40/40 listinn fyrir árið 2024

Andres Jonsson
Gott að frétta
Published in
26 min read5 days ago
Þau sem enduðu á lista Góðra samskipta yfir 40 stjórnendur 40 ára og yngri í ár

Meðfylgjandi er listi Góðra samskipta yfir 40 stjórnendur, 40 ára og yngri, sem spáð er frekari frama í íslensku viðskiptalífi. Listinn er gefinn út annað hvort ár og kemur nú út í fjórða sinn.

Fyrri lista má sjá hér, hér og hér.

Listinn er tekinn saman til að lyfta fólki sem hefur staðið sig vel í því vandasama hlutverki að vera stjórnandi en einnig til að gefa vísbendingu um hverjir gætu átt eftir að taka við æðstu stöðum í íslenskum fyrirtækjum á næstu árum. Vonandi getur hann reynst fleirum gagnlegur en okkur.

Listinn inniheldur fjölmargar fyrirmyndir fyrir það unga fólk sem er að útskrifast úr námi í dag og hefur áhuga á að sækjast eftir ábyrgðarmiklum og krefjandi störfum í viðskiptalífinu en skortir e.t.v. haldgóðar upplýsingar um hvernig það geti unnið sig upp í þessi störf. Listinn getur reynst hjálplegur við að sjá hvaða leið aðrir hafa farið og hvaða tækifæri þetta fólk hefur fengið til að sanna sig á leiðinni.

Við val á listanum horfðum við til þeirra sem eru 40 ára og yngri og náð hafa langt í kröfuhörðu umhverfi eða sinna stjórnunarstöðum sem fela í sér mikla ábyrgð innan íslenskra fyrirtækja. Ekki var eingöngu horft til mannaforráða heldur líka til þess hvort um eitt af lykilverkefnum viðkomandi fyrirtækis sé að ræða. Einnig völdum við í nokkrum tilfellum fólk sem hefur samkvæmt okkar upplýsingum stærra hlutverk innan viðkomandi fyrirtækis en starfstitill þess gefur til kynna. Þá horfum við að lokum til þess hvort við teljum líkur til að viðkomandi hafi metnað og getu til að takast á hendur enn ábyrgðarmeiri störf í framtíðinni. Þá reyndum við að tryggja ákveðna dreifingu yfir atvinnugreinar og sérsvið.

Samhliða 40/40 listanum birtum við svokallaðan vonarstjörnulista en á honum er fólk sem nýverið hefur farið að vekja athygli sem stjórnendur og framtíðarefni í atvinnulífinu. Listinn birtist á morgun.

Til greina á listana komu aðeins stjórnendur innan íslenskra fyrirtækja. Við litum alfarið fram hjá þeim sem stýra eigin fyrirtækjum, frumkvöðlum, ráðgjöfum, Íslendingum sem starfa hjá erlendum fyrirtækjum og stjórnendum í opinbera geiranum.

Hér má hlusta á þrjú hlaðvörp þar sem rætt er nánar um hvern og einn á 40/40 listanum.

Fyrsti þáttur.
Annar þáttur.
Þriðji þáttur.

Listinn er í stafrófsröð.

Armina Ilea (34), alþjóðlegur markaðsstjóri stoðtækja — Embla Medical

Armina kom til liðs við Emblu Medical sem alþjóðlegur markaðsstjóri stoðtækja Össurar árið 2023. Áður vann hún meðal annars að viðskiptaþróun og markaðs- og vörumerkja málum hjá Dohop, OZ og Netapp. Armina vakti athygli hjá þessum fyrirtækjum og á meðal íslensks markaðsfólks fyrir mjög mikla getu á sviði nútíma markaðssetningaraðferða og einnig fyrir djúpan skilning á tækni. Armina hefur einmitt verið virk í samtökunum Konur í tækni. Hún er upprunin í Rúmeníu og er með B.Sc. gráðu í hagfræði og meistaragráðu í vörumerkjastjórnun og samskiptum frá Copenhagen business school en kom hingað til lands upphaflega í gegnum skiptiprógram alþjóðasamtaka viðskiptafræðinema (Aiesec). Armina er þekkt fyrir að vera mikill talsmaður vörumerkjavirðis og predikar gjarnan að vörumerki sé eina samkeppnisforskotið sem hægt sé að viðhalda um aldur ævi á meðan hægt sé að endurskapa eða afrita allar vörur og tækni. Hjá Emblu hefur Armina komið að nokkrum stórum markaðssóknarherferðum, en það getur tekið nokkur ár að koma nýrri vöru fyrir á markaðnum sem Össur starfar á. Armina er gott dæmi um nýja kynslóð innflytjenda sem hefur reynst verðmætur liðsauki fyrir íslensk fyrirtæki sem starfa á alþjóðlegum markaði eða hyggjast sækja þangað.

Arna Harðardóttir (33), framkvæmdastjóri Helix Health

Arna hefur starfað sem framkvæmdastjóri Helix Health frá 2023 en það er heilbrigðistæknifyrirtæki í eigu Origo en félagið setti allar heilbrigðislausnir inn í þetta nýja félag. Arna stýrir stefnumörkun fyrirtækisins ásamt daglegum rekstri en undir henni starfar 51 manna teymi sérfræðinga, bæði hér á landi og erlendis. Þetta eru mest hugbúnaðarsérfræðingar en einnig hjúkrunarfræðingar, þjónustusérfræðingar, vörustjórar og sölu/markaðssérfræðingar. Meðal þess sem þessi hópur hefur komið að á síðustu árum er þróun Heilsuveru sem allir Íslendingar nota. Næsta skref er að fara á alþjóðlegan markað með lausnir Helix fyrir lyfjagjafir, heimahjúkrun, hjúkrunarheimili og fjarlæknisþjónustu. Áður hafði Arna starfað hjá Origo í rúmlega 4 ár þar sem hún stýrði meðal annars sölu og markaðsmálum heilbrigðistæknisviðs Origo, sem þá var stærsta hugbúnaðarsvið Origo. Arna er með B.Sc. gráðu í lífeðlisverkfræði og mastersgráðu í viðskiptum og stjórnun frá Háskólanum í Reykjavík. Arna þykir sterkur talsmaður og strategískur stjórnandi sem leggi áherslu á að sem flestir starfsmenn komi að stefnumótun félagsins og taki þátt í að keyra stefnuna og aðstoði félagið við að vera í sífelldri endurnýjun og umbyltingu, sem sé eina leiðin til að sigra á sviði hugbúnaðarlausna.

Arndís Huld Hákonardóttir (39), forstöðumaður brands, markaðsmála og almannatengsla Bláa lónsins

Arndís Huld með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Copenhagen business school og meistarapróf í strategic market creation. Hún hefur starfað hjá Bláa lóninu í fjögur ár en tók við stöðu markaðsstjóra fyrirtækisins í apríl 2021. Arndís Hyld vann fyrir auglýsingastofu Dell í Danmörku og í teymi sem þjónaði markaðsmálum Dell um allan heim. Arndís vann sig upp í hlutverk teymisstjóra en hafði áður starfað hjá snyrtivöruframleiðandanum Loreal’ sem vöruflokkastjóri. Arndís er búin að vera í markaðsmálum, PR og vörumerkjastjórnun allan sinn starfsferil. Fyrst eftir að Arndís flutti til landsins starfaði hún um hríð að markaðsmálum hjá Sýn og varð síðar tengill hjá Brandenburg áður en hún fór til Bláa lónsins. Bláa lónið er eitt öflugasta ferðaþjónustufyrirtæki landsins með á annan tug dótturfélaga, bæði hótel, baðlón víða um land og þróunarverkefni í grænni ferðaþjónustu. Fyrirtækið stefnur að skráningu á markað á næstu misserum og er í dag eitt verðmætasta óskráða félag landsins. Bláa lónið er þekktasta vörumerki Íslands utan landsteinanna samkvæmt mælingum og því er um spennandi verkefni sem Arndís fæst við í dag. Hún heyrir beint undir Sigurð Þorsteinsson framkvæmdastjóra hönnunar og brands Bláa lónsins og stýrir 12 manna markaðs- og PR teymi.

Arnþór Jóhannsson (36), framkvæmdastjóri sölusviðs CCEP

Arnþór hefur starfað sem framkvæmdastjóri sölusviðs hjá CCEP frá árinu 2023. Hann er með B.Sc. í fjármálum ásamt því að hafa lokið MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík. Arnþór starfaði áður hjá Vistor innan Veritas samstæðunnar. Hann þykir vera öflugur stjórnandi sem hafi alla burði til að ná æðstu metorðum í viðskiptalífinu. Það er áskorun að stýra sölu CCEP hér á landi en mikil samkeppni ríkir á drykkjarvörumarkaði um þessar mundir, hvort sem litið er til dagvörumarkaðar eða veitingahúsa. Færri og stærri viðskiptavinir gera kröfur um sífellt hagstæðara verð. Arnþór stýrir 60 manna sviði hjá CCEP en þar af eru 7 stjórnendur sem heyra beint undir hann. Arnþór leggur áherslu á að fólk njóti sjálfstæðis í störfum sínum en á sama tíma séu opin samskipti um það sem er í gangi hverju sinni.

Ásbjörn Guðmundsson (39), framkvæmdastjóri fjármála ÍAV

Ásbjörn starfar sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Íslenskum aðalverktökum en þetta gamalgróna verktakafyrirtæki veltir á bilinu 15–20 milljörðum króna. Ásbjörn stýrir 12 manna fjármálasviði sem annast uppgjör, umsjón og eftirlit með fjárhagslegri framvindu verkefna félagsins. Ásbjörn er aðgengilegur og jákvæður stjórnandi sem hvetur samstarfsfólk sitt til dáða. Hluti af verkefnum hans er upplýsingagjöf til svissnesks eiganda félagsins, upplýsingaöryggi, sjálfbærni, umsjón með vöruhúsi gagna og skattamál.

Auður Inga Einarsdóttir (38), framkvæmdastjóri innviðalausna Advania

Auður starfar sem framkvæmdastjóri innviðalausna hjá Advania en hún tók við því starfi 2023, en áður var hún m.a. forstöðumaður stafrænnar miðlunar og markaðsmála og þar áður forstöðumaður notendalausna. Auður hefur alls starfað hjá Advania í 12 ár og nýtur mikil trausts innan fyrirtækisins. Innviðalausnir er 50 manna tekjusvið sem ber ábyrgð á vörustýringu, sölu og þjónustu á öllum vélbúnaði, hvort sem það eru tölvur, netbúnaður eða gagnaverslausnir. Einnig rekur sviðið verslunarlausnir og þjónustar nær alla sjálfsafgreiðslukassa landsins og einnig hraðbanka. Auður er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði og mastersgráðu í viðskiptafræði og stjórnun. Hjá Advania er Auður þekkt fyrir að vera sífellt að horfa inn í framtíðina og skoða hvaða lausnir viðskiptavinir muni kalla á eftir 3 eða 5 ár. Hún er lausnamiðaður stjórnandi sem leggur áherslu á teymishugsun og að styðja við fólkið sitt.

Björn Brynjúlfur Björnsson (36), framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Björn Brynjúlfur tók við sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs fyrr á þessu ári en hann starfaði á sínum tíma sem hagfræðingur ráðsins fyrir u.þ.b. áratug. Hann starfaði í millitíðinni hjá McK­insey & Company í Kaup­manna­höfn og í grein­ing­ar­deild fjár­fest­ing­ar­bank­ans Credit Suisse í London. Hann hefur á síðustu árum starfað sem ráðgjafi fyrir fjölmörg fyrirtæki, ráðuneyti og ríkisstofnanir og hefur samhliða byggt upp tvö nýsköpunarfyrirtæki: fræðslufyrirtækið Frami.is og Moodup sem annast vinnustaðamælingar. Björn er með B.Sc.-gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc.-gráðu í fjármálahagfræði frá Oxford-háskóla. Björn Brynjúlfur er bráðgreindur og býr yfir miklum hæfileikum á ólíkum sviðum og því eru margir í viðskiptalífinu sem fylgjast spenntir með ferli hans og hvert hugur hans leitar á hverjum tíma.

Bragi Þór Antoníuson (39), framkvæmdastjóri markaðs- og vörustjórnunarsviðs BYKO

Bragi Þór tók við sem framkvæmdastjóri vörustjórnunar hjá Byko árið 2022 en vorið 2023 var ákveðið að einfalda skipurit félagsins og færa markaðsmál, vefþróun og vöruupplýsingar undir nýtt markaðs- og vörustjórnunarsvið sem Bragi Þór leiðir í dag. Sviðið sér um innflutning og birgðastýringu á öllum lagervörum BYKO auk sérpantana en aðfangakeðja BYKO er með þeim stærri og flóknari á landinu. Innkaupin nema um 20 milljörðum og 45 þúsund vörunúmerum. Sviðið telur um 50 starfsmenn, þar af 35 á skrifstofu BYKO og um 15 í vöruhúsi. Bragi er með BA gráðu í stjórmálafræði og hagfræði frá háskólanum á Bifröst og meistaragráðu í markaðssetningu og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands en árið 2021 lauk Bragi MBA námi í staðnámi við IESE Business School á Spáni.

Brian Jeffery Gross (32), forstjóri Teya

Brian er forstjóri fjártæknifyrirtækisins Teya (áður SaltPay/Borgun) hér á landi. Áður en hann fluttist hingað til lands þá starfaði Brian hjá sprotafyrirtækinu Pineapple Payments þar sem hann var framkvæmdastjóri. Þar áður (þegar hann var aðeins 21 árs) höfðu Brian og æskuvinur hans stofnað AthleteTrax sem sérhæfði sig í að bjóða fyrirtækjum í íþróttabransanum upp á greiðslumiðlun í gegnum skýið. Bæði fyrirtækin voru keypt á háar fjárhæðir.

Brian, sem kemur frá Pittsburgh, var í fríi hér á landi fyrir nokkrum árum þegr hann kynnist íslenskri konu og þau urðu ástfangin. Hann var að leita sér að verkefni sem passaði við hans sérhæfingu þegar honum bauðst starfið hjá Teya. Það er áhugavert að segja frá því að Brian er sjálfmenntaður hugbúnaðarverkfræðingur og hugbúnaðararkitekt. Hann er duglegur að gefa af sér til nærumhverfisins og hefur stutt óhagnaðardrifna aðila á borð við borgarleikhúsið í Pittsburgh og Big brother/Big sister stuðningsnetið.

Brian fjárfesti á sínum tíma í Salescloud hér á landi og þá situr hann í stjórn hjá Parka lausnum.

Egill Lúðvíksson (31), forstjóri Heimstaden

Egill Lúðvíksson tók við starfi forstjóra Heimstaden á Íslandi árið 2023 en áður hafði hann starfað hjá Heimstaden móðurfélaginu í Kaupmannahöfn frá árinu 2019 frá því áður en Heimstaden ákvað fyrst að fjárfesta hér á landi. Nú þegar íslenskir lífeyrissjóðir hafa eignast Heimstaden á Íslandi að fullu þá hefur Egill haldið stöðu sinni. Heimstaden er stærsta leigufélag landsins og framundan er mikil uppbygging þar sem fyrirhugað er að tvöfalda félagið með kaupum og byggingu nýrra íbúða. Samhliða er verið endurfjármagna og minnka skuldir félagsins. Hjá félaginu starfa aðeins 16 manns (þar fjórir stjórnendur) en efnahagsreikningurinn nemur um 75 milljörðum. Egill óx hratt á sínum tíma í starfi sínu fyrir móðurfélagið og vann beint undir stjórnanda M&A deildar félagsins. Sagt er að Ivar Tollefsen eigandi Heimstaden á heimsvísu hafi sagt að það versta við söluna á félaginu hér á Íslandi hafi verið að missa samstarfið við Egil. Egill er með B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í hagfræði og fjármálum frá Copenhagen Business School.

Elísabet Björnsdóttir (40), framkvæmdastjóri áhættustýringar Kviku banka

Elísabet hefur starfað hjá Kviku frá árinu 2021 og leiddi fjármögnun bankans en í lok síðasta árs tók hún við stöðu framkvæmdastjóra áhættustýringar og situr af þeim sökum í framkvæmdastjórn bankans. Áður starfaði Elísabet um tíu ára skeið við áhættustýringu hjá J.P. Morgan, fyrst í New York og síðar í London. Við heimkomu árið 2017 hóf Elísabet störf í fjárstýringu Landsbankans áður en hún gekk til liðs við Kviku banka.

Elíabet er byggingaverkfræðingur að mennt og lauk meistaraprófi í fjármálaverkfræði við Cornell háskóla. Auk þess hefur hún lokið prófi í verðbréfaviðskiptum og diplóma námi sem viðurkenndur stjórnarmaður. Elísabet er þekkt fyrir að vera hrein og bein í samskiptum og þykir skemmtileg og vönduð manneskja. Hún er dugleg að hvetja fólkið í kringum sig og nálgast stjórnendahlutverkið að stóru leyti sem þjónustuhlutverk til að fólkið sem hún leiðir geti skilað af sér betri vinnu og vaxið í starfi.

Erna Björk Sigurgeirsdóttir (39), framkvæmdastjóri fjármála Advania

Erna Björk hefur starfað sem framkvæmdastjóri fjármála hjá Advania síðan 2023. Áður var hún forstöðumaður fjármála hjá Sýn og fjármálasérfræðingur hjá Borgun. 600 manns starfa hjá Advania og félagið veltir 18 milljörðum króna. Erna starfar einnig náið með móðurfélaginu Advania Group, sem er með starfsemi á öllum Norðurlöndunum og Bretlandi. Erna leggur mikla áherslu á sjálfbærni í störfum sínum sem framkvæmdastjóri fjármála og að ákvarðanataka sé vel rökstudd, byggð á traustum upplýsingum og skýrri stefnu. Hún vill að undirmenn hennar finni að þeim sé treyst fyrir krefjandi verkefnum en þannig umhverfi stuðli að betri árangri fyrir alla.

Erna er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði og stjórnun frá Háskólanum í Reykjavík. Einnig hefur hún lokið meistaraprófi í endurskoðun og fjármálum frá Háskóla Íslands. Auk þess er hún með verðbréfaréttindi.

Eva Guðrún Torfadóttir (37), framkvæmdastjóri Bakkinn

Eva Guðrún er framkvæmdastjóri Bakkans vöruhótels ásamt því að sitja í framkvæmdastjórn Festi. Undir henni starfa 150 starfsmenn sem annast vöruhýsingu, pökkun, vörumerkingu og afgreiðslu á vörum fyrir viðskiptavini sem kjósa að úthýsa sinni vöruhúsastarfsemi. Félagið rekur tvö vöruhús á höfuðborgarsvæðinu þar sem önnur félög í eigu Festi — Krónan, ELKO og N1 eru lykilviðskiptavinir þess. Eva Guðrún starfaði lengi sem ráðgjafi á sviði vörustýringar og aðfangakeðju hjá danskra ráðgjafarfyrirtækinu Implement Group sem er eitt hið stærsta á Norðurlöndunum. Reynslan þaðan nýtist vel í núverandi starfi en framundan er stefnumótun um vöruhús framtíðarinnar með endurskipulagningu ferla, aukinni sjálfvirknivæðingu og hagkvæmniathugun á byggingu kælivörugeymslu til að útvíkka starfsemina.

Eva Guðrún er iðnaðarverkfræðingur frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu í rekstrarverkfræði frá DTU í Danmörku.

Guðrún Halla Finnsdóttir (40), framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Norðurál

Guðrún Halla hefur starfað í 8 ár hjá Norðuráli og verið stjórnarmaður í Samtökum iðnaðarins í tæp 6 ár. Hún tók við sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar árið 2023 en í því felst umsjón með gerð og rekstri raforkusamninga og þróunar raforkumála félagsins. Guðún Halla vinnur náið með æðstu stjórnendum Norðuráls og Century Aluminum, móðurfyrirtækis Norðuráls. Hún leggur áherslu á hreinskilni, orðheldni og vönduð vinnubrögð, bæði innan fyrirækisins og utan þess.

Guðrún Halla er með B.Sc. gráðu í aðgerðargreiningu frá Columbia háskólanum í New York og meistaragráðu í rekstrarverkfræði frá USC háskólanum í Kaliforníu.

Guðrún Ólafsdóttir (33), meðeigandi og forstöðumaður upplýsingatæknisviðs Deloitte

Guðrún hefur starfað hjá Deloitte frá árinu 2023 en þar áður var hún í 10 ár hjá Rue de Net þar sem hún gegndi ólíkum hlutverkum og vann sig upp í starfi. Guðrún stýrir í dag 50 manna teymi hjá Deloitte en upplýsingatæknisviðið er annað stærsta sviðið innan fyrirtækisins. Hún þykir sjálf afar öflugur sérfræðingur og ráðgjafi í upplýsingatækni. Guðrún er að margra mati einn mest spennandi ungi stjórnandinn í upplýsingatækni hér á landi.

Guðrún er með B.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og PMD gráðu í stjórnun frá Háskólanum í Reykjavík.

Hákon Hrafn Gröndal (36), framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingabankasviðs Arion Banka

Hákon hefur starfað hjá Arion Banka í 12 ár og tók við starfi framkvæmdastjóra árið 2022 en það var þá fyrsta stjórnunarstarf hans. Hákon tók við keflinu af Ásgeiri Helga Reykfjörð þegar Ásgeir var ráðinn forstjóri Skeljar og hefur náð eftirtektarverðum árangri. Hákon er af mörgum talinn líklegur til að taka við enn stærra hlutverki í framtíðinni. Hann er í starfi sínu ábyrgur fyrir daglegum rekstri fyrirtækjalánabókar bankans, fyrirtækjaráðgjafar og fyrirtækjatryggingum en undir hann heyra um 100 manns sem skiptast í sex teymi. Lán bankans til fyrirtækja hér heima og erlendis nema um 600 milljörðum króna sem er um helmingur af lánabók bankans.

Hákon lauk grunnnámi í fjármálum og fjármálastarfsemi frá Griffith University í Brisbane í Ástralíu og er með meistarapróf í fjármálum fyrirtækja frá Háskóla Íslands. Hann hefur einnig lokið verðbréfaréttindaprófi ásamt því að vera löggiltur fjármálaráðgjafi.

Hákon sat um tíma í stjórnum Heimsferða og Bravo Tours.

Högni Helgason (35), forstöðumaður flotastýringar Icelandair

Sem forstöðumaður flotastýringar sér Högni um að móta og viðhalda stefnu Icelandair Group flugflotamálum sem felur m.a. í sér kaup, sölu og leigu á flugvélum, ásamt fjármögnun. Í dag eru Icelandair með yfir 50 þotur og flotinn aldrei talið jafn margar vélar. Högni vinnur náið með æðstu stjórnendum félagsins en margir hagsmunaaðilar koma að flugvélaviðskiptunum og má þar nefna leiðarkerfisdeild, rekstrardeild, tæknisvið og fjármálasvið. Högni er að mati margra afar efnilegur stjórnandi sem muni ná langt. Nýverið leiddi Högni verkefni þar sem tekin var ákvörðun um framtíðarflota Icelandair sem lauk á síðasta ári með víðtækum samningum við Airbus um kaup á allt að 25 nýjum þotum á næsu árum. Sá samningur er sennilega einn stærsti viðskiptasamningur Íslandssögunnar, en hann hleypur á hundruðum milljarða króna.

Hörður Kári Harðarson (34), forstöðumaður þróunarsviðs lyfjaframleiðsluferla og lyfjaforma Alvotech

Hörður Kári er með einn lengsta starfsaldurinn hjá Alvotech en hann hóf starf þar í kjölfar náms árið 2014. Framgangur hans hefur verið hraður en Hörður Kári stýrir í dag hátt í 100 manna teymi, bæði vísindafólks og sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum líftæknilyfjahliðstæða. Hörður hefur yfirumsjón með þróunar lyfjaframleiðsluferla og lyfjaforma, ásamt að sjá til þess að þróunarvinnan uppfylli kröfur lyfjayfirvalda um allan heim þegar kemur að því að sækja um markaðsleyfi. Verkefni sviðsins felua m.a. í sér þróun frumulína, frumuræktunarferla, próteinhreinsiferla, formúleringa og áfyllinga fyrir lyfjaform. Þá sé sviðið um að prófa lyfjaframleiðsluferlið á frumstigi og annast ýmsa stoðþjónustu. Alvotech er stærsta félagið í kauphöll Íslands og yfir 800 starfsmenn starfa hjá því hér á landi. Hörður er með B.Sc. í lífefnafræði frá Háskóla Íslands ásamt meistaragráðu í lífefnafræði og líftæknifræði frá DTU í Danmörku.

Hrannar Jón Emilsson (37), útgerðarstjóri Þorbjarnar í Grindavík

Hrannar heldur utan um rekstur tveggja ísfiskstogara sem telur um 20 manna áhöfn á hvoru skipi. Þar heldur hann utan um rekstur og þjónustu, skipulag og utanumhald veiða og veiðaheimilda og viðhaldi skipa. Hrannar hefur starfað hjá Þorbirni síðan 2002 þar sem hann sinnti hlutverki háseta og verkfræðings á frystitogurum Þorbjarnar áður en hann fór stutt til starfa á bifreiðaverkstæði BL. Hann snéri aftur til Þorbjarnar árið 2012 sem innkaupastjóri og ári síðar tók hann við hlutverki útgerðarstjóra skipa félagsins. Hrannar er með skipstjórnarréttindi ásamt því að hafa lokið stjórnunarnámi í Háskólanum í Reykjavík.

Jón Árni Traustason (40), framkvæmdastjóri fjármála og greininga VÍS

Jón Árni starfar sem framkvæmdastjóri greininga hjá Vátryggingarfélagi Íslands. Áður var hann í 8 ár hjá Skeljungi sem forstöðumaður upplýsingatækni og greininga. Hjá VÍS stýrir Jón Árni störfum 16 manns í tveimur einingum, þar af eru 12 starfsmenn í fjármálum sem ber ábyrgð á reikningshaldi og uppgjörum félagsins og hins vegar 4 starfsmenn í viðskiptagreind sem ber ábyrgð á greiningum, skýrslugerð og vinnslu gagna þvert á félagið. Áhersla Jóns Árna síðustu ár hefur verið að koma gögnum betur inn í verkferli þannig að starfsfólk félagsins hafi aðgang að þeim og geti nýtt þau til ákvarðana án uppflettinga. Hann reynir að veita starfsfólki á sviði fjármála og greininga traust til að vera sjálfstætt í starfi en jafnframt að teymið geti unnið saman að stærri umbótarverkefnum. Hann leggur á að traust ríki á milli allra og að fólk hafi kjark til að vera ósammála en standi svo saman við að innleiða og framkvæma þá ákvörðun sem er tekin og vinni í átt að sameiginlegum markmiðum.

Jón hefur lokið B.Sc. prófi í stærðfræði frá Háskóla Ísland og meistaraprófi í fjármálastærðfræði frá Uppsala University í Svíþjóð.

Jón Brynjar Ólafsson (38), fjármálastjóri Héðins

Jón Brynjar Ólafsson tók nýverið við sem fjármálastjóri Héðins sem er stálsmiðja og iðnfyrirtæki sem þjónustar breiðan hóp íslenskra fyrirtækja og atvinnugreina. Jón Brynjar hefur yfirumsjón með reikningshaldi og uppgjöri, rekstrar- og fjárfestingaáætlanagerð, rekstrargreiningum o.fl. Hann trúir á beitingu Beyond Budgeting aðferðafræðarinnar sem byggir m.a. á valddreifingu (e. decentralization), langtímasýn á reksturinn og að vera með reglulega uppfærðar high level rekstraráætlanir. Jón Brynjar starfaði í fjármálum hjá Advania í 7 ár síðast sem CFO en fór til Sýnar árið 2023 sem forstöðumaður fjármála og færði sig svo til Héðins. Jón er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði og stjórnun frá Háskóla Reykjavíkur og meistaragráðu í fjármálum og stefnumótandi stjórnun.

Jónína Guðný Magnúsdóttir (37), framkvæmdastjóri Eimskip innanlands

Jónína hefur starfað sem framkvæmdastjóri innanlandssviðs Eimskips frá því í febrúar á þessu ári. Áður var hún m.a. framkvæmdastjóri gæða og sjálfbærni hjá Heklu og framkvæmdastjóri viðskipta- og þjónustusviðs hjá Terra en hafði áður starfað hjá Deloitte og hjá Eimskip sem verkefnastjóri og síðar deildarstjóri aðfangakeðju. Á sviðinu sem hún stýrir í dag starfa tæplega 400 starfsmenn á 18 starfsstöðvum um landið. Sviðinu tilheyra innanlandsflutningar og vörudreifing, vöruhúsa- og frystigeymslustarfsemi ásamt fasteignaumsjón. Þá heyrir dótturfyrirtækið Sæferðir einnig undir sviðið og er Jónína stjórnarformaður Sæferða. Jónína leggur áherslur á stöðugar ferlaumbætur og sjálfvirkni og á sjálfbærni í rekstri og áhrifum á umhverfið. Hún er dugleg að hrósa og fagna áföngum og árangri.

Jónína er með B.Sc. gráðu í Iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og Meistarapróf í Kerfisverkfræði, stefnugreiningu og stjórnun frá Delft University of Technology í Hollandi.

Júlía Eyfjörð Jónsdóttir (31), framkvæmdastjóri framleiðslu- og tæknisviðs Ölgerðarinnar

Júlía hóf feril sinn hjá Ölgerðinni beint að loknu verkfræðinámi árið 2017 og hefur unnið við fjölmörg störf hjá fyrirtækinu síðan. Hún starfaði við framleiðslu, umbótastjórnun, upplýsingatækni og var síðast leiðtogi stafrænnar þróunar Ölgerðarinnar áður en hún tók sæti í framkvæmdastjórn fyrirtækisins fyrir tveimur árum, þá aðeins 29 ára gömul.

Kristín Helga Magnúsdóttir (35), VP business development 50skills

Kristín Helga stýrir viðskiptaþróun hjá 50 skills sem þróar og selur hugbúnað til að halda utan ráðningarferli og starfsmannaþróun fyrirtækja. Helsta verkefni Kristínar Helgu hefur verið að fara með vörur 50skills á markað í Bretlandi með tilheyrandi sölu- og markaðsstarfi. Kristín ber ábyrgð á tekjuöflun 50skills, sem felur í sér allt tengt sölu, markaðsmálum og samstarfi við önnur fyrirtæki. Hún er með sex manna teymi á Íslandi og í Bretlandi.

Áður starfaði Kristín Helga hjá Creditinfo í tvö ár sem vörustjóri hugbúnaðarsviðs, alþjóðlegur vörustjóri og síðan sem forstöðumaður vöru- og verkefnastjórnunar hjá sama félagi.

Kristín er með Bachelor gráðu í iðnaðarverkfræði ásamt Bachelor gráðu í hugbúnaðarverkfræði. Einnig hefur hún lokið meistaraprófi í iðnaðarverkfræði frá Columbia University.

Lárus Guðjón Lúðvíksson (38), framkvæmdastjóri vörustýringar 1912

Lárus starfar sem framkvæmdastjóri vörustýringar hjá 1912 og ber ábyrgð á að tryggja vöruflæði frá þeirra birgjum til viðskiptavina félgasins með skilvirkum hætti. Hann heyrir beint undir Ara Fenger forstjóra 1912 sem er móðurfélag Nathan & Olsen, Ekrunnar og Emmessís. Lárus er með þrjá stjórnendur sem heyra beint undir hann og alls nærri 40 manna hóp starfsmanna sem skiptist í innkaup, vöruhús í Reykjavík og lager á Akureyri. Lárus aðhyllist LEAN hugmyndafræðina, sýnilega stjórnun og stöðugar umbætur. Einnig hefur hann verið duglegur að efla ungt fólk og veita því aukna ábyrgð innan fyrirtækisins.

Lárus hefur lokið B.Sc. í rekstrarverkfræði ásamt meistaraprófi frá DTU í rekstarverkfræði.

Lóa Fatou Einarsdóttir (38), framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Good Good

Lóa er framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá Good Good og sér þar um framleiðslu og dreifingu á vörum Good Good á öllum þeirra mörkuðum. Í því við felast samskipti við birgja, flutningsaðila, vöruhús og framleiðslustaði. Einnig sér Lóa um kostnaðarútreikninga, áætlanagerð og markmiðasetningu fyrir rekstrarsviðið. Undir Lóu starfa 15 manns í Bandaríkjunum og á Íslandi og sviðið veltir 1,5 milljarði króna á ári.

Lóa leggur áherslu á það sem stjórnandi að fólkið sitt vinni sjálfstætt og af fagmennsku. Einnig leggur hún áherslu á straumlínustjórnun sem hún lagði stund á í Háskólanum í Reykjavík en hún útskrifaðist með með B.Sc. í rekstrarverkfræði frá HR, ásamt meistaragráðu frá DTU í Danmörku í sama fagi. Lóa starfaði hjá 66° Norður í tæplega sjö ár í ýmsum stjórnunarhlutverkum áður en hún tók við sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá Good Good árið 2022.

Magnús Guðmundsson (40), forstöðumaður fyrirtækjalána Kviku

Magnús Guðmundsson hefur starfað hjá Kviku og forverum í 15 ár og sinnir nú hlutverki forstöðumanns fyrirtækjalána og aðstoðarframkvæmdastjóra fyrirtækja og markaða. Starfið felst í stjórn sjö manna teymis fyrirtækjalána og ábyrgð á lánabók og öðrum eignum en 27 manns starfa í heild á sviðinu sem inniheldur einnign fyrirtækjaráðgjöf, markaðsviðskipti og gjaldeyrismiðlun. Sem stjórnandi þykir Magnús traustur og sanngjarn og leggur hann áherslu á góðan starfsanda. Magnús er með B.S.c. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.

Margeir Ásgeirsson (38), forstöðumaður og staðgengill fjármálastjóra fiskiðnaðar Marel

Margeir starfar um þessar mundir sem fjármálastjóri fiskiðnaðar hjá Marel (e. Interim Finance Director Fish) á meðan fjármálastóri deildarinnar er í fæðingarorlofi. Margeir hefur síðustu sex ár starfað í teymi stefnumótunar og þróunar hjá Marel þar sem hann kom að mörgum stefnumarkandi verkefnum og yfirtökum á fyrirtækjum á Íslandi, Hollandi, Þýskalandi, Ástralíu, Kanada og Bandaríkjunum. Margir starfaði áður í Kviku banka.

Margeir er með B.Sc. í rekstarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík ásamt master í rekstrarverkfræði frá Duke university.

Ólafur Karl Sigurðarson (40), framkvæmdastjóri Marel Fish og Marel á Íslandi

Ólafur hefur starfað hjá Marel í 9 ár og sinnt þar mörgum ólíkum hlutverkum. Ólafur tók við stöðu framkvæmdastjóra fiskiðnaðar Marel árið 2021 og sem framkvæmdastjóri starfsemi Marels á Íslandi heyrir Ólafur beint undir forstjóra Marel og situr í framkvæmdastjórn félagsins. Ólafur er ábyrgur fyrir öllu því sem tengist sjávarútvegi og fiskvinnslu á heimsvísu, en starfsmenn fiskiðnaðar Marels eiga starfsstöðvar um allan heim. Sviðið er ein af þremur rekstrarreikningum Marel og ber Ólafur ábyrgð á stefnumótun, rekstri og rekstrarafkomu einingarinnar. Sviðið telur um 800 starfsmenn og fer talsverður tími hjá Ólafi í starfsmannamál ásamt því að taka virkan þátt í stærri söluverkefnum og í að viðhalda og byggja yoo tengsl við lykilstjórnendur viðskiptavina Marels. Ólafur er einnig ábyrgur fyrir innleiðingu á félögum sem eru yfirtekin eða keypt, sem dæmi Völku og Curio sem hafa verið keypt á síðustu árum. Um helmingur starfsmanna sviðsins er staðsettur á Íslandi, í Danmörku og í Noregi á meðan hinn helmingurinn er dreifður víðsvegar um heim. Ólafur situr einnig í nokkrum stjórnum á vegum Marel í tengdum félögum á Íslandi, Danmörku, Skotlandi, Noregi og Chile.

Ólafur er með BS gráðu viðskiptafræði með áherslu á markaðssetningu frá Háskólanum á Bifröst. Einnig er hann meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum og alþjóðamarkaðsetningu frá Háskólanum í Reykjavík. Þá hefur hann lokið MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík.

Ólöf Helga Jónsdóttir (29), director of Business Operations Paymentology

Ólöf Helga forstöðumaður rekstrar hjá Paymentology er eftirtektarverður ungur stjórnandi sem öðlast hefur mikla reynslu á skömmum tíma í ólíkum hlutverkum innan Teya (áður SaltPay/Borgun) og er nú stjórnandi hjá systurfyrirtækinu Paymentology sem er 700 manna fyrirtæki með starfsstöðvar á Íslandi, Bretlandi og veitir þjónustu við útgáfu greiðslukorta og vinnslu færslna (e. issuing processing), m.a. fyrir kort Íslandsbanka hérlendis. Ólöf hefur einnig setið í stjórn Teya síðustu ár. Hjá Paymentology ber Ólöf ábyrgð á daglegum rekstri, vörnum gegn svikum, endurkröfum, kerfisstjórnun og rekstri, hugbúnaðarþróun og gagnavinnslu. Einnig ber hún ábyrgð á viðskiptatengslum við stærri viðskiptavini og skipuleggur mánaðarlega fundi um go to market strategíu félagsins. Beinar tekjur sem svið Ólafar ber ábyrgð á nema á öðrum milljarði á ári. Ólöf Helga er með bachelor gráðu í fjármálahagfræði frá Háskóla Íslands.

Rakel Guðmundsdóttir (33), eignarhaldsstjóri Alfa Framtak

Rakel er eignarhaldsstjóri (Portofolio Manager) hjá fjárfestingarsjóðnum Alfa Framtaki en hún var einn af fyrstu starfsmönnum sjóðsins. Rakel situr í stjórn INVIT innviðasamstæðunnar og er stjórnarformaður Origo sem Alfa Framtak keypti og afskráði úr Kauphöllinni í fyrra. Rakel hefur víðtæka reynslu af rekstri fyrirtækja, m.a. sem snýr að fjármálum, ferlum, hagræðingaraðgerðum, mannauðsmálum og breytingastjórn. Sem eignarhaldsstjóri Alfa Framtaks hefur hún haft leiðandi hlutverk í að móta aðferðafræði félagsins eftir að fjárfesting hefur átt sér stað. Hvernig félagið beitir sér innan þeirra fyrirtækja sem teljast til fjárfestingaeigna sjóða Alfa Framtaks sem eru samtals 22 milljarðar króna að stærð. Rakel leiðir innleiðingu á 100 daga plani Alfa Framtak þar sem sérfræðingar Alfa vinna náið með æðstu stjórnendum og stjórn hvers félags að stefnumótun; greiningu á innri og ytri vaxtartækifærum, skilgreiningu lykilverkefna og markmiða. Einnig eru innleiddar nýjar kröfur um upplýsingagjöf, stjórnarhætti og sjálfbærni. Þá kemur Rakel að ráðningum á æðstu stjórnendum. Hún hefur áður setið í stjórnum Greiðslumiðlunar Íslands og Reykjafells. Rakel er með B.Sc. í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Renata Blöndal (39), Fararstjóri og framkvæmdastjóri stefnumótunar Nova

Renata leiðir stefnumótun og ber ábyrgð á framtíðarvexti Nova. Undir það fellur bæði ytri og innri vöxtur sem felur í sér sókn á nýja markaði, vöruþróun fyrir núverandi markað ásamt samstarfi eða kaupum á öðrum fyrirtækjum. Renata fer fyrir teymi viðskiptaþróunar en verkefni þess eru m.a. að greina ytri vaxtatækifæri sem geta verið ansi umfangsmikil og oft um stórar fjárfestingar að ræða. Renata býr að mikilli reynslu en hún var áður í stjórnunarhlutverkum hjá Krónuninni, Pay Analytics og Arctic Adventues og starfaði að stafrænum umbreytingarverkefnum hjá Landsbankanum, Meniga og CCP. Renata er afar metnaðargjarn stjórnandi sem hefur komið að stórum verkefnum hjá mörgum af framsæknustu fyrirtækjum landsins. Hún hefur einnig setið í stjórnum nokkurra fyrirtækja. Renata segir mikilvægast að viðskiptavinurinn sé alltaf í fyrsta sæti í allri ákvarðanatöku og að hugsað sé út frá notendaupplifun en ekki kerfum eða innri ferlum. Hún leggur áherslu á opin og hreinskiptin samskipti og trúir að gamla góða orðatiltækið um að menning borði stefnuna í morgunmat eigi alltaf við.

Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir (40), chief scientist Carbfix

Sandra Ósk er doktor í jarðfræði og æðsti vísindamaðurinn í nýsköpunarfyrirtækinu Carbfix, sem er dótturfyrirtæki OR. Verkefni hennar snúa fyrst og fremst að hagnýtingu rannsóknarstarfs síðustu ára hjá fyrirtækinu og að tryggja framgang og árangur þeirra loftslagsverkefna sem Carbfix vinnur að. Teymi Söndru vinnur með rannsóknarhópum frá yfir þrjátíu háskólum víðs vegar um heiminn sem hjálpa fyrirtækinu að auka þekkingu á þeim ferlum sem Carbfix tæknin byggir á. Fyrirtækið vinnur svp að verkefnum í sex heimsálfum og alþjóðlegt samstarf er því mikill hluti af starfi Söndru og hennar fólks. Sem yfirvísindakona Carbfix (Chief Scientist) situr Sandra í framkvæmdastjórn Carbfix. Henni finnst mikilvægt að tryggja jöfn kynjahlutföll og aðkomu fjölbreyttra hópa að verkefnum en í dag starfa um 60 manns hjá Carbfix frá 12 mismunandi löndum. Í akademíska umhverfinu hafa karllæg viðhorf og stjórnunarhættir oft verið áberandi, og akademíska stigveldið virkar oft sem hemill á árangur þar sem það hægir bæði á verkefnum og boðleiðum þegar ný þekking verður til. Með því að tryggja að ólíkar raddir heyrist og að fjölbreyttur hópur komi að því að leysa vandamál og þróa nýjar lausnir sé hægt að ná frábærum árangri eins og dæmi Carbfix sýnir.

Sigurður Orri Guðmundsson (34), forstjóri Neckcare

Sigurður Orri tók við sem forstjóri nýsköpunar- og stoðtækjafyrirtækisins Neckcare árið 2021. Orri, eins og hann er ávallt kallaður, er fjármálahagfræðingur með M.Sc. gráðu frá Kaupmannahafnarháskóla. Hann starfaði í Kaupmannahöfn frá 2012–2019 og í Bandaríkjunum frá 2019–2021 sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hjá danska hugbúnaðarfyrirtækinu Siteimprove, fyrst í Evrópu og síðar í Bandaríkjunum. Þá var hann framkvæmdastjóri hjá danska félaginu Airtame og bar ábyrgð á sölu, þjónustu og markaðssetningu félagsins á alþjóðavísu. Orri er með B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háksóla Íslands ásamt meistaragráðu í fjármálahagfræði frá University of Copenhagen.

Sigurður Rúnar Pálsson (38), framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar Öryggismiðstöðin

Sigurður Rúnar er nýlega ráðinn fjármálastjóri hjá Öryggismiðstöðinni sem hefur vaxið mikið síðustu ár og eru eigendur félagsins með metnaðarfull áform um frekari vöxt. Um 80 manns heyra undir sviðið sem Sigurður stýrir í fjórum mismunandi deildum: fjármál og rekstur; upplýsingatækni; umbætur; stjórnstöð, farandgæsla og þjónustuver. Sigurður starfaði áður sem fjármálastjóri og aðstoðarforstjóri Ölmu leigufélags og síðar sem fjármálastjóri Langasjós.

Sigurður er með B.Sc. gráðu i viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík ásamt meistaraprófi í reikningsskilum og endurskoðun frá Háskóla Íslands.

Sigurður Tómasson (34), framkvæmdastjóri vaxtar og viðskiptaþróunar Origo

Sigurður var nýverið ráðinn framkvæmdastjóri vaxtar og viðskiptaþróunar (Chief Growth Officer) hjá Origo og hefur störf eftir sumarið. Ábyrgðarsvið Sigurðar verður nokkuð breitt en hann mun einbeita sér til að byrja með að dóttur- og hlutdeildarfélögunum Syndis, Helix, GoDo, Unimaze, Advise og DataLab sem allt eru spennandi vaxtarfyrirtæki. Áður starfaði Sigurður sem verkefnastjóri hjá fjárfestingasjóðnum VEX þar sem hann var fyrsti starfsmaðurinn á eftir stofnendum sjóðsins. Kom hann þar að fjárfestingum og eftirfylgni rekstrarfélaga sjóðsins, til að mynda í gegnum stefnumótun og viðbótarfjárfestingar. Áhersla Sigurðar var á hugbúnaðar- og upplýsingatæknifyrirtækin og sat hann sem varamaður og áheyrnafulltrúi í stjórnum Annata og Öryggismiðstöðvarinnar. Fyrir komuna til VEX starfaði Sigurður hjá McKinsey ráðgjafarfyrirtækinu í Kaupmannahöfn, síðast sem verkefnastjóri og sinnti þaðan verkefnum um allan heim. Sigurður er með B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands ásamt M.Sc í hagfræði frá Háskólanum í Köben.

Sonja Arnórsdóttir (36), Chief Commercial Officer (CCO) Play

Sonja Arnórsdóttir er með B.Sc. í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Rekjavík og hefur starfað við tekjustýringu flugfélaga síðastliðin tíu ár. Hún byrjaði ferilinn hjá Byr sparisjóði en var ráðinn sem sérfræðingur til WOW air árið 2012 þar sem hún vann sig upp í að leiða tíu manna teymi og þá tók hún við sem forstöðumaður tekjustýringar hjá Play árið 2019 en hefur fengið nokkrar stöðuhækkanir síðan og er nú framkvæmdastjóri sölu og tekjustýringar. Allar tekjur fyrirtækisins, frá flugfargjaldinu, til sölu um borð, cargo tekjum o.s.frv. falla undir Sonju og þá fer hún einnig með yfirstjórn markaðsmála, almannatengsla, stafrænnar þróunar og upplifunar viðskiptavinarins. Sonja er ein fárra kvenna sem gegnir þessari stjórnunarstöðu í flugheiminum sem er lykilstaða fyrir flugfélög sem eru öll afar söludrifin og þurfa að fylla flugsæti alla daga ársins. Að bera ábyrgð á tekjum Play er ekkert lítið starf en þær nema nú jafnvirði tæplega 40 milljörðum króna á ársgrundvelli. Sonja stýrir um 50 manns í heildina og leggur mikla áherslu á gott upplýsingaflæði og að allir í teyminu hafi rödd enda komi góðar hugmyndir oft frá ólíku fólki.

Vala Valþórsdóttir (38), forstjóri Aurora Abalone

Vala er forstjóri Aurora Abalone (Sæbýli hf.), eldisfyrirtækis sem hefur þróað eldisaðferðir fyrir eitt verðmætasta sjávarfang í heimi, sæeyru. Sæeyru eru vinsæl til matar í Asíu og víðar. Verkefni Völu er að uppfylla framleiðslumarkmið fyrirtækisinns, fylgja tilraunaáætlun, styðja við öfluga tækniþróun og að stýra fjármálum. Félagið er í uppbyggingarfasa og því er mikil áhersla á fjárhagsáætlanaferð vegna framkvæmda og verkáætlunar, samningagerð og leyfismál. Einnig markaðsvinnu og þróun markaða í Asíu, Bandaríkjunum og Evrópu. Vala hefur vakið athygli fyrir öfluga hagsmunagæslu í kjölfar náttúruhamfaranna í Grindavík og hefur þrýst á stuðningsaðgerðir stjórnvalda sem gagnast geta nýsköpunarfyrirtækjum í bænum. Vala er ein fárra kvenna sem leiðir stórt landeldisverkefni og vill efla þátttöku kvenna í þessari mjög svo vaxandi iðngrein hér á landi.

Vala starfaði fyrst eftir útskrift í skamman tíma sem lögfræðingur, m.a. hjá VÍS en hóf störf sem verslunarstjóri 66°Norður í Bankastræti árið 2014 en tók svo við sem sölu­ og rekstrarstjóri allra verslana 66°Norður á Íslandi árið 2015, en þær voru þá 12 talsins. Síðar færði hún sig til Landsvirkjunar þar sem hún bara ábyrgð á að koma auga á tækifæri fyrir mögulega viðskiptavini Landsvirkjunar og að kynna Ísland sem áhugaverðan valkost fyrir orkutengda starfsemi.

Vala er með BA gráðu í Lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík ásamt meistaragráðu í sama fagi.

Valeria Rivina (40), forstöðumaður veflausna Advania

Valeria starfar sem forstöðumaður veflausna hjá Advania, sem er tæplega 50 manna eining sem hannar, smíðar og rekur stafrænar lausnir fyrir viðskiptavini fyrirtækisins. Ábyrgðarsvið Valeriu felur í sér stefnumörkun, starfsmannamál og þjálfun, rekstur, áætlanagerð, viðskiptaþróun, vöruþróun, þjónustumál, sölu- og markaðsmál, samningagerð og allt þar á milli.

Valeria er menntaður stjórnendamarkþjálfi og nýtir coaching tæknina mikið sem stjórnandi. Hún er með bakgrunn í hópíþróttum og leggur mikla áherslu á að efla teymið og liðsheildina. Henni finnst mjög mikilvægt sem stjórnandi að leggja línurnar og vera mjög skýr um það sem hún ætlast til af fólki um leið hann treystir fólkinu sínu, leiðbeinir, hlustar, kennir og ryður hindrunum úr vegi.

Valeria er með B.Sc. gráðu í rekstrarverkfræði ásamt að hafa lokið MBA námi frá Háskóla Reykjavíkur. Hún starfaði áður meðal annar sem teymisstjóri í stafrænni þróun hjá Icelandair.

Valur Ægisson (40), forstöðumaður viðskiptastýringar Landsvirkjun

Valur Ægisson starfar sem forstöðumaður viðskiptastýringar sem felst það í að stýra samskiptum við viðskiptavini Landsvirkjunar, þ.e. stórnotendur, innlend sölufyrirtæki og erlenda kaupendur upprunaábyrgða. Sviðið leiðir viðræður við stórnotendur um nýja samninga sem jafnan eru stærstu viðskiptasamningar sem gerðir eru á Íslandi en stærsti samningarnir eru að heildarverðmæti yfir 200 milljarða króna. Tekist er á um mikla hagsmuni í þessum samningaviðræðum og þarf að framkvæma ítarlegar greiningar til að hámarka árangurinn. Viðræðurnar eru unnar í nánu samstarfi við forstjóra Landsvirkjunar, framkvæmdastjóra og fjármálastjóra. Valur stýrir 5 manna deild dagsdalega en leiðir ýmis stærri verkefni þvert á fyrirtækið auk innlendra og erlendra ráðgjafa. Valur er staðgengill framkvæmdastjóra sviðs sölu- og þjónustu og vinnur náið með æðstu stjórnendum fyrirtækisins.

Valur er með B.Sc gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og Msc í rekstrarverkfræði og stjórnun.

--

--

Andres Jonsson
Gott að frétta

Almannatengsl og stjórnendaleit hjá Góðum samskiptum.