar áður hjá KPMG og Micron Technology. Nikhilesh er með B.E. gráðu í verkfræði frá Háskólanum í Mumbai, M.Sc. í rekstrarstjórnun frá Clemson University og MBA frá Oxford-háskóla en það var í tengslum við lokaverkefni sitt frá þeim skóla sem Nik kom til Íslands og féll fyrir landi og þjóð.

Ólöf Jónsdóttir (40), framkvæmdastjóri Lykils sem er hluti af TM. Ólöf var áður forstöðumaður hjá Kviku banka og þar áður framkvæmdastjóri hjá Virðingu. Ólöf er véla- og iðnaðarverkfræðingur frá Háskóla Íslands og hefur lokið meistaranámi í aðgerðarfræðum frá London School of Economics. Ólöf þykir hafa farið vel af stað sem framkvæmdastjóri Lykils eftir ein stærstu fyrirtækjakaup síðasta árs á Íslandi.

Páll Ragnar Jóhannesson (39), framkvæmdastjóri fjármálasviðs Oculis. Hann var áður hjá Íslandsbanka í fyrirtækjaráðgjöf og viðskiptaþróun og síðar starfaði hann sem yfirmaður fyrirtækjasviðs Straums fjárfestingarbanka. Páll er með er með B.Sc. í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands, M.Phil í stjórnunarfræði frá Háskólanum í Cambridge og er löggiltur verðbréfamiðlari á Íslandi. Páll þykir glöggur og yfirvegaður stjórnandi og hefur unnið að uppbyggingu Oculis af miklum metnaði en fyrirtækið er í dag eitt mest spennandi hátæknifyrirtæki landsins.

Sigrún Helga Jóhannsdóttir (40), yfirlögfræðingur hjá VÍS. Sigrún var áður meðeigandi hjá Advel lögmönnum og lögfræðingur hjá Eik fasteignafélagi. Hún er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Sigrún var á tíma sínum sem lögmaður ein fremsta konan í fyrirtækjalögfræði hér á landi og var lykilmanneskja í skráningarferli tveggja stórra fyrirtækja. Hún hefur verið ráðgjafi fyrirtækja í mörgum ólíkum geirum og hefur mjög breiða þekkingu og nýtur trausts allra þeirra sem hún hefur starfað fyrir í viðskiptalífinu.

Sindri Már Kolbeinsson (32), fjármálastjóri Klasa. Sindri Már starfaði áður hjá Credit Suisse, PwC og Citibank í Sviss. Sindri Már er með B.Sc. í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. í stjórnun, tækni og hagfræði frá ETH í Zürich. Klasi er fjársterkt fasteignafélag sem er byggja upp íbúðar- og atvinnuhúsnæði á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ. Sindri á tvíburabróður sem er læknir í sérnámi í Bandaríkjunum og spiluðu þeir bræður báðir knattspyrnu með Aftureldingu á sínum yngri árum.

Þóra Eggertsdóttir (39), forstöðumaður innanlandsflugs hjá Icelandair. Fyrir sameininguna við móðurfélagið sinnti Þóra starfi framkvæmdastjóra fjármála, rekstrar og UT hjá Air Iceland Connect. Hún var áður forstöðumaður fjármálastýringar og áhættustýringar hjá Landsneti og verkefnastjóri í fjárstýringu hjá Landic Property. Einnig var hún stofnandi og fjármálastjóri Puzzled by Iceland. Þá starfaði hún einnig í Japan hjá fyrirtækjunum Morgan Stanley Capital KK, Daimler Chrysler, Japan Holding Ltd. og Nissan Motor Co. Ltd. Þóra lauk námi í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík, nam markaðsfræði við EADA Business School í Barcelona, lauk verðbréfamiðlun frá HR og lauk einnig MBA námi í stjórnun og stefnumótun við sama skóla. Þóra vann náið með Boga Nils Bogasyni þegar hann var fjármálastjóri Icelandair og hélt því áfram eftir komu Evu Sóleyjar Guðbjörnsdóttur. Hefur hún m.a. tekið þátt í að undirbúa uppgjör félagsins og hefur eitthvað komið að stórum fjármögnunarverkefnum samstæðunnar. Þóra tók nýverið sæti í stjórn Birtu lífeyrissjóðs.

Þuríður Björg Guðnadóttir (31), framkvæmdastjóri hjá Nova. Þuríður stýrir sölu og þjónustu við einstaklinga en hún hefur starfað hjá Nova frá upphafi starfsferils síns. Fyrst sem sölu- og þjónusturáðgjafi og síðar sem viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði. Þuríður tók við stöðu sem sölu- og þjónustustjóri Nova árið 2014 og er nú yfir allri sölu og þjónustu til einstaklinga og situr í framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Þuríður er með B.Sc-gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík en hún hefur einnig lokið námi í stjórnendamarkþjálfun frá sama skóla. Þuríður leikur lykilhlutverk í að viðhalda hinni góðkunnu fyrirtækjamenningu Nova og virkja hóp ungs starfsfólks NOVA til að veita viðskiptavinum fyrirtækisins ofurþjónustu. Hún hefur öðlast mikla reynslu í að hvetja og þjálfa starfsfólk, hæfileikar sem munu án efa gera hana eftirsótta sem stjórnanda á neytendamarkaði á næstu árum.

— -

1) Listinn er í stafrófsröð.

2) Birt með fyrirvara um villur. Umsagnir eru byggðar á okkar eigin heimildum, ummælum tilnefningaraðila og opinberum upplýsingum og fréttum.

--

--

Andres Jonsson
Gott að frétta

Almannatengsl og stjórnendaleit hjá Góðum samskiptum.