Viðskipti

Ishmael
11 min readJan 31, 2024

--

The fundamental facts that brought about cooperation, society, and civilization and transformed the animal man into a human being are the facts that work performed under the division of labor is more productive than isolated work and that man’s reason is capable of recognizing this truth.

- Ludwig von Mises

Í þessum kafla um viðskipti mun ég byrja að ræða um hvernig maðurinn hagræðir með tilliti til annara og myndar þannig samfélag mannsins. Mín fyrri skrif um mannlega hegðun, virði og tíma fjölluðu um grunn hugtök hagfræðinnar sem nauðsynlegt var að gera grein fyrir áður en ég fjallaði um hvernig maðurinn hagræðir með tilliti til síns sjálfs í einangruðu umhverfi, og fór ég yfir það í skrifum mínum um vinnu, eignir, kaptíal, tækni og orku. Viðskipti er hinsvegar fyrsti kaflinn sem gerir grein fyrir því hvernig maðurinn hagræðir með tilliti til annara í kringum sig og myndar þannig samfélag. Áður en við förum að ræða nánar um viðskipti er mikilvægt að við áttum okkur á því að aðeins eru til tvær leiðir að því hvernig maðurinn getur átt samskipti og þar af leiðandi viðskipti; þau geta átt sér stað með samþykki eða með þvingunum.

Þegar samþykk samskipti eiga sér stað eru báðir aðilar tilbúnir að eiga þau og stunda sín á milli, þá eru þau laus frá hótunum og ofbeldi og allir stunda þau af fúsum og frjálsum vilja. Þegar þvinguð samksipti eiga sér hinsvegar stað að þá er ofbeldi eða hótanir um ofbeldi það sem drífur annan aðilann áfram í að stunda samkiptin. Þessar tvær samskiptaleiðir eru mikilvægar að gera grein fyrir áður en við fjöllum um hvernig fólk stundar viðskipti.

Viðskipti eru eitt mikilvægasta dæmið um samþykk samskipti, og aðeins munu báðir aðilar stunda þau ef þeir telja að þeir hagnist báðir á þeim. Það fer enginn einstaklingur inn í viðskipti með það í huga að koma verr út úr þeim en hann var fyrir. Með þvingunum mun aðeins annar aðilinn hagnast á viðskiptunum, og er það aðilinn sem beytir þvingununum sem hagnast á þeim. Það er ekki til neitt sem heitir ósamþykk viðskipti, heldur eru orðin þjófnaður eða fjárkúgun notuð í þeim tilfellum.

Ástæðan fyrir því að viðskipti eiga sér stað milli tveggja einstaklinga er fólgin í því hvernig við skilgreinum virði og hvernig jaðarhyggja hjálpar okkur að skilja hvernig við forgangsröðum löngunum okkar. Í kafla mínum um virði fór ég yfir þessi atriði, en í stuttu máli er allt virði metið á huglægan hátt og er bundið við langanir mannsins. Bakari hefur t.d. lítið við 100. brauðið sem hann bakar að gera og sækist því frekar eftir að skipta því út fyrir aðra vöru sem hann veit mun koma sér að betri notum, líkt og kjöt eða mjólk.

Hagfræðiþekking lágmarkar ofbeldishneigð

Kostir þess að beita ofbeldi í viðskiptum eða öðrum samskiptum eru hverfandi í samanburði við siðferðislega samvinnu fólks. Ofbeldi er aðeins beitt ef áhættan sem því fylgir er lægri en mögulegur afrakstur þess, þó svo það virðist hagkvæmt að ræna hlutum sem þú þarft ekki að vinna fyrir er það ekkert í líkingu við hagkvæmnina sem fylgir samvinnunni. Friðsæl samvinna er það sem sakapar siðmenntað samfélag, þar sem vanvirðing á eignarrétti fólks er fordæmd og refsiverð með lögum. Flestir kjósa að vinna saman því slíkt skapar betra líf fyrir sig og þá sem lifa í kringum sig, og öll viljum við að framtíð okkar sé betri en okkar nútíðar ástand og er það grunnur þeirrar greiningar sem Austurríska hagfræðin gengur út á, að greina mannlega hegðun. Því trúi ég því að hagfræðiþekking efli skilning fólks á því hvernig þjófnaður er óhagkvæmur til lengri tíma litið og hversu verðmæt samvinna í raun er.

Einfalt en gott dæmi um það hvernig ávinningur samvinnu spilast út í okkar raunhagkerfi er í sögunni um Robinson Crusoe og Friday, en sú saga er oft notuð sem dæmisaga í Austurrísku hagfræðinni til þess að kenna tilgang og gagnsemi viðskipta og samvinnu frá fyrstu lögmálum. Til að einfalda söguna að þá hafa Crusoe og Friday hvor um sig um tvennt að velja; að berjast á móti hvor öðrum eða vinna saman. Crusoe getur þá stolið eigum Friday og eignað sér þær, hann getur þrælkað hann út svo hann vinni aðeins fyrir Crusoe eða hann getur gengið svo langt að myrða hann. Það er einhver hagnaður fyrir Crusoe að framkvæma alla þessa þætti en það gæti líka orðið honum sjálfum að bana sökum þess að það er mjög líklegt að Friday muni berjast til baka. Allur mögulegur hagnaður Crusoe af þessum athöfnum er lítilsverður í samanburði við að stunda samvinnu með Friday, ástæðan er sú að Crusoe mun aðeins einu sinni geta rænt eigum Friday en þeir munu aftur á móti báðir geta hagnast af samvinnu hvors annars að eilífu.

Huglægt verðmat og jaðarhyggja

Ef virði væri hlutlægt myndu allir sammælast um verðmæti allra hluta og gætu þá engin viðskipti átt sér stað. Afhverju ætti einhver að skipta á hlutum sem þeir verðmeta jafnt? Ef símar væru verðmetnir á 100kr, og allir sammældust um hlutlægt verðmat allra síma, afhverju myndi þá einhver vilja skipta á 100kr og fá síma í staðin? Sem dæmi skiptir þú ekki á nýjum síma fyrir annan nákvæmlega eins nýjan síma, því það er enginn tilgangur með því, þú metur virði þeirra jafnt. Ef þú ert hinsvegar tilbúinn að borga 100kr fyrir tiltekinn síma ertu að verðmeta hann á meira en 100 krónurnar sem þú lætur af hendi, annars myndir þú ekki stunda viðskiptin.

Jaðarnýtni vöruskipta verður sömuleiðis að aukast fyrir báða aðila, en hvað þýðir það? Það þýðir t.d. að ef þú hyggst kaupa fernu af mjólk og mjólkurfernan er seld á 100kr að þá ertu aðeins tilbúinn að kaupa eina fernu af mjólk því það er það sem þú neitir á nokkrum dögum, en hinsvegar ef sá sem selur þér mjólkina vill losa sig hratt við þær og býður þér að kaupa þrjár mjólkurfernur á 250kr að þá hugsarðu þig um því þú veist að þú munt þurfa að fara eftir annari mjólkurfernu eftir nokkra daga hvort sem er, og gætir því sparað þér 50kr til lengri tíma litið. Á sama tíma er sá sem selur mjólkina að koma þeirri mjólk út fyrr og hagnast því sömuleiðis á því.

En huglægt verðmat veltur á mörgum þáttum, og er þar einn helsti þátturinn fólgin í gnægð vörunnar sem þú hyggst eignast. Sem dæmi myndir þú ekki vera tilbúinn að borga 500kr fyrir 6 mjólkurfernur því þær myndu sennilega renna út og skemmast áður en þú gætir neitt þeirra, þú myndir sennilega ekki einu sinni vilja borga 500kr fyrir 10 mjólkurfernur.

Algildir yfirburðir

Annar þáttur sem skapar okkar nútíma verkaskiptingu og viðskipti felst í kostnaði framleiðslunnar. Ef Crusoe er til að mynda betri í að veiða fisk á meðan Friday er betri í að veiða kanínur og þeir skiptast á fiski og kanínum eru þeir báðir að gefa frá sér eitthvað sem er auðveldara eða ódýrara fyrir þá að eignast í stað einhvers sem er erfiðara eða dýrara, sem dæmi gæti Curose veitt 10 fiska eða 2 kanínur á hverjum degi en Friday gæti veitt 2 fiska eða 8 kanínur á hverjum degi.

Framleiðslumöguleikar í einangrun (I) og með algildum yfirburðum í viðskiptum (T).

Crusoe er alltaf að veiða sér fisk og er orðinn þreyttur á því að nærast aðeins á fiski, það sama gildir fyrir Friday sem orðinn þreyttur á kanínum. Í einangrun ef Crusoe vill bæði neyta fisks og kanínu fær hann að meðaltali 5 fiska og 1 kanínu á dag, á meðan Friday fær 4 kanínur og 1 fisk að meðaltali. Hinsvegar, ef þeir sérhæfa sig og Friday veiðir bara kanínur á meðan Crusoe veiðir bara fisk, geta þeir unnið saman og stundað viðskipti og fá þeir þá hvor um sig 4 kanínur og 5 fiska á dag. Út frá þessu sjáum við hversu vitlaust það væri fyrir þá að ræna, drepa eða þrælka hvorn annan út frekar en að vinna saman.

Með þessu móti eru bæði Crusoe og Friday færir um að framleiða mun meiri fisk og kanínur en þeir gætu gert í sitthvoru lagi. Þetta hljómar nánast eins og galdrabragð, þeir báðir eyða jafn löngum tíma í veiðar sínar en þeir enda samt með mun meira af fiski og kanínum. Þetta einfalda dæmi sýnir fyrir okkur að samvinna Crusoe og Friday er mun arðbærari en að etja nokkurntíman til samkeppni eða ógna hvor öðrum. Þetta einfalda dæmi sannar mikilvægi verkaskiptingar, þar sem fólk getur sérhæft sig í því sem bæði hæfileikar og áhugi þeirra ná til og þannig færa samfélaginu eitthvað sem fólk metur til virðis og er tilbúið til að kaupa af því.

Hlutfallslegir yfirburðir

Dæmið að ofan er einfalt og svolítið einangrað við fullkomin heim þar sem Curose er betri í að veiða fisk en Friday er betri að veiða kanínur, en hvað með ef Crusoe er betri í báðu? Í því tilfelli getum við ekki horft á vandamálið í formi kostnaðarins sem fer í framleiðsluna (veiðarnar), heldur fórnarkostnaðarins, og er mikill munur þar á. Þegar við leitumst við að lágmarka kostnað framleiðslunnar að þá leitumst við til að sérhæfa okkur í því sem við erum skilvirkust í, en þegar við leitumst við að lágmarka fórnarkostnaðinn að þá er leitast eftir því að hámarka afurðina sem fæst með samvinnunni. Allt þetta er staðreynd sökum þess að tíminn er sú sjaldgæfa afurð sem við erum sífellt að reyna að hagræða með tilliti til.

Ef við breytum dæminu og segjum að Crusoe sé fær um að veiða 6 kanínur eða 12 fiska á dag, á meðan Friday er fær um að veiða 4 kanínur eða 2 fiska. Curose gæti verið reyndari í sínum veiðum og verið búinn að safna upp meira kapítali með því að nýta veiðispjót eða veitinet til þess að gera veiðar sínar skilvirkari.

Framleiðslumöguleikar í einangrun (I) og með hlutfallslegum yfirburðum í viðskiptum (T).

Crusoe gæti hugsað; “Ég er betri en Friday að veiða bæði fisk og kanínur, afhverju ætti ég að vinna með honum?” og Friday gæti hugsað; “Hann er betri en ég í báðum verkum, afhverju myndi hann vilja vinna með mér?”, en þeir geta í raun báðir hagnast á samvinnu og verkaskiptingu. Í einangrun veiðir Friday að meðaltali 2 kanínur og 1 fisk á dag, á meðan Crusoe veiðir að meðaltali 3 kanínur og 6 fiska á dag. Hér sjáum við að Friday getur fært sig yfir í að veiða aðeins kanínur og veiðir þá 4 kanínur á dag (punktur S), á meðan Crusoe færir sig yfir í að veiða aðeins Fisk og veiðir þá 12 fiska á dag (punktur S1), með því móti veiða þeir samanlagt 12 fiska og 4 kanínur, en ef þeir hefðu unnið í einangrun og reynt að hámarka sínar veiðar hvor um sig hefðu þeir endað samanlagt með 7 fiska og 5 kanínur á dag. Ef þeir vildu halda áfram að veiða 5 kanínur á dag gæti Crusoe fært sig yfir í að veiða 10 fiska og 1 kanínu á dag (punktur S2), og myndu þeir þá hafa samanlagt 11 fiska og 5 kanínur. Með samvinnunni fær Crusoe því 8 fiska og 3 kanínur á dag og Friday fær 2 fiska og 2 kanínur á dag, þannig geta þeir hvor um sig hagnast á samvinnunni.

Munurinn liggur því ekki í kostnaði framleiðslunnar heldur fórnarkostnaðinum að stunda hana ekki. Því Crusoe hefur um tvennt að velja:

A: Að gefa upp 2 fiska sem hann gæti veitt til þess að veiða sér 1 kanínu.

B: Að gefa Friday meira en hálfan fisk til þess að geta fengið 1 kanínu í staðin.

Aðferð A kostar Crusoe 2 fiska, á meðan aðferð B kostar hann rúmlega hálfan fisk að meðaltali.

Þó svo það sé smá stærðfræði innifalin í þessari útskýringu að þá er hún samt ekki svo mikilvæg í stóra samhenginu og ef ég væri að reyna að útskýra þetta frá sjónarmiði þjóðhagfræðinnar sem kennd er í háskólum í dag myndi ég eyða talsvert meiri orðum og jöfnum í mínar útskýringar, en það eykur ekki skilning okkar á tilgangi og ágóða samvinnu og viðskipta, það aðeins skapar einfaldari leiðir til þess að prófa háskólanemendur í sínu fagi sem og að færa ófullnægjandi rökstuðning á inngripum ríkins í viðskiptum mannsins. Slíkt ýtir hagfræðingum frá því að dýpa skilning sinn á viðskiptum frá sjónarmiði mannlegrar hegðunar og gerir þá að tölfræðingum ríkisins.

Sérhæfing, verkaskipting og siðmenning

Sökum þess að fólk hefur ýmist mismunandi hæfileika, áhuga eða þekkingu til þess að sérhæfa sig í tilteknu starfi skapast verkaskipting og fylgir henni mikill ágóði, sökum algildra yfirburða og ólíks fórnarkostnaðar. Í einangruðu hagkerfi þar sem maður lifir aðeins með sér sjáfum þarf hann að framleiða allt það sem hann neitir, en í markaðshagkerfi framleiðir maður það sem hann áætlar að aðrir þurfa. Með því að sérhæfa sig í tiltekinni framleiðslu hvort sem það er sem smiður, kokkur, forritari eða læknir, framleiðir maðurinn ekki fyrir sína eigin neyslu, heldur framleiðir hann vörur og þjónustu þar sem afköst hans eru sem mest.

Þó svo sérhæfing í viðskiptum sé gerð til þess að auka afköst okkar, skapar hún sömuleiðis þörfina fyrir samfélagslegri samvinnu og siðferðislegri hegðun, þar sem hagurinn af friðsælum viðskiptum í gegnum verkaskiptingu er mjög hár. Þannig verður það fólk sem á vegi þínum verður þér til gagns, og þú sömuleiðis þeim, þannig borgar það sig að haga sér sómasamlega.

Sú mýta að samfélagið sé gert til þess að kúga okkur niður, hvort sem það kemur frá vinstri eða hægri sinnuðu fólki, ungu eða gömlu, trúuðu eða trúlausu, að þá er slík túlkun á samfélaginu tilganslaus og kjánaleg. Ég mun fara betur yfir það þegar ég mun ræða siðmenningu ýtarlegar, en lykilatriðið er að ástæða þess að við lifum í siðmenntuðu samfélagi þar sem við höfum flest öll þak yfir höfði okkar, hreint heitt og kalt vatn úr krönum okkar, skólplagnarkerfi og snjallsíma í hendi okkar er þökk sé sérhæfingar í viðskiptum mannsins, því slíkt eykur framleiðni okkar og bætir lífsgæði allra. Siðmenning snýst um það hvernig við getum umgengist annað fólk og hagnast á því án þess að vera endilega bestu vinir eða bundin fjölskyldubönum.

Umfang markaðsins

Þó svo dæmið um Crusoe og Friday sé einfalt að þá sýnir það okkur þó hvernig samvinna tveggja einstaklinga eykur framleiðni þeirra beggja, en það sem fæstir gera sér fulla grein fyrir er hversu mikið hærri afköst fólks verða eftir því sem hagkerfið stækkar, því slíkt gerist ekki línulega heldur í veldisvexti, þ.e. að samfélag sem samanstendur af 10 einstaklingum er því miklu meira en 10 sinnum afkastameira, því hver og einn einstaklingur sem tekur þátt í hagkerfinu bætir afköst allra samtímis, því fleiri sem lifa í samfélaginu, því frekar getur fólk sérhæft sig, og því afkastameiri verður jaðarafurð framleiðslu hvers einstaklings.

Samfélag sem samanstendur af 1.000 manns getur ekki verið fært um að búa til bíl, tölvur eða snjallsíma, en öllu einfaldara og ótrúlegra er einfaldur blýantur. Þó svo blýantur virðist einfalt skriffæri að þá krefst það samvinnu og verkaskiptingu þúsundir, ef ekki milljónir manna.

Blýanturinn er gerður úr tré, sem þarf að saga niður með því að nota sög, til þess að búa til sögina þarf að búa til stálið í hana, og til að búa til stálið krefst það þess að grafa eftir járngrýti. Sömuleiðis er það sem við skrifum með kallað blý, en blý er gert úr grafíti og leir sem þarf að grafa sömuleiðis eftir og vinna. Strokleðrið er svo búið til í verksmiðjum, ýmist sem gervigúmmi eða unnið úr gúmmí ákveðinna trjátegunda. Álið sem festir strokleðrið við blýantinn kemur svo frá álverksmiðjum, og svo á endanum er allt límt saman með lími sem krefst sömuleiðis flókinnar framleiðslu. Fólkið sem býr til blýantinn okkar telur á mörgum þúsundum eða jafnvel milljónum, fólk sem talar ekki sama tungumál, sem yrkir ólíka trú og gæti mögulega hatað hvort annað ef það myndi nokkurntíman hittast og kynnast. Milton Friedman fer nánar og e.t.v. betur yfir þetta í video-i sínu hér: https://www.youtube.com/watch?v=67tHtpac5ws

Viðskipti stórauka okkar afköst og er því engin furða að fólk leitist stanslaust eftir að stunda þau. Einnig hvetja þau til þess að maðurinn hófstilli sína árásagjörnu eðlishvöt og leitist friðsællar samvinnu þess í stað. Að ókunnugt fólk, sem ekki tengist neinum vina- eða fjölskylduböndum geti stundað viðskipti sem hagnast báðum aðilum er okkar ofurkraftur og ein helsta grunnforsenda mannlegrar siðmenningar. Þegar við getum unnið saman á friðsælan máta, virt líkama, eignir og vilja hvors annars, hvetjum við til siðferðislegra athafna sem auka okkar afköst sem skapar svo okkar samfélög.

--

--