[No] matter what a person’s original time-preference rate or what the original distribution of such rates within a given population, once it is low enough to allow for any savings and capital or durable consumer goods formation at all, a tendency toward a fall in the rate of time preference is set in motion, accompanied by a “process of civilization.” [1]
- Hans-Hermann Hoppe
Í þessari grein, og næstu tveimur, ætla ég að ræða nánar um starfsemi penings í kapítalísku hagkerfi. Þá er gott að hafa lesið greinina um pening á undan, en sú grein fjallar ítarlega um pening hugtækt, þ.e. hvað peningur er, hvernig hann verður til og hvaða tilgangi hann þjónar. Tímaval er hinsvegar mikilvægt hugtak, en það hjálpar okkur að skilja hvernig fólk verðmetur nútíð sína fram yfir sína framtíð, sem síðar hefur áhrif á það hvernig stýrivextir eru áætlaðir á markaðnum, en það mun ég ræða nánar í næsta kafla.
Í kafla mínum um tíma fór ég yfir hvernig tíminn er hin eina endanlega auðlind sem maðurinn býr við, og knýr sjaldgæfni tímans okkur til þess að velja milli sjaldgæfra auðlynda og það hvernig við vinnum þær og ræktum hverju sinni, en öll efnahagstengd sjaldgæfni er í raun fólgin í sjaldgæfni tímans.
Þegar við fæðumst inn í þennan heim hefst klukka okkar að tifa, og veit engin fyrir víst hvenær tíma sínum líkur hér á jörðu. Við berum fórnarkostnað af öllum okkar ákvörðunum því þær verða ekki afturkallaðar eða snúið við með nokkru móti með tilliti til tímans sem liðið hefur. Því fáum við öll tækifæri til þess að takast á við okkar líf eftir okkar bestu getu, og læra af okkar ákvörðunum hverju sinni í þeirri von um að bæta okkar framtíðar ástand.
Þetta gerir tímann frábrugðin öðrum auðlyndum að því leiti að við getum ekki keypt meira af honum eða selt, við nýtum hann aðeins eins vel og okkur gefst hverju sinni. Þetta hjálpar okkur að skilja forsenduna fyrir hugtakinu tímaval.
Tímaval
Tímaval er er mælikvarði á hversu miklu fólk er tilbúið að fórna í nútíðinni til að öðlast meiri ávinning í framtíðinni, það er alltaf jákvætt sökum þess að við kjósum alltaf neyslu nútíðar fram yfir neyslu framtíðar, því vandamál nútíðar eru okkur ætíð brýnni en þau sem bíða okkar. Tímaval sérhvers manns er breytilegt yfir æviskeið hans, þegar það er hátt hefur hann tilhneigingu til að forgangsraða neyslu nútíðar fram yfir framtíðar neyslu sína, en þegar það er lágt forgangsraðar hann neyslu framtíðar fram yfir neyslu nútíðar, eða með öðrum orðum; hann sparar.
Undirstaða þess að verjast óvissum framtíðarinnar er með því að tryggja okkur eignir, allt frá fatnaði og verkfærum yfir í eignir sem tryggja okkur fæðu og búsetu. Þegar maðurinn hóf landbúnað fyrst fyrir um 12 þúsund árum síðan hófst samtímis eignarmyndun hans á landsvæðum. Þá fór maðurinn frá því að taka það sem var honum hendi næst í náttúrunni, og hóf þess í stað að rækta og verja sitt land. Þá varð okkur ljóst að ávinningur þess að ræna bónda uppskeru sinni gat aðeins fært okur fæðu sem samsvaraði afurð einnar uppskeru, en að vinna með bóndanum gat fært okkur fæðu yfir allt okkar æviskeið. Meðfram þeirri þróun opnuðust markaðir þar sem fólk hóf vöruskipti sín á milli þar sem báðir aðilar viðskiptanna virtu eignarrétt hvors annars og högnuðust á í leiðinni á þeim.
Tímaval og peningur
Peningur er sú tækni sem ver okkur fyrir óvissum framtíðarinnar hvað best með því að vera seljanlegasta eignin á markaðnum. Við neytum ekki penings beint heldur skiptum við á honum fyrir aðrar vörur, því er eina hlutverk penings að þjóna tilgangi skiptimiðils (e. medium of exchange) því hann leysir vandamál víxllangana (e. coincidence of wants), í nútíð og framtíð.
Í einföldum skilningi er peningur markaðsvara, þ.e. hvaða vara sem er getur þjónað tilgangi penings svo lengi sem hún uppfyllir þá eiginleika sem peningur þarf að gegna vel, og stendur sú vara uppi sem sigurvegari sem uppfyllir þá eiginleika hvað best. Í BA ritgerð sinni í heimspeki vitnar Vagn Margeir Smelt í kenningu Aristótelesar um þá eiginleika sem peningur þarf að uppfylla:
Aristóteles talaði fyrir fimm eiginleikum peninga (e. Aristotelian properties of money) sem allir virðast nauðsynlegir fyrir hlutverkið (Politics, 1255b–1256b). Auk endingar, nefnir hann deilanleika (e. Divisibility), til dæmis er erfitt að deila eggi niður í minni hluta; flytjanleika (e. Portability), Jón lendir í fyrirsjáanlegum vandræðum við flutning á brothættum gjaldmiðli sínum; skortur (e. Scarcity), það er tiltölulega auðvelt að komast í gnótt eggja og ráðskast með magn í umferð, þó vissulega sé hægt að ímynda sér aðstæður þar sem verulegur skortur er á eggjum; að lokum nefnir hann þekkjanleika (e. Recognizability) en egg bera þennan eiginleika ágætlega þar sem erfitt er að falsa hænuegg, en umfram þennan eiginleika virðist valinn gjaldmiðill Jóns ekki henta vel í hlutverkinu. [2]
Ef framtíðin væri okkur öllum fullkomlega ljós að þá væri engin þörf fyrir því að geyma verðmæti okkar í pening, því þá gætum við ráðstafað okkar fjármálum og viðskiptum fullkomlega á þeim tímapunkti sem við krefjumst þess. En í raunheimi er staðan ekki svo einföld, framtíðin er okkur öllum ávalt óljós og er því peningur það tól sem ver okkur hvað best fyrir þeim óvissum. Handbærni (e. liquidity) peningsins gerir okkur kleift að skipta á honum fyrir þær vörur eða þjónustur sem við þurfum á að halda hverju sinni, sem leiðir af sér að eitt mikilvægasta hlutverk penings er að framfleita virði sínu inn í framtíðina.
Tímaval, sparnaður og fjárfestingar
Um leið og við skiljum að peningur er tækni að þá getum við betur skilið peningasögu mannsins, en ef það er eitthvað sem sú saga kennir okkur að þá hefur fólk ætíð leitast eftir að nota þann pening sem erfiðast er að auka framboðið af þegar eftirspurn eftir honum eykst, því þannig varðveitir hann kaupmátt sinn til framtíðar og gegnir þar af leiðandi hlutverki sparnaðar hvað best.
Skeljar, salt, perlur, kalksteinar og nautgripir hafa öll gengt hlutverki penings til að mynda á ólíkum stað og tíma í heiminum, sömueliðis járn, kopar og silfur, en þegar alþjóðaviðskipti fóru að aukast og gull varð gert að færanlegum pening með ávísunum, sem seinna urðu að okkar valdboðsgjaldmiðlum, bar gull sigur af hólmi í baráttunni við aðrar vörur til að gegna hlutverki penings, ástæða þess er sú að framboð gullsins var erfiðast að auka ásamt því að gull er nýtt í lítið annað en að varðveita virði.
Eftir því sem við getum gerst skilvirkari í að stunda viðskipti við okkar framtíðar sjálft, með því að flytja okkar nútíma verðmæti örugglega inn í framtíðina, lækkar þar með óvissa hennar sem gerir okkur fyrir vikið betur í stakk búin til að taka á móti henni. Þannig gerumst við fær um að neyta minna í dag því við vitum að við getum sparað örugglega til framtíðar og þar með lækkað tímaval okkar.
Enginn þarf að velja alfarið á milli þess hvort hann muni spara að eilífu eða fjárfesta að eilífu, því slíkar ákvarðanir eru teknar á jaðrinum, og eru þeir sem sitja á meira eigiðfé líklegri til þess að hafa efni á því að taka þátt í áhættusömum frjárfestingum ólíkt þeim sem lítið eiga, því fyrir þá efnameiri er jaðarnýtna hverrar krónu mun minni en fyrir þeim sem fáar eiga. Því kýs ungt fólk mun frekar að spara upp og safna að sér eigiðfé áður en það hefst handa við að taka þátt í spilavítinu sem hlutabréfamarkaðir geta verið.
Sparnaður og fjárfestingar eru þó engir keppinautar, því fjárfestingar eru afurð sparnaðar. Þegar hægt er að búast við því að peningur tapi ekki virði sínu, eða betur, vex í virði, eykst möguleikinn á fjárfestingum sömuleiðis. Þá hefur fólk frekar efni á því að taka áhættur og að fjárfesta, því þau geta treyst því áreiðanlega að það sem eftir situr af þeirra sparnaði muni ekki þynnast út frá þeim.
Þegar peningur er harður eru einu rökréttu fjárfestingarnar þær sem færa jákvæða raunávöxtun, ólíkt því sem við sjáum í dag við linan pening þegar fjárfestingar gefa jákvæða nafnávöxtun en neikvæða raunávöxtun. Því er sú gallsúra keyníska kenning um að verðbólga sé nauðsynleg til þess að halda hagkerfinu gangandi með fjárfestingum einfaldlega absúrd, því verðbólga hvetur ekki til fjárfestinga heldur misúthlutar fjármagni til þeirra.
Linur peningur misúthlutar fjármagni til fjárfestinga sem bera engar kröfur til einhverskonar raunávöxtunar, því slíkar fjárfestingar snúast ekki um að skila af sér arðbærni til framtíðar heldur aðeins til skamms tíma. Eigendur harðs penings krefjast langtíma raunávöxtunar á sínum fjárfestingum, sem sömuleiðis krefur þau fyrirtæki sem hljóta slíkar fjárfestingar um að auka skilvirkni samfélagsins að einhverju leiti eða bjóða upp á þjónustu betur en nokkur annar getur gert. Raunávöxtun fæst ekki án þess að færa okkur tæknilega lausn sem eykur afköst, en eins og ég ræddi í kafla mínum um orku og tækni að þá er sparnaður á vinnuafli hægt að skilja sem sparnað á tíma, því þá getum við nýtt dráttarvélar í stað fólks til að plægja akra og beitt því tíma fólks í hluti sem krefjast þess enn frekar.
Eftir því sem tímaval fólks lækkar gerist það líklegra til að fresta sinni nútíðar neyslu, fyrir vikuð situr það á meira eigiðfé, sem eflir vilja þeirra til fjárfestinga og lánveitinga. Gnótt eigiðfés samfélagsins eykur þannig fjárfestingar til arðbæra fyrirtækja, sem leiðir til frekari eignamyndunar og sílækkandi útlansvaxta á markaðnum. Eftir því sem að handbært eigiðfé vex, aukast þannig afköst vinnandi fólks ásamt launum og lífsskilyrðum. Þetta ferli getum við kallað dygðarhring siðmenningar.
Tímaval og siðmenning
Það að ná að efla og nýta tækni sem færir okkur harðari pening með sem bestan seljanleika yfir rúm og tíma er grunnforsenda þess að við getum haft tök á því að lækka tímaval okkar, því slíkur peningur færir okkur betri sparnaðartækni sem hjálpar okkur að taka betur á móti óvissum framtíðarinnar.
Margir ófyrirséðir þættir geta haft áhrif á tímaval okkar, líkt og náttúruhamfarir, en þær eyðileggja eignir og kapítal fólks, sem fyrir vikið lækkar lífsgæði okkar og ógna oft á tíðum okkar lífi. Undir slíkum kringumstæðum verða vandamál nútíðar brýnni en nokkru sinni fyrr og hverfur því þörf fyrir öllum framtíðaráhyggjum sökum þess að ekkert er mikilvægar en að lifa nútíðina af. Undir slíkum kringumstæðum hækkar tímaval okkar, og við verðum fyrir vikið tilbúin að neyta alls okkar sparnaðar í þeirri von um að geta flúið hættusvæði og sest að á nýjum og öruggari stað.
Slíkar aðstæður eru ekki algengar en þær geta þó komið upp, en mun algengari þáttur er vanvirðing á eignarrétti fólks. Glæpir í formi ráns eða skemmdarverka einstaklinga innan samfélagsins brjóta á öllum eignarrétti fólks, en mun algengari er glæpurinn sem ríkið aðhefst við, því hann er að fullu þvingaður löglega á fólk í sívaxandi mæli, hvort sem það er í formi skatta eða með aukinni regluverkun, sem aldrei er kostnaðarlaus.
Hærri skattlagning á arðbær fyrirtæki þýðir verri rekstarskilyrði, verri samkepnishæfni, hægari uppbygging og minni fjárfesting en ella, sem fyrir vikið gerir hátt skattlagðan rekstur að eftirbáti samkeppnisaðila. En þó svo skattar skerði tekjur okkar og ávinning skynsamra fjárfestinga, að þá erum við vör um þann þátt fyrirfram, við vitum hver skattprósenta okkar er og við vitum hversu háan skatt við greiðum af tekjuberandi fjárfestingum. Mun lúmskari þáttur, sem vanvirðir allan eignarrétt fólks, er hinsvegar verðbólgan.
Í nútíma peningakerfi er ekki hægt að treysta á að kaupmáttur okkar gjaldmiðils haldist til framtíðar, verðbólga étur hann alltaf upp, þó svo tækninni fleyti fram og við séum sífellt að verða skilvirkari í okkar framleiðslu. Þá er það til að mynda fréttnæmt ef okkar litla íslenska króna helst stöðug [3], en slíkir þættir eru ekki tilkomnir vegna ófyrirséðra afla náttúrunnar, heldur eru þeir að fullu til komnir vegna áhrifa spilltra embættismanna, sem telja sig hafa rétt á fjármagni á kostnað almennings til að aðhæfast við sín pólitísku áhugamál, en slíkt rænir okkur möguleikann á tryggum og traustum sparnaði.
Ef við berum okkur til að mynda saman við evrópska seðlabankann, sem með engu móti miðstýrir fullkomnum gjaldmiðli, að þá standa stýrivextir þar þegar þessi grein er skrifuð, í 3,25%, á meðan íslenski seðlabankinn festir þá í 9,25%. Ef við viljum með einhverju móti bæta viðskiptafrelsi hér á Íslandi og auka ágóða okkar í alþjóðaviðskiptum ættum við að taka upp gjaldmiðlafrelsi eins og Heiðar Guðjónsson hagfræðingur hefur ítrekað talað um. [4]
Verðbóga gerir framtíð okkar að meiri óvissu, sem fyrir vikið hækkar tímaval okkar, því án penings er ekki mögulegt að fresta neyslu nútíðar og spara á einfaldan máta. Því betri sem peningurinn er í að fleyti virði sínu inn í framtíðina, því auðveldar gerir hann okkur kleift að sjá fyrir okkur sjálfum til framtíðar.
Óðaverðbólga er augljósasta dæmið um áhrif verðbólgunnar á persónuleika fólks samfélög mannsins [5], ef samvinna og friðsæl viðskipti borga sig ekki lengur hverfur hvatinn sömuleiðis fyrir friðsælli hegðun. Þó svo óðaverðbólgan sé þar ýkt dæmi er ekki þar með sagt að verðbólga, sem sífellt breytist og er aldrei mæld eins, undir ákveðnum mörkum hafi ekki svipuð áhrif. Neysluhyggja eykst þegar peningurinn heldur ekki virði sínu, því hver er tilgangurinn með því að halda á honum ef þú getur keypt fyrir hann meira í dag en á næsta ári, eða jafnvel í næsta mánuði? Þegar möguleikinn að sjá fyrir okkur sjálfum til framtíðar er tekinn af okkur, hverfur ábyrgð okkar á henni sömuleiðis.
Tímaval og Bitcoin
Bitcoin er í raun einföld tækni, en það er opinn hugbúnaður sem gerir fólki kleift að senda gjaldmiðil kerfisins sín á milli án aðkomu þriðja aðila; þar sem ekkert miðlægt vald eða bankar eru nauðsynlegir til þess að halda kerfinu gangandi. Þannig er hægt að senda Bitcoin heimshornana á milli án tilheyrandi kostnaðar á hraða ljósins yfir internetið. Bitcoin er svar frjáls markaðar við peningavanda 20. aldarinnar, sem er verðbólgumyndandi og einokað vald, þar sem fáir og útvaldir bjúrókratar geta spillt og grætt á með því að fjármagna sín gæluverkefni.
Bitcoin er einfaldur peningur með fasta og fyrirframskilgreinda peningastefnu. Peningamagnið er ekki aukið þó svo eftirspurnin sveiflist og virðist sífellt vaxa, sem fyrir vikið gerir Bitcoin að frábærri sparnaðartækni. Í dag raunávaxta fáir sínum sparnaði, og krefst slíkt að viðkomandi þurfi að hafa það að atvinnu sinni að fylgjast með mörkuðum og sveiflum til að geta átt möguleika á því. Gull færði fólki það náttúrulega að geta ávaxtað sparnað sinn, Bitcoin gerir það með sama móti, með því einu að vera harður eignarflokkur.
Bitcoin gerir þannig öllum þeim sem vilja taka þátt í kerfinu kleift að lækka tímaval sitt og varðveita kaupmátt sinn, tíma og afrakstur vinnu sinnar inn í framtíðina. Bitcoin er að öllu leiti ópólitískt því grunn virkni kerfisins breytist ekki samhliða pólitískum skoðunum og afstöðu þjóðarleiðtoga heimsins.
[1]: Hoppe, Hans-Herman. Democracy: The God That Failed, p.6
[2]: Vagn Margeir Smelt, Stafrænir peningar framtíðarinnar
[3]: Magdalena Anna Torfadóttir (Maí 2024), Krónan með stöðugasta móti
[4]: Snorri Páll Gunnarsson (Júní 2017), Krónan er miðstýringartól. Viðskiptablaðið